ER HEIMSMYND ÞÍN RÉTT? Er heimsmyndin þín í samræmi við raunveruleikann? Hvað veistu í raun um þróunina í heiminum? Eru aðstæður á jörðinni að versna eða fara þær batnandi? Þrátt fyrir heimsfaraldra, stríð og loftslagsvandann höfum við náð miklum framförum á síðastliðnum 200 árum. Meðallífslíkur hafa aukist, ungbarnadauði hefur minnkað og dregið hefur úr sárafátækt um allan heim. Þekking fólks á stöðu mála í heiminum er auðvitað mismikil. Hvort sem þú leitast sérstaklega eftir því að fræðast meira um þróun mála erlendis eða átt nóg með að fylgjast með því sem er í gangi í nærumhverfi þínu mætir þér stöðugur straumur frétta og frásagna frá ýmsum heimshornum frá hinum og þessum heimildum. Þú færð þessar fregnir beint í símann þinn sem tilkynningar, í gegnum samfélagsmiðla, úr bókunum sem þú lest og sjónvarpsþáttum sem þú horfir á, frá fólkinu í kringum þig og frá söfnunarátökum ýmissa hjálparsamtaka. Fáir miðlar veita okkur yfirvegaða og heildstæða mynd af heiminum. Oft beinast fréttatilkynningar að átökum, farsóttum og náttúruhamförum, en sjaldan er fjallað um langvarandi frið eða hversu mörg börn hljóta menntun. Samfélagsmiðlar þurfa að sýna efni sem grípur athygli þína og hjálparstofnanir þurfa að beina athyglinni að þeim vanda sem þau eru að reyna að leysa. Í nútímasamfélagi getur einnig verið erfitt að greina á milli staðreynda, skoðana, áróðurs og annars konar villandi eða rangra upplýsinga. Upplýsingaóreiða er ekki nýtt fyrirbæri en með nútímatækni má dreifa villandi upplýsingum hraðar en nokkru sinni fyrr. Það er mikilvægt að reyna að flokka og vinna úr þeim upplýsingum sem þú færð, kanna uppruna þeirra, setja þær í samhengi og mynda þína eigin skoðun á ástandi heimsins. Þetta er gríðarlega erfitt en í ljósi þess hversu hratt fréttir og upplýsingar dreifast í dag er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að kanna heimildir og staðreyna upplýsingar. 7
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=