Verklegar æfingar í náttúrufræði

10 3. Verklegar æfingar í náttúrufræði 3. Verklegar æfingar í náttúrufræði Oft er talað um náttúruvísindi sem reynsluvísindi og því hefur þótt henta vel að byggja kennslu í greininni að hluta til á athugunum og tilraunum. Það eru auðvitað til ótal aðferðir við kennslu í náttúrufræði og eðlisfræði. Tilraunavinna er aðeins ein aðferð af mörgum en kostir hennar eru meðal annars að: • Vekja áhuga nemenda á fyrirbærum náttúrunnar. • Opna augu nemenda fyrir eðlisfræði í umhverfinu og tengja viðfangsefni við daglegt líf. • Efla skilning á viðfangsefninu með því að hvetja nemendur til að tjá sig um reynslu sína, velja sér vinnuaðferðir og komast að niðurstöðu. • Auka líkur á að rangar forhugmyndir nemenda víki. • Þjálfa nemendur í að nota hugtök í náttúrufræði í eðlilegu samhengi og byggja upp orðaforða sinn tengdan greininni. • Gefa nemendum færi á að afla sér nýrrar reynslu og auka við þekkingu sína á eðli flókinna viðfangsefna. • Þjálfa nákvæm og skipulögð vinnubrögð s.s. að afla gagna, vinna úr þeim og meta það sem fengist er við. • Efla samvinnu nemenda. • Gefa nemendum færi á að upplifa, taka saman niðurstöður og draga ályktun af reynslu sinni. Mikilvægt er þó að hafa í huga að tilraunir einar og sér leiða ekki af sér markvisst nám. Til- raun er mikilvægur þáttur í kennsluferli sem hefst með innlögn kennara og undirbúningi þar sem tilgangur tilraunarinnar og verklag eru útskýrð. Að tilraunavinnu lokinni er mjög mikilvægt að kennari stýri samantekt í bekknum þar sem farið er yfir niðurstöður hópanna og útskýringar þeirra. Nemendur þurfa að fá tækifæri til að hugleiða tilraunirnar og velta fyrir sér mismunandi niðurstöðum ef svo ber undir. Umræður undir stjórn kennara er for- senda fyrir því að tilgangur vinnunnar skili sér þ.e. að nemendur læri það sem stefnt var að. Einnig að þeir fái nýjar hugmyndir, nýjar spurningar vakni hjá þeim og áhugi á að vita meira kvikni. Tilhögun kennslunnar Öll verkefni í heftinu hafa verið prófuð í bekkjum með 21-24 nemendum. Efninu var skipt niður á svokallaðar vinnulotur eftir efnisþáttum, t.d. rafmagn, kraftar o.fl . Hver vinnulota stóð frá 3 upp í 6 vikur, miðað við 3 kennslustundir í viku. Nemendur unnu saman í þriggja til fjögurra manna hópum og því voru 6-8 hópar í hverjum bekk. Kennslustundirnar voru 40-80 mínútur og hóparnir framkvæmdu 1-3 tilraunir í hverri kennslustund. Til að auðvelda skipulagið og til að efla sjálfstæða vinnu nemenda voru u.þ.b. 8 tilraunir valdar fyrir hverja lotu. Ljósrituðum verklýsingum, áhöldum og efni fyrir hverja tilraun var komið fyrir í númeruðum kössum á vinnusvæðinu. Nemendur völdu sér viðfangsefni og hófust handa. Með þessu fyrirkomulagi gátu 6-8 hópar framkvæmt mismunandi tilraunir undir stjórn eins kennara.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=