ÞAÐ ER EKKI BARNALEGT AÐ HALDA Í VONINA Henrik Fredborg Larsen finnur von í óvæntum bandalögum sem myndast í baráttunni fyrir betri heimi. Það er til dæmis mjög auðvelt að trúa því að ekkert gerist á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna vegna spennu í alþjóðamálum og neitunarvalds öryggisráðsins. En þrátt fyrir vaxandi pólitíska skautun tókst heimsbyggðinni nýverið að sameinast enn á ný í sáttmálum um sjálfbæra þróun, með sögulegu samkomulagi bæði varðandi líffræðilega fjölbreytni og úthöfin. Úthöfin eru þau hafsvæði sem liggja utan landhelgi ríkja heims, þau tilheyra engri einni þjóð heldur eru sameiginleg auðlind okkar allra. Með sáttmálanum hefur heimurinn samþykkt og sett reglur um verndun og sjálfbæra nýtingu þessarar gríðarlega stóru og að mestu ókönnuðu auðlindar og líffjölbreytni hennar. „Þetta er ótrúlega mikilvægt og einstakt samkomulag, þar sem höfin skapa mikilvægt jafnvægi í loftslagskerfinu. Höfin hafa stöðugleikaáhrif þar sem þau gleypa mikið af koltvísýringslosuninni sem hefur orðið eftir iðnvæðingu. Höfin eru sameiginleg auðlind sem við höfum öll hagsmuni af því að varðveita. Sáttmálarnir eru líka sönnun þess að við getum sameinast og unnið saman, jafnvel við erfiðustu aðstæður. Markmið um sjálfbæra þróun tengjast innbyrðis og við ættum að líta á þau sem kerfi allra þriggja vídda sjálfbærrar þróunar – félagslegrar, umhverfislegrar og efnahagslegrar. Þrátt fyrir neikvæða þróun síðustu ára er mikilvægt að hafa í huga að undanfarna áratugi hefur mjög margt þokast í rétta átt. Okkur hefur tekist að minnka fátækt í heiminum um helming. Mörg okkar lifa bæði lengur og við betri heilsu og tækniþróun hefur ýtt undir ótrúlegar framfarir á ýmsum sviðum, allt frá endurnýjanlegri orku og samgöngum til aukins aðgengis að menntun.“ „Þegar ég er spurður hvort mögulegt sé að ná markmiðunum okkar er svar mitt já. Leikir vinnast oft í seinni hálfleik og með heimsmarkmiðunum höfum við skýra leið, byggða á vísindalegum grunni, til að fylgja. Ef við tökum ábyrgar stefnumótandi ákvarðanir í takt við markmiðin, bæði á innlendum og á alþjóðlegum vettvangi, og beinum á sama tíma fjárfestingum í átt að grænna og sjálfbærara hringrásarhagkerfi, og hugum ávallt að þeim sem eru í mestri áhættu, þá munum við ná markmiðum okkar,“ segir Henrik að lokum. HVAÐ GETUR ÞÚ GERT? Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun eru metnaðarfull, alþjóðleg og samþætt markmið sem krefjast samstarfs milli ríkja, alþjóðastofnana og ólíkra hagsmunaaðila um allan heim. Það hljómar umfangsmikið og flókið. Hvað getur þú sem einstaklingur gert? Heilmargt! Allir þurfa að leggja sitt af mörkum ef við ætlum að ná markmiðum okkar fyrir árið 2030. Rödd og athafnir hvers og eins skipta máli. Sem betur fer er ýmislegt sem við getum gert í daglegu lífi sem hefur mikil áhrif. Hér er listi yfir 10 hluti sem þú getur gert til að leggja þitt af mörkum til að stuðla að sjálfbærri þróun: 68
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=