VERÐUR HEIMURINN BETRI? Verður heimurinn betri? Við þessari spurningu eru mörg mismunandi svör. Mörg okkar lifa lengra, heilbrigðara og innihaldsríkara lífi. En lifnaðarhættir okkar setja mikið álag á jörðina og stríð, átök og heimsfaraldrar geisa um heiminn. Í september 2015 innleiddu aðildarríki Sameinuðu þjóðanna Áætlun 2030, alþjóðlega áætlun um sjálfbæra þróun með 17 heimsmarkmiðum sem eiga að nást fyrir árið 2030. Þetta er metnaðarfyllsta áætlun um sjálfbæra þróun sem sést hefur í heiminum. Langar samningaviðræður og samræður undirbjuggu innleiðingu Áætlunar 2030 þar sem fólk með ólíkan bakgrunn alls staðar að úr heiminum fékk að láta í sér heyra. Markmiðin varða okkur öll og mynda vegvísi í átt að sjálfbærri þróun fyrir allt mannkyn og jörðina fyrir árið 2030. Með Áætlun 2030 höfum við öll skuldbundið okkur til að útrýma fátækt, draga úr mismunun, vernda náttúruna og vistkerfi okkar, leysa loftslagsvandann og stuðla að frelsi og réttlæti allra. Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun innihalda allar þrjár víddir sjálfbærrar þróunar: félagslega, efnahagslega og umhverfislega. Þetta þýðir að við getum ekki einblínt eingöngu á efnahagslega þróun því félagsleg og umhverfisleg sjálfbærni skipta jafn miklu máli. Það þýðir einnig að þróun þarf að fara fram á sanngjörnum forsendum þar sem enginn er skilinn eftir og þar sem við göngum ekki meira á auðlindir okkar en jörðin þolir. Nú þegar við erum hálfnuð við innleiðingu Áætlunar SÞ um sjálfbæra þróun 2030 er alveg ljóst að heimurinn er ekki á réttri leið. Samfélags- og efnahagslegar afleiðingar í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins og innrásar Rússlands í Úkraínu hafa dregið úr þeim árangri sem náðst hefur og stuðlað að sögulegri afturför í samfélagslegri þróun. Við horfum upp á langvarandi átök, vaxandi loftslagsbreytingar, hnignun lýðræðis og að fjölmörg lönd glíma við mikla efnahagsörðugleika. Þetta eru erfiðir tímar fyrir fjölda fólks um allan heim. Áskoranirnar eru margar – en lausnirnar einnig. Það er mikilvægt að hafa í huga að fyrir faraldurinn upplifðum við áratugi af fordæmalausum árangri, sem birtist í minni alþjóðlegum ójöfnuði, auknum tekjum á mann, bættum lífslíkum og stafrænum framförum. Heimurinn hefur aldrei áður gengið í gegnum jafn miklar og hraðar framfarir þegar kemur að heilsu fólks, menntun og lífskjörum. Það sýnir okkur að breytingar eru mögulegar og þekking á þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir er fyrsta skrefið í átt til þess að grípa til aðgerða. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (e. Sustainable Development Goals, SDG), setja stefnuna í átt að sjálfbærum og réttlátum heimi. Nú er það undir okkur komið að ganga úr skugga um að þau verði að veruleika. 4
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=