VERÐUR HEIMURINN BETRI? LÁTTU GÖGNIN MÓTA HEIMSMYND ÞÍNA
VERÐUR HEIMURINN BETRI? LÁTTU GÖGNIN MÓTA HEIMSMYND ÞÍNA
Þessi bók var framleidd af Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna, UNDP (United Nations Development Programme). UNDP starfar í 170 löndum og svæðum við að eyða fátækt, draga úr mismunun, vernda jörðina okkar, ýta undir friðsæl samfélög og aðstoða lönd við að ná heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun. Vinsamlegast heimsækið vef UNDP www.undp.org til að fá frekari upplýsingar. Fyrsta útgáfa af Verður heimurinn betri? var gefin út árið 2005. Þetta er áttunda uppfærða og endurskoðaða útgáfan, skrifuð af Maja Åström ásamt Norðurlandaskrifstofu UNDP. Fyrri útgáfa var skrifuð í samstarfi við Staffan Landin og Mikael Botnen Diamant. Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (United Nations Development Programme, UNDP). Bókin kemur nú út á íslensku í þriðja sinn. Íslensk útgáfa bókarinnar er í umsjón Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og nýtur útgáfan stuðnings utanríkisráðuneytisins. VERÐUR HEIMURINN BETRI? ISBN 978-9979-0-3365-3 Höfundarréttur: ÞRÓUNARÁÆTLUN SAMEINUÐU ÞJÓÐANNA (UNDP) 2025 Texti: Maja Åström, Staffan Landin, Mikael Botnen Diamant og Norðurlandaskrifstofa UNDP. Íslensk þýðing: María Rún Þorsteinsdóttir Grafísk hönnun: 14 Islands AB Hönnun þessarar útgáfu: Kristina Lemos, Brizzo Myndir: UNDP, UN Photo, UN Women Prentað af: Prentmiðlun ehf. / Lettland Vottaður, klórlaus pappír með plöntubleki. Prentið er endurvinnanlegt.
EFNI VERÐUR HEIMURINN BETRI? 4 #1 HUGARFARSBREYTINGIN 6 Er heimsmynd þín rétt? 7 Hvað er þróun? 10 200 ár sem breyttu heiminum 13 #2 ÁSTAND HEIMSINS 20 Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun 21 #Engin fátækt 26 #Ekkert hungur 30 #Lýðheilsa 32 #Menntun 38 #Friður 44 #Jafnréttikynjanna 46 #Tækni 50 #Loftslagsaðgerðir og #Náttúrafyrirlífið 54 #3 FRAMTÍÐIN KREFST AÐGERÐA 62 Leikurinn vinnst oft í seinni hálfleik 63 Meira um þróun á alþjóðavettvangi 74 Heimildir 77 Verður heimurinn betri?
VERÐUR HEIMURINN BETRI? Verður heimurinn betri? Við þessari spurningu eru mörg mismunandi svör. Mörg okkar lifa lengra, heilbrigðara og innihaldsríkara lífi. En lifnaðarhættir okkar setja mikið álag á jörðina og stríð, átök og heimsfaraldrar geisa um heiminn. Í september 2015 innleiddu aðildarríki Sameinuðu þjóðanna Áætlun 2030, alþjóðlega áætlun um sjálfbæra þróun með 17 heimsmarkmiðum sem eiga að nást fyrir árið 2030. Þetta er metnaðarfyllsta áætlun um sjálfbæra þróun sem sést hefur í heiminum. Langar samningaviðræður og samræður undirbjuggu innleiðingu Áætlunar 2030 þar sem fólk með ólíkan bakgrunn alls staðar að úr heiminum fékk að láta í sér heyra. Markmiðin varða okkur öll og mynda vegvísi í átt að sjálfbærri þróun fyrir allt mannkyn og jörðina fyrir árið 2030. Með Áætlun 2030 höfum við öll skuldbundið okkur til að útrýma fátækt, draga úr mismunun, vernda náttúruna og vistkerfi okkar, leysa loftslagsvandann og stuðla að frelsi og réttlæti allra. Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun innihalda allar þrjár víddir sjálfbærrar þróunar: félagslega, efnahagslega og umhverfislega. Þetta þýðir að við getum ekki einblínt eingöngu á efnahagslega þróun því félagsleg og umhverfisleg sjálfbærni skipta jafn miklu máli. Það þýðir einnig að þróun þarf að fara fram á sanngjörnum forsendum þar sem enginn er skilinn eftir og þar sem við göngum ekki meira á auðlindir okkar en jörðin þolir. Nú þegar við erum hálfnuð við innleiðingu Áætlunar SÞ um sjálfbæra þróun 2030 er alveg ljóst að heimurinn er ekki á réttri leið. Samfélags- og efnahagslegar afleiðingar í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins og innrásar Rússlands í Úkraínu hafa dregið úr þeim árangri sem náðst hefur og stuðlað að sögulegri afturför í samfélagslegri þróun. Við horfum upp á langvarandi átök, vaxandi loftslagsbreytingar, hnignun lýðræðis og að fjölmörg lönd glíma við mikla efnahagsörðugleika. Þetta eru erfiðir tímar fyrir fjölda fólks um allan heim. Áskoranirnar eru margar – en lausnirnar einnig. Það er mikilvægt að hafa í huga að fyrir faraldurinn upplifðum við áratugi af fordæmalausum árangri, sem birtist í minni alþjóðlegum ójöfnuði, auknum tekjum á mann, bættum lífslíkum og stafrænum framförum. Heimurinn hefur aldrei áður gengið í gegnum jafn miklar og hraðar framfarir þegar kemur að heilsu fólks, menntun og lífskjörum. Það sýnir okkur að breytingar eru mögulegar og þekking á þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir er fyrsta skrefið í átt til þess að grípa til aðgerða. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (e. Sustainable Development Goals, SDG), setja stefnuna í átt að sjálfbærum og réttlátum heimi. Nú er það undir okkur komið að ganga úr skugga um að þau verði að veruleika. 4
5
#1 HUGARFARSBREYTINGIN
ER HEIMSMYND ÞÍN RÉTT? Er heimsmyndin þín í samræmi við raunveruleikann? Hvað veistu í raun um þróunina í heiminum? Eru aðstæður á jörðinni að versna eða fara þær batnandi? Þrátt fyrir heimsfaraldra, stríð og loftslagsvandann höfum við náð miklum framförum á síðastliðnum 200 árum. Meðallífslíkur hafa aukist, ungbarnadauði hefur minnkað og dregið hefur úr sárafátækt um allan heim. Þekking fólks á stöðu mála í heiminum er auðvitað mismikil. Hvort sem þú leitast sérstaklega eftir því að fræðast meira um þróun mála erlendis eða átt nóg með að fylgjast með því sem er í gangi í nærumhverfi þínu mætir þér stöðugur straumur frétta og frásagna frá ýmsum heimshornum frá hinum og þessum heimildum. Þú færð þessar fregnir beint í símann þinn sem tilkynningar, í gegnum samfélagsmiðla, úr bókunum sem þú lest og sjónvarpsþáttum sem þú horfir á, frá fólkinu í kringum þig og frá söfnunarátökum ýmissa hjálparsamtaka. Fáir miðlar veita okkur yfirvegaða og heildstæða mynd af heiminum. Oft beinast fréttatilkynningar að átökum, farsóttum og náttúruhamförum, en sjaldan er fjallað um langvarandi frið eða hversu mörg börn hljóta menntun. Samfélagsmiðlar þurfa að sýna efni sem grípur athygli þína og hjálparstofnanir þurfa að beina athyglinni að þeim vanda sem þau eru að reyna að leysa. Í nútímasamfélagi getur einnig verið erfitt að greina á milli staðreynda, skoðana, áróðurs og annars konar villandi eða rangra upplýsinga. Upplýsingaóreiða er ekki nýtt fyrirbæri en með nútímatækni má dreifa villandi upplýsingum hraðar en nokkru sinni fyrr. Það er mikilvægt að reyna að flokka og vinna úr þeim upplýsingum sem þú færð, kanna uppruna þeirra, setja þær í samhengi og mynda þína eigin skoðun á ástandi heimsins. Þetta er gríðarlega erfitt en í ljósi þess hversu hratt fréttir og upplýsingar dreifast í dag er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að kanna heimildir og staðreyna upplýsingar. 7
HEIMURINN ER BETRI EN ÞÚ HELDUR Hvert er raunverulegt ástand heimsins? Hvað segir tölfræðin okkur? Við stöndum á tímamótum í sögu mannkyns. Undanfarin ár hafa hitamet fallið um heim allan, bæði á landi og í sjó. Mörg lönd hafa orðið fyrir gróðureldum og þurrkum en önnur glíma við skæðar rigningar og flóð1. Á sama tíma eru mörg lönd enn að takast á við afleiðingar COVID-19 heimsfaraldursins, fjöldi vopnaðra átaka í heiminum hefur ekki verið jafn mikill síðan í seinni heimsstyrjöldinni og ójöfnuður, bæði innan og á milli landa, fer vaxandi2. Allt þetta stuðlar að erfiðri efnahagsstöðu þar sem fjöldi þjóða glímir við alvarlega efnahagskreppu og miklar skuldir, sem gerir það nær ómögulegt fyrir þær að fjárfesta í fólki og innviðum til að ná markmiðum um sjálfbæra þróun. Þrátt fyrir neikvæða þróun síðustu ára hafa ýmsir þættir batnað á undanförnum áratugum, þó að þekking á þeirri framþróun sé misjöfn3. Á 21. öldinni hafa fjölmargir vísindamenn og stofnanir rannsakað þekkingu fólks á alþjóðlegri þróun. Meðal þeirra er Gapminder-stofnunin, sem árið 2019 lagði könnun fyrir 15.000 manns frá 31 landi. Niðurstöðurnar sýna að margir hafa ranga sýn á þróun heimsins og eru ómeðvitaðir um margar af þeim miklu framförum í þróunarmálum sem hafa átt sér stað á undanförnum áratugum. Til dæmis vissu aðeins 11% að sárafátækt í heiminum minnkaði um næstum 50 prósent á árunum 1999 til 2019. Raunar hélt 61% ranglega að sárafátækt hefði tvöfaldast á tímabilinu. Á sama tíma töldu 7 af hverjum 10 að innan við helmingur eins árs barna í heiminum væru bólusett þegar raunin er sú að allt að 89% barna fá bólusetningu gegn að minnsta kosti einum sjúkdómi á fyrsta æviári sínu. 8
HVERS VEGNA SKIPTIR SÝN OKKAR Á HEIMINN MÁLI? Það eru nokkrar ástæður fyrir því að mikilvægt er að þekkja framvindu alþjóðlegrar þróunar og gera okkur grein fyrir þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir. 1. Við getum lært af framförum. Til að geta lært af löndunum þar sem stórstígar framfarir hafa orðið verðum við að þekkja til framfaranna. Ef við þekkjum ekki staðreyndir er mikil hætta á að við drögum rangar ályktanir. Þar sem finna má dæmi um framfarir í öllum heimshlutum og á öllum sviðum verðum við að geta lært af reynslu þeirra sem hafa nú þegar náð árangri. Það þurfa ekki allir að finna upp hjólið. 2. Stöðugt mótlæti getur verið erfitt og niðurdrepandi. Ef við sjáum ekki þær breytingar og umbætur sem eru að eiga sér stað getum við bognað undan þunganum og misst þróttinn – hvers vegna að reyna að breyta heiminum ef það er ekki til neins? Þegar við gerum okkur grein fyrir framförum verður framlag okkar til breytinga þýðingarmeira. 3. Ótti og óþarfa kvíði skapa fordóma og hatur. Fordómar dafna í skjóli þekkingarleysis. Þegar ástandi heimsins er lýst eins og við séum á barmi glötunar verða lausnirnar sífellt örvæntingarfyllri. Leitin að sökudólgum getur auðveldlega dregið athygli okkar frá leitinni að varanlegum lausnum á raunverulegum vandamálum. 4. Það er gríðarlega mikilvægt að búa yfir raunsönnum upplýsingum varðandi stöðuna í heiminum þegar ákvarðanir varðandi framtíðina eru teknar. Gögn og tölfræði um ástand heimsins hjálpa okkur að greina mynstur, taka ábyrgar ákvarðanir og beina fjárfestingum á rétta staði til að takast á við þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir. 9
HVAÐ ER ÞRÓUN? Hvernig mælum við þróun? Hvað er verið að þróa? Er það staða ríkissjóðs, verg landsframleiðsla (VLF) á mann, auknar lífslíkur eða eitthvað allt annað sem ræður velferð okkar? Og hvernig vitum við hverjir munu hafa það betra og hverjir verra? Til að svara spurningunni „verður heimurinn betri?“ þurfum við fyrst að skilgreina hvað þarf að bæta og hvernig við mælum hvers kyns framfarir. Það sem flækir málin er að það er ekki til nein hlutlæg skilgreining á þróun sem á við um allt fólk og öll lönd. Sumir vilja meina að hagvöxtur sé besti mælikvarðinn á þróun en aðrir halda því fram að peningar geti í besta falli þjónað sem tæki til að öðlast aðra mikilvæga hluti í lífinu. Vissulega eru ákveðnar grunnþarfir sameiginlegar með öllu fólki, óháð búsetu eða því hversu mikið ráðstöfunarfé það hefur. Allir þurfa á mat, vatni og húsnæði að halda. Ef við veikjumst þurfum við aðgang að grunnheilbrigðisþjónustu og mögulega lyfjum. Við vitum að menntun skapar bæði börnum og fullorðnum aukin tækifæri í lífinu og að án atvinnu og lágmarkslauna reynist okkur erfitt að uppfylla grunnþarfir okkar. En hvernig mælum við slíkar framfarir? VERG LANDSFRAMLEIÐSLA (VLF) Verg landsframleiðsla (e. gross domestic product, GDP) er mælikvarði sem oft er notaður til að meta árangur og velmegun lands. VLF lýsir stærð hagkerfis lands með því að mæla verðmæti vara og þjónustu sem framleidd er í landi til neyslu, útflutnings og fjárfestinga. Það leikur enginn vafi á því að efnahagur er mikilvægur hluti af hugtakinu þróun. En það er ekki nóg að mæla efnahagslegar framfarir. Peningar einir og sér skapa ekki hamingju, velferð eða góða heilsu. Stærð hagkerfisins tryggir heldur ekki að allir njóti góðs af vextinum. Það hvernig peningar eru nýttir til fjárfestinga og hvernig þeim er varið er það sem skiptir mestu og endurspeglast í bættum lífsskilyrðum. Í mörgum löndum má finna skýr tengsl á milli vergrar landsframleiðslu á mann og lífsgæða og lýðheilsu. Hins vegar á þetta ekki við um öll lönd og þess vegna hefur þessi mælikvarði verið gagnrýndur. Auk þess 10
LJÓSMYND: UNDP ZAMBIA/KARIN SCHERMBRUCKER
tekur verg landsframleiðsla ekki tillit til umhverfisáhrifa framleiðslunnar á jörðina. VÍSITALA LÍFSKJARAÞRÓUNAR Ef ekki nægir að mæla efnahag landsins, hvað á þá að mæla? Til þess að öðlast dýpri skilning á þróun heimsins og fylgjast með framvindu einstakra ríkja þurfum við að skoða fjölbreytta mælikvarða sem varpa ljósi á mismunandi þætti þróunar. Til að bera saman þróunarstig mismunandi landa þarf fyrst að ákvarða hvað er talið skipta mestu í lífinu og hverju við viljum ná fram. Margar metnaðarfullar tilraunir hafa verið gerðar til að finna sameiginlegt viðmið eða skilgreiningu sem gæti komið í stað VLF sem mælikvarði á þróun. Sú sem mest er notuð er vísitala lífskjaraþróunar (e. Human Development Index, HDI) sem UNDP hefur þróað. Með þessari vísitölu er löndunum raðað eftir þremur þáttum samhliða: efnahag, heilbrigðismálum og menntun. HDI er þar af leiðandi yfirgripsmeiri mælikvarði á þróun en efnahagsþróun ein og sér. HNATTRÆNAR ÁSKORANIR ÞRÝSTA Á ENDURSKOÐUN HDI Frá árinu 1990 hefur mælikvörðum sem leggja mat á kynjajafnrétti þjóða og fátækt verið bætt við vísitölu lífskjaraþróunar til að teikna upp enn nákvæmari mynd af þróunar mála. Hins vegar hefur loftslagskreppan krafist þess að við endurskoðum þessa nálgun enn á ný. Ástæðan er sú að HDI tekur ekki tillit til vistspors okkar, til dæmis magns kolefnislosunar á hvern íbúa. Af þeim ástæðum var árið 2020 kynnt til sögunnar ný aðlöguð vísitala lífskjaraþróunar sem tekur tillit til vistspors (e. Planetary Pressures Adjusted HDI, PHDI). Þessi vísitala metur ekki aðeins umhverfisáhrif innan landamæra hvers ríkis, heldur einnig áhrif neyslu landsins á losun gróðurhúsalofttegunda í gegnum framleiðslu og flutninga í öðrum löndum. Lönd eins og Ísland sem búa við góð lífskjör og raðast hæst samkvæmt mælikvarða HDI falla niður í PHDIröðuninni. Ástæðan er sú að þessi lönd eru mjög háð innflutningi og hafa óhóflega háa losun á hvern íbúa, sem hefur neikvæð áhrif á jörðina okkar. Í dag mælist fylgni milli landa sem búa við góð lífskjör og óhóflegra áhrifa (í ljósi fólksfjölda) á jörðina. 12
200 ÁR SEM BREYTTU HEIMINUM Hvernig var líf langömmu þinnar? Hve löng var skólaganga hennar? Hvaða áhrif hafði það á möguleika hennar til ákvarðanatöku varðandi eigið líf? Undanfarin 200 ár hafa orðið einstakar framfarir í sögu mannkynsins. En það var ekki fyrr en á síðustu áratugunum fyrir COVID-19 faraldurinn sem þessar framfarir komust á alvöru skrið. Á síðastliðnum 200 árum hefur heimurinn tekið risastór skref fram á við. Það gleymist auðveldlega að fátækt, hungur og sjúkdómar voru lengi vel eðlilegt ástand fyrir flesta jarðarbúa. Við upphaf 19. aldarinnar var fjöldi jarðarbúa rétt undir einum milljarði og bjuggu 85–95% við aðstæður sem við skilgreinum í dag sem sárafátækt4. Meðalævin var stutt, á bilinu 25 til 40 ár. Í flestum löndum heims eignuðust konur að meðaltali fimm til sjö börn en þriðja hvert eða jafnvel annað hvert barn dó fyrir fimm ára aldur5. Þessi háa dánartíðni barna kom lengi vel í veg fyrir að íbúum jarðar fjölgaði að nokkru marki. Snemma á 19. öld komst fjöldi jarðarbúa í fyrsta skipti yfir einn milljarð. Það var síðan ekki fyrr en á fjórða áratug síðustu aldar að öðrum milljarðinum var náð. Svo fóru hlutirnir að gerast Við lok 6. áratugsins hófu Sameinuðu þjóðirnar að styðja við þróunarverkefni um allan heim, svo sem rannsóknir á jarðvegi og vatnsauðlindum í lágtekjulöndum. LJÓSMYND: UN/YUTAKA NAGATA 13
hraðar. Við fórum úr sex í sjö milljarða á aðeins 12 árum á milli 1999 og 2011. Í nóvember 2022 var áætlaður fjöldi jarðarbúa um 8 milljarðar. Spár gera ráð fyrir að fólksfjöldi muni halda áfram að aukast til ársins 2100, þegar búist er við því að við náum 11 milljörðum. Hvað varð til þess að heimurinn fór að breytast? Iðnbyltingin, nýjar uppfinningar, vísindalegar uppgötvanir og gríðarleg aukning í velmegun í ákveðnum löndum voru til marks um að nýir tímar væru að renna upp fyrir mannkynið. Það varð þó bið á því að þessar framfarir kæmu meirihluta fólks til góða. Það var ekki fyrr en í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar, gjarnan í tengslum við afnýlenduvæðingu og sjálfstæði nýlenduþjóða, að breytingarnar fóru að segja til sín í löndum Asíu, Afríku og Rómönsku Ameríku. Við lok seinni heimsstyrjaldar var það eiginlega aðeins í Vestur-Evrópu og NorðurAmeríku sem meðalævilengd fór yfir 50 ár. Í dag á það við um næstum öll lönd. Frá árinu 1960 hefur meðalævin lengst um 20 ár, dánartíðni barna lækkað úr 18 prósentum í það að vera undir 5 prósentum og tekjur (á mann) hafa allt að því þrefaldast. Þróunin hefur verið hröðust í Austur-Asíu, þar sem lönd eins og Singapúr, Taívan og Suður-Kórea upplifðu öran efnahagslegan vöxt snemma sem birtist einnig síðar í Kína. Í Rómönsku Ameríku hefur þróunin verið hægari en þar hófst uppgangurinn hins vegar fyrr. Undanfarin 50 ár hefur mannkynið gengið í gegnum mestu breytingar sem orðið hafa hvað varðar heilsu og efnahag. Þessar breytingar hafa ekki aðeins áhrif á flesta þætti mannlegs lífs, heldur einnig á umhverfi okkar, aðrar dýrategundir og jörðina sem við búum á. Kennsla í tölvulæsi er hluti af ungmennaverkefni gegn róttækni og til eflingar samfélagsuppbyggingu í Máritaníu. LJÓSMYND: UNDP/FREYA MORALES 14
LJÓSMYND: UNDP COSTA RICA/ PRISCILLA MORA 15
JÁ! Við lifum lengra, heilbrigðara og innihaldsríkara lífi EN lifnaðarhættir okkar stofna jörðinni okkar í mikla hættu
AFRÍKA SUNNAN SAHARA Í flestum löndum Afríku sunnan Sahara fór efnahagsþróunin hægt af stað í kjölfar sjálfstæðis. Eftir þokkalegan hagvöxt á sjöunda áratugnum og í upphafi þess áttunda dróst hagvöxtur saman á svæðinu tvo áratugi í röð. Árið 2000 var Afríka sunnan Sahara fátækari en við lok sjöunda áratugarins. Meðalævilengd var 50 ár og hafði ekki aukist í næstum tvo áratugi og dánartíðni barna var enn mjög há. Hluta skýringanna er vafalaust að leita í innanlandsmálum. Nýlendutíminn skildi mörg lönd eftir í mjög slæmri stöðu með veikburða stofnanir og ríkisstjórnir og skort á lýðræðislegum stjórnarháttum. Mörg lönd voru hrjáð af langvarandi borgarastyrjöldum og miskunnarlausum einræðisherrum. Í mörgum þessara landa hafði sjálfstæðið fengist með vopnaðri frelsisbaráttu og margir nýju leiðtoganna sóttu völd sín í grimmilegum stríðsátökum. En skýringa má einnig leita í viðhorfi umheimsins. Kalda stríðið gerði mörg smærri lönd að peðum í valdatafli stórvelda, sem var sjaldnast til hagsbóta fyrir íbúa í löndum Afríku. Fjöldi annarra þátta stóð einnig í vegi fyrir þróun í mörgum Afríkulöndum: skæðir sjúkdómar, mikil fjarlægð frá heimsmörkuðum, útbreidd fátækt sem frá upphafi hindraði þróun, skortur á háskólamenntun og reynsluleysi á mörgum starfssviðum sem stórum hluta íbúanna var áður haldið frá. Það er mikilvægt að hafa í huga að þróun lands ræðst af mörgum þáttum og að mismunandi þættir hafa haft ólíkt vægi í hinum 54 ríkjum Afríku. Í sumum tilvikum hefur HIV/alnæmi verið helsta fyrirstaðan, í öðrum löndum hafa stríð, landfræðileg lega eða slæmir stjórnarhættir haft meiri áhrif. En með tímanum fóru aðstæður að breytast. Lýðræðið festist í sessi, stríðum og átökum fór fækkandi og pólitískar umbætur hafa umbreytt Afríku. Frá árinu 2000 hefur þróunin verið hröð í mörgum löndum Afríku, dánartíðni barna hefur lækkað og lífslíkur aukist. Hins vegar glíma nokkur lönd enn við viðvarandi ójöfnuð, spillingu, langvarandi átök, fæðuóöryggi og efnahagslegar áskoranir. Ógnir við lýðræði eru að aukast og aukin misskipting auðs innan og milli landa hefur leitt til aukinna átaka milli stríðandi stétta og pólitískrar spennu. Á árunum 2020 til 2023 urðu sjö valdarán og fjórar tilraunir til valdaráns, sem er veruleg fjölgun í samanburði við síðustu tvo áratugina þar á undan. Á sama tíma hefur íbúafjöldi Afríku haldið áfram að aukast og búist er við því að árið 2100 muni 40 prósent jarðarbúa búa í Afríku6. VERUM VIÐBÚIN ÁFRAMHALDANDI ÞRÓUN Aldrei áður í sögunni hafa orðið jafn miklar og róttækar breytingar sem hafa haft jafn byltingarkennd áhrif á lífsskilyrði okkar og samspil við jörðina. Hins vegar krefjast breytt lífsskilyrði þess að við mætum þeim áskorunum sem þessi hraða þróun felur í sér og að við gerum það án þess að eyðileggja eða skaða umhverfi okkar. Við verðum að tryggja að framfarir nái til allra og að við getum 17
tekist á við nýjar áskoranir á vegferð okkar. Ef við gerum það ekki stefnum við þeim framförum sem þegar hafa orðið í hættu og í framhaldinu lífi mannkyns á jörðinni. Þetta er kjarni Áætlunar 2030 og heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Í næsta kafla er farið betur í markmiðin, hvað þau þýða og hvað verið er að gera til að ná þeim. Þessi bók mun færa þér sögur, tölfræði og staðreyndir sem þú getur bent á næst þegar einhver í kringum þig heldur því fram að „allt hafi verið betra í gamla daga“. Bilan Media – Eina kvenkyns fjölmiðlateymi Sómalíu. Stofnað árið 2022 og nýtir áunnið tjáningarfrelsi sitt til að varpa ljósi á mannréttindabrot og þróunarmál. LJÓSMYND: UNDP SOMALIA 18
Þróun síðan á 7. áratugnum 1960 2025 Meðalævilengd 48 ár 73,5 ár Fjöldi barna á hverja konu 5 börn 2,2 börn Ungbarnadauði 13,2% 2,6% Barnadauði undir 5 ára 21,6% 3,5% Heimild: Alþjóðabankinn, Gagnaveita Mannfjöldadeildar Sameinuðu þjóðanna Dæmi um þróun 2000–2025 2000 2025 Ungbarnadauði í Afríku sunnan Sahara 9,3% 4,6% Meðalævilengd í Rúanda 48 ár 68 ár Ungbarnadauði í Rúanda 10,7% 2,5% Ungbarnadauði í Malaví 10,5% 2,8% Ungbarnadauði í Líberíu 12,8% 5,4% Heimild: Gagnaveita Mannfjöldadeildar Sameinuðu þjóðanna (Meðalævilengd, Ungbarnadauði, 0-1 árs) 19
#2 ÁSTAND HEIMSINS
HEIMSMARKMIÐIN UM SJÁLFBÆRA ÞRÓUN Hefur þú heyrt um Áætlun 2030? Hvert heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun telur þú vera mikilvægast? Fyrsta markmiðið – engin fátækt? Eða kannski það tíunda – aukinn jöfnuður? Eða ertu spenntari fyrir markmiði 13 – aðgerðum í loftslagsmálum? Þann 25. september árið 2015 samþykktu öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna Áætlun 2030 – 17 heimsmarkmið um sjálfbæra þróun. Um er að ræða heildstæða alþjóðlega áætlun sem nær til allra íbúa jarðarinnar og er metnaðarfyllsta samkomulag um sjálfbæra þróun sem heimsleiðtogar hafa nokkurn tímann gert með sér. Áætlunin og hugtak sjálfbærrar þróunar ná til þriggja þátta sjálfbærninnar: félagslegra, efnahagslegra og umhverfisþátta. Fram til ársins 2030 höfum við skuldbundið okkur til að uppræta sárafátækt, draga úr ójöfnuði í heiminum, vernda jörðina okkar og stuðla að friði og réttlæti. Öll börn eiga að fá góða menntun, berjast á gegn ójöfnuði milli kynja, milli fátækra og ríkra sem og milli borga og landsbyggðar. Þá á að útrýma HIV, malaríu og berklum í heiminum. Þar að auki á öll framleiðsla og neysla að verða sjálfbær og umhverfisvæn. Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun eiga að virka sem sameiginlegur vegvísir í átt að réttlátari og sjálfbærari heimi fyrir okkur öll. Saman mynda Áætlun 2030 og heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun vísindalega áætlun sem þróuð var í stærsta alþjóðlega samráðsferli sem Sameinuðu þjóðirnar hafa stýrt. Samráðsfundir, áköll úr öllum heimshlutum og víðtækar samræður við vísindafólk, aðildarríki, fulltrúa iðnaðarins, borgarasamfélagsins og almennings áttu sér stað fyrir opnum tjöldum á meðan á ferlinu stóð. Aldrei áður hafa svo margir tekið þátt í alþjóðlegu ákvörðunarferli. Allt þetta hafði áhrif á formlegar viðræður sem leiddu til þess að Áætlun 2030 var samþykkt. Áætlunin inniheldur 17 heimsmarkmið um sjálfbæra þróun, 169 undirmarkmið og meira en 230 vísa varðandi innleiðingu og eftirfylgni. 21
HVERNIG GENGUR OKKUR? Nú þegar líður á innleiðingarferli heimsmarkmiðanna virðast áskoranirnar meiri en áður. Við stöðumat sumarið 2024 sýndi árleg skýrsla Sameinuðu þjóðanna, þar sem farið er yfir framgang markmiðanna, að aðeins um 17% af 169 undirmarkmiðum voru á réttri leið. Nærri helmingur þeirra var eftir á og um þriðjungur hafði algjörlega staðnað eða færst aftur á við frá árinu 2015. Skortur á framþróun heimsmarkmiðanna er alþjóðlegt vandamál. Það leikur hins vegar enginn vafi á því að afleiðingar mistaka okkar bitna harðast á fátækustu og viðkvæmustu hópunum. Þetta er bein afleiðing alþjóðlegrar misskiptingar sem á rætur að rekja hundruð ára aftur í tímann en viðgengst enn þann dag í dag. Loftslagsbreytingar, COVID-19 faraldurinn og efnahagslegur ójöfnuður auka enn á vandann, svo að lág- og millitekjulönd hafa færri leiðir og úrræði en áður til að ná markmiðunum. Norðurlandaríkin, að undanskildu Íslandi, eru í fararbroddi þegar kemur að innleiðingu heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun. Í árlegri röðun Sameinuðu þjóðanna á þeim löndum sem hafa náð mestum árangri var Ísland í 19. sæti af öllum 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna árið 20247. Á Íslandi hefur Hagstofan umsjón með tölfræðilegri eftirfylgni heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun að beiðni ríkisstjórnarinnar. Mælingar á innleiðingu heimsmarkmiðanna eru vandasamt og krefjandi verkefni sem er unnið samhliða innleiðingu markmiðanna. Margar þjóðir búa yfir þróuðum hagstofum, en alls ekki allar. Miðlægur hluti starfs Sameinuðu 22
LJÓSMYND: UNDP BOLIVIA/MIGUEL SAMPER
þjóðanna aðstoðar þjóðir við að halda utan um tölfræði til að fylgjast með eigin þróun. MANNÖLDIN – ÖLD MANNESKJUNNAR Þróun mannkyns hefur bitnað illa á jörðinni okkar. Áhrif okkar á jörðina eru svo mikil að margir vísindamenn halda því fram að við séum á nýju jarðfræðilegu tímabili sem á ensku hefur verið kallað anthropocene en á íslensku mannöld. Tímabil sem nær frá upphafi iðnbyltingarinnar til dagsins í dag, þar sem aðstæður á jörðinni stjórnast nú af athöfnum mannanna. Innviðir sem eru í stöðugri uppbyggingu, t.d. vegir, brýr og járnbrautarteinar, sem og það sem ekki er sýnilegt, svo sem ljósleiðarar, gasleiðslur, vatns- og skólpkerfi og hitaveitur, vega nú meira en allt lífrænt efni, svo sem tré, plöntur og jarðvegur, samanlagt8. Á þessu nýja tímabili eru stærstu og brýnustu ógnirnar við velmegun okkar, þróun og lífsafkomu í raun okkar eigin smíði. Ef við höldum áfram á þessari braut er líklegra að fleiri heimsfaraldrar, öfgakenndara veðurfar og alvarlegri náttúruhamfarir muni eyðileggja þær miklu framfarir sem mannkynið hefur áorkað seinustu 200 árin. HEIMSFARALDUR OG INNRÁSARSTRÍÐ COVID-19 heimsfaraldurinn sem braust út snemma árs 2020 snerti okkur öll og hafði mikil neikvæð áhrif á sjálfbæra þróun, sér í lagi í lág- og millitekjulöndum. Auk hárrar tíðni dauðsfalla og mikilla áhrifa á lýðheilsu hafði heimsfaraldurinn miklar félagslegar og efnahagslegar afleiðingar og leiddi til lækkunar á vísitölu lífskjaraþróunar (e. Global Human Development Index, HDI) í fyrsta skipti síðan Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna hóf mælingar árið 1990. Í yfir 90% ríkja varð hnignum í lýðheilsu, menntun og lífskjörum annaðhvort árið 2020 eða 2021 og í yfir 40% þeirra varð hnignun bæði árin. Þannig sýndu tölfræðigögn hnignun tvö ár í röð, sem þýddi að árið 2022 vorum við á heimsvísu komin aftur á þróunarstig ársins 2016. Rétt þegar mörg lönd voru farin að ná sér eftir heimsfaraldurinn réðst Rússland inn í nágrannaríki sitt, Úkraínu. Innrás Rússa hafði mikil áhrif á stóran hluta heimsins, þar sem árásin leiddi bæði til 24
mikillar orkukreppu sem og alþjóðlegrar matvælakreppu með alvarlegum efnahagslegum afleiðingum. Fyrir stríðið var Úkraína einn umsvifamesti kornútflytjandi heims og mörg lág- og millitekjulönd treystu á innflutning á matvælum þaðan. Þeirra á meðal voru nokkur lönd í Austur-Afríku sem fyrir stríð voru þegar að kljást við alvarlega hungursneyð, næringarskort og hátt matvælaverð vegna langvarandi átaka og mikilla þurrka. Árið 2022 greindi UNDP frá því að yfir 70 milljónir manna í lág- og millitekjulöndum heimsins hefðu færst undir fátæktarmörk sem bein afleiðing hækkunar verðs á matvælum og orku. Haustið 2023 hefur alþjóðleg lífskjarakreppa ýtt fólki yfir fátæktarmörkin á mun meiri hraða en á tímum heimsfaraldursins9. BITNAR HARÐAST Á ÞEIM SEM VEIKUST ERU FYRIR Fólk sem býr við fátækt í lág- og millitekjulöndum er meðal þeirra sem verða fyrir mestum áhrifum af þeim langvinnu kreppum og átökum sem heimurinn glímir nú við. Þetta er einnig sá hópur fólks sem minnst hefur lagt til loftslagsbreytinga en er viðkvæmastur fyrir afleiðingum þeirra. Ástæða þess er sú að hnattræn hlýnun veldur gífurlegu álagi á náttúruauðlindir og eykur hættuna á hækkandi sjávarborði og náttúruhamförum á borð við þurrka og flóð. Fólk sem þegar býr við fátækt getur síður lagað sig að breyttum aðstæðum og treystir í meiri mæli á náttúruauðlindir til að tryggja lífsviðurværi sitt. Loftslagsbreytingar standa því í vegi fyrir því að það dragi úr fátækt og fæðuöryggi aukist, auk þess að skapa nýjar fátæktargildrur10. ER NOKKUR VON? COVID-19 heimsfaraldurinn minnti okkur á að við lifum í samofnum heimi og að við verðum að vinna saman til að koma í veg fyrir og leysa alþjóðleg vandamál. Þrátt fyrir neikvæða þróun síðustu ára er mikilvægt að muna að undanfarna áratugi hefur margt þróast í rétta átt. Okkur hefur tekist að minnka fátækt í heiminum um helming. Mörg okkar lifa lengur og njóta betri heilsu og tækniframfarir hafa knúið fram ótrúlegar breytingar á sviðum, allt frá endurnýjanlegri orku til samgangna og menntunar. Við munum fræðast meira um þetta og margt fleira í næstu köflum. Þrátt fyrir neikvæða þróun síðustu ára er mikilvægt að muna að undanfarna áratugi hefur margt þokast í rétta átt. 25
Fátækt er ein helsta fyrirstaða þróunar. Fólk sem býr við fátækt er líklegra til að veikjast og deyja fyrir aldur fram. Það er einnig sá hópur fólks sem verður fyrir mestum áhrifum af náttúruhamförum, efnahagskreppum og stríði. HVER ER SKILGREININGIN Á FÁTÆKT? Hægt er að skilgreina og mæla fátækt á mismunandi vegu. Algeng aðferð, sem Alþjóðabankinn notar, er að áætla hve stór hluti íbúa hefur lægri tekjur en tiltekna upphæð á dag, það eru skilgreind fátæktarmörk. Það er ekki sjálfgefið hvar draga skuli mörk fátæktar. Það hvar mörkin eru sett ræður því hvort það sem við skilgreinum sem fátækt eykst eða minnkar. Í dag er alþjóðlegt viðmið fyrir sárafátækt 2,15 bandaríkjadollarar á dag, sem er um 300 íslenskar krónur á núverandi gengi í febrúar 202512. Viðmiðið er leiðrétt eftir kaupmætti (vöruverð í ólíkum löndum) og verðbólgu svo að það sé samanburðarhæft. Þetta er það viðmið sem oftast er notað til að meta hvort fátækt í heiminum er að aukast eða minnka. FJÖLÞÆTT FÁTÆKT Fátækt snýst hins vegar ekki bara um tekjur. UNDP hefur þróað viðmið byggt á fjölþættri fátæktarvísitölu (e. Multidimensional Poverty Index, MPI)13. Þetta viðmið byggir á breiðari skilgreiningu á fátækt þar sem einnig er litið til aðgengis að matvælum og vatni, heilsugæslu og almennra lífskjara. Samkvæmt þessum viðmiðum býr 1,1 milljarður manna við mikla fjölþætta fátækt. Um helmingur þeirra er börn og #ENGIN FÁTÆKT Núverandi staða: Á heimsvísu fækkaði þeim sem bjuggu við fátækt um nærri einn milljarð manna frá 1990 til 2015. Þróunin hélt áfram en félagslegar og efnahagslegar afleiðingar COVID-19 og innrásarinnar í Úkraínu hafa snúið þessari þróun við og í fyrsta skipti í áratugi er fátækt að aukast aftur. Horfur: Ef núverandi þróun helst óbreytt munu 575 milljónir manna enn búa við sárafátækt árið 2030. Hins vegar tókst 25 þjóðum að helminga fátæktarvísitölu sína á tímabilinu 2000 til 2022, sem sýnir fram á að hraðar breytingar eru mögulegar11. 26
#ENGIN FÁTÆKT ungmenni undir 18 ára aldri. Meira en þriðjungur þeirra sem búa við fjölþætta fátækt býr í lágtekjulöndum, jafnvel þótt íbúar þessara landa séu aðeins 10% af íbúum heimsins. Hinir tveir þriðju hlutarnir búa í millitekjulöndum, sem sýnir mikilvægi þess að vinna með markvissar fátæktaraðgerðir, jafnvel í þeim löndum14. ÚTRÝMING SÁRAFÁTÆKTAR Á heimsvísu fækkaði fátæku fólki um nærri milljarð á milli 1990 og 2015. Þróunin hélt svo áfram í rétta átt, en félagslegar og efnahagslegar afleiðingar COVID-19 faraldursins og innrásarstríðsins í Úkraínu hafa snúið þessari jákvæðu þróun við. Í fyrsta sinn í áratugi hefur fátækt aukist á heimsvísu. Alþjóðabankinn áætlar að uppræta sárafátækt í Asíu fyrir árið 2030 en það verður ekki raunin alls staðar. Margir af fátækustu íbúum heims búa í löndum þar sem hagvöxtur er lítill eða mjög lítill. Ef ekkert breytist er áætlað að 575 milljónir manna muni enn lifa við sárafátækt árið 2030. Staðan er verst í löndum Afríku sunnan Sahara, þar sem yfir 25% íbúa búa við sárafátækt15. LJÓSMYND: UNDP ANGOLA/CYNTHIA R MATONHODZE Sárafátækt hefur áhrif á alla en konur standa frammi fyrir mun fleiri hindrunum til að komast úr fátækt. Þær búa oft við skert lagaleg réttindi, hafa færri úrræði, minni aðgang að heilbrigðisþjónustu og menntun og axla oftar ábyrgð á ólaunuðu eða vanlaunuðu umönnunarstarfi. 27
KYNNUMST SOMARI BAI FRÁ INDLANDI – FJÖLMENNASTA RÍKI HEIMS. Á ÁRUNUM 2005 til 2021 hefur 415 milljónum manna á Indlandi tekist að losna úr viðjum fátæktar. Ein þeirra er Somari Bai sem býr í Chhattisgarh-fylki á Mið-Indlandi. Sem ung móðir lenti hún skyndilega í þeirri stöðu að bera ein ábyrgð á sér og tveimur börnum sínum eftir að hún missti eiginmann sinn, tengdaföður og tengdamóður á sama árinu. Þrátt fyrir sorgina þurfti hún að halda áfram og sjá fyrir sonum sínum, en Somari átti sér þann draum að þeir fengju tækifæri til að ganga í skóla og mennta sig. Í fyrstu safnaði hún skógarafurðum eins og mahuablómum, ávöxtum, tendu- og paanlaufum og seldi á götumarkaðnum. En tekjurnar voru litlar og rétt dugðu fyrir nauðsynjum. Somari tilheyrir einum af ættbálkum frumbyggja Indlands sem búa og starfa í skógarhéruðum og hafa orðið fyrir alvarlegum áhrifum af loftslagsbreytingum, skógareyðingu og minnkandi líffræðilegum fjölbreytileika. En svo kom breyting sem veitti von. Árið 2006 voru ný lög samþykkt sem veittu frumbyggjum aukinn rétt til að eiga og nýta land. Fyrir Somari og marga aðra þýddi þetta að hún gat loks keypt og átt land, sem áður hafði verið nánast ómögulegt, ekki síst fyrir konur. Nýju lögin drógu úr óöryggi hennar varðandi framfærslu en einnig úr stöðugum ótta hennar við að verða hrakin af heimili sínu. Somari segir frá því að hún var fyrst til að grafa sinn eiginn brunn á býli sínu, sem gerði henni kleift að rækta bæði hrísgrjón og grænmeti. „Ég var fyrsti þorpsbúinn til að ráðast í slíkar framkvæmdir. Síðan byrjaði ég að selja uppskeruna mína á stærri mörkuðum,“ segir Somari. Með aukinni og stöðugri innkomu nutu Somari Bai og synir hennar bættra lífskjara og um leið meira frelsis. Heimild: Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna, UNDP #SÖGUR 28
LJÓSMYND: UNDP INDIA 29
#EKKERT HUNGUR Staðan í dag: Yfir 733 milljón manna búa við hungursneyð. COVID-19 faraldurinn og innrásarstríð Rússa í Úkraínu hafa leitt til aukins hungurs og meira óöryggis í fæðuframboði og tafið fyrir markmiðinu um að uppræta hungur í heiminum fyrir árið 2030. Horfur: Í mörgum heimshlutum hefur baráttan gegn hungri staðnað og heimurinn er kominn aftur á hungurstig sem hefur ekki sést síðan árið 200516. LJÓSMYND: UNDP INDIA/DHIRAJ SINGH 30
#EKKERT HUNGUR COVID-19 heimsfaraldurinn, loftslagsbreytingar, átök, efnahagsörðugleikar og vaxandi ójöfnuður hafa sett mikinn þrýsting á getu alþjóðlegra matvælakerfa til að framleiða og veita fólki næringarríka fæðu á viðráðanlegu verði. Eftir að þeim sem bjuggu við hungursneyð hafði fækkað um nærri helming við upphaf 21. aldarinnar, í kjölfar efnahagsvaxtar og aukinnar landbúnaðarframleiðslu, hefur þessi þróun snúist við17. Hungur í heiminum hefur aukist frá árinu 2015.Helsta ástæða þess er náttúruhamfarir vegna loftslagsbreytinga. Hins vegar hafa langvarandi átök, COVID-19 heimsfaraldurinn og aðrar kreppur einnig stuðlað að auknu hungri á heimsvísu. Flest þeirra sem þjást af hungri og vannæringu búa á svæðum sem verða verst úti vegna loftslagsbreytinga, þar sem Afríka og Suður-Ameríka eru í mestri hættu18. HEIMUR ÁN HUNGURS ER RAUNHÆFT MARKMIÐ Margir halda að aukning hungurs í heiminum sé til komin vegna þess að ekki sé til nægur matur fyrir alla. En vissir þú að þriðjungi alls matar í heiminum er hent? Í Evrópu hendum við 90 milljón tonnum af mat á hverju ári19. Við getum framleitt mat fyrir alla, en ójafnt aðgengi og óhagkvæm stjórnun leiða til þess að milljónir manna eru vannærðar. Flýta þarf aðlögun að loftslagsbreytingum, og við verðum að vinna markvisst að sjálfbærari landbúnaðarframleiðslu, sjálfbærari birgðakeðjum og sanngjarnari dreifingu auðlinda. Þar sem vinsælar tegundir matvæla til ræktunar, svo sem hveiti, hrísgrjón og maís, eru viðkvæmar fyrir öfgum í veðurfari þurfa sumar þjóðir og svæði að leggja áherslu á harðgerðari tegundir og auka fjölbreytni í landbúnaði sínum. Aðrar aðgerðir sem auka þolgæði og framboð matvæla fela í sér notkun á nútímatækni til að veita nákvæmari veðurspár og viðleitni til að aðstoða bændur við að flytja uppskeru sína á öruggan og sjálfbæran hátt20. 31
#LÝÐHEILSA Staðan í dag: Meðalævilengd á heimsvísu hefur lengst úr 46,5 árum árið 1950 í 73,5 ár árið 202521. Horfur: Gert er ráð fyrir að meðalævilengd hækki í 77 ár árið 2050 en COVID-19 heimsfaraldurinn og aðrar viðvarandi kreppur hafa hægt á framvindu markmiðsins um góða heilsu og velferð og aukið núverandi ójöfnuð í aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Alþjóðleg lýðheilsa er mæld á margvíslegan hátt og nær yfir marga mismunandi þætti þróunar þjóða. Oft eru notaðir víðtækir mælikvarðar sem taka saman ýmsar breytur varðandi líðan okkar. Meðalævilengd eða dánartíðni ungbarna gefur okkur innsýn í heilbrigðisástandið en einnig upplýsingar um efnahagsþróun og hvernig auðlindum er skipt innan ríkja. Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun sameina nokkrar ólíkar víddir alþjóðlegs heilbrigðis undir Markmiði 3: Heilsu og vellíðan. Þar á meðal eru dánartíðni barna og mæðradauði, smitsjúkdómar, kynheilbrigði og frjósemi, aðgengi að heilbrigðisþjónustu og bólusetningum, umferðarslys, geðheilbrigði, reykingar og önnur vímuefnanotkun. MEÐALÆVILENGD Algengasti mælikvarðinn á hnattræna heilsu er meðalævilengd. Sá mælikvarði endurspeglar meðalaldur fólks sem lést á tilteknu ári. Hann gefur því góða mynd af almennu heilbrigðisástandi. Þessi mælikvarði getur greint ójöfnuð innan samfélaga, dánartíðni barna og áhrif ytri þátta eins og farsótta, náttúruhamfara og stríðsátaka. Í sögulegu samhengi hefur meðalævilengd verið stutt, en framfarir síðustu áratuga hafa leitt til þess að meðalævi mannsins hefur aldrei verið lengri. Á árunum 1950 til 2025 jókst hún úr 46,5 árum í 73,5 ár. Rekja má ástæðuna fyrir þessari þróun til margvíslegra framfara á ýmsum sviðum. En stærsta breytingin er sú að færri börn deyja á fyrstu fimm árum ævi sinnar. Dánartíðni hefur einnig lækkað í öllum aldurshópum. ÁHRIF HEIMSFARALDURSINS Á MEÐALÆVILENGD Í kjölfar COVID-19 lækkaði meðalævilengd nær alls staðar í heiminum en lítið sem ekkert hér á landi. Innan örfárra ára var meðalævilengd komin aftur í 83 ár, sem var að mestu leyti vegna þess hve hratt við gátum 32
#LÝÐHEILSA MEÐALÆVILENGD: HVAR ERU FRAMFARIRNAR HRAÐASTAR? 2000 2025 (breyting) Malaví 46 ár 68 ár +22 ár Rúanda 48 ár 68 ár +20 ár Sambía 47 ár 67 ár +20 ár Úganda 50 ár 69 ár +19 ár Botsvana 52 ár 69 ár +17 ár Eþíópía 51 ár 68 ár +17 ár Búrúndí 48 ár 64 ár +16 ár Erítrea 56 ár 69 ár +13 ár Búrkína Fasó 51 ár 62 ár +11 ár Heimild: Gagnaveita Mannfjöldadeildar Sameinuðu þjóðanna (Meðalævilengd, heildargögn) MEÐALÆVILENGD: HVAR ER ÞRÓUNIN HÆGUST? 2000 2025 (breyting) Lesótó 49 ár 58 ár +9 ár Panama 73 ár 80 ár +7 ár Georgía 70 ár 75 ár +5 ár El Salvador 68 ár 73 ár +5 ár Dóminíska lýðveldið 70 ár 74 ár +4 ár Malasía 73 ár 77 ár +4 ár Paragvæ 70 ár 74 ár +4 ár Filippseyjar 68 ár 70 ár +2 ár Sýrland 71 ár 73 ár +2 ár Mexíkó 73 ár 75 ár +2 ár Heimild: Gagnaveita Mannfjöldadeildar Sameinuðu þjóðanna (Meðalævilengd, heildargögn) 33
dreift bóluefnum til íbúanna22. Aðrir heimshlutar upplifðu erfiðari tíma. Þrátt fyrir tiltölulega lága smittíðni í Afríku sunnan Sahara létust 170.000 manns í faraldrinum, sem afhjúpaði brotalamir og ójöfnuð í heilbrigðiskerfum margra landa. Það er enn of snemmt að segja til um nákvæm áhrif faraldursins á meðalævilengd í þessum heimshluta23. DÁNARTÍÐNI BARNA Annar mælikvarði á alþjóðlega lýðheilsu er barnadauði. Mælikvarðinn segir til um hlutfall allra barna sem deyja fyrir tiltekinn aldur, oftast fimm ára. Þegar rætt er um ungbarnadauða er yfirleitt átt við börn undir eins árs aldri. Líkt og meðalævilengd gefur dánartíðni barna góða mynd af almennu heilbrigðisástandi landa, þar sem hún endurspeglar ólíkar félags- og efnahagslegar hliðar þróunar. Tölfræði um barnadauða vekja bæði gleði og sorg. Gleði vegna þess að dánartíðni barna fer lækkandi alls staðar í heiminum og það hraðar en áður. Jafnvel fátækustu lönd heims hafa náð stórkostlegum árangri þegar kemur að heilsu barna. Á árunum 1990 til 2021 lækkaði dánartíðni barna um 59% á heimsvísu. Þennan árangur má að hluta rekja til bættra félagslegra og efnahagslegra aðstæðna, en einnig til markvissra inngripa gegn tilteknum sjúkdómum og vandamálum. Sameinuðu þjóðirnar telja að mikil fjárfesting í bólusetningum gegn mislingum hafi bjargað lífi fjölda barna. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálasto fnuninni (WHO) hefur bóluefni gegn mislingum komið í veg fyrir allt að 56 milljónir dauðsfalla á árunum 2000 til 2021. Í dag fær 81% barna í heiminum bóluefni gegn mislingum, sem er afar mikilvægt þar sem smitum hefur farið fjölgandi á heimsvísu, þar á meðal í Evrópu. Aðgerðir gegn malaríu, svo sem dreifing moskítóneta og lyfjameðferðir, hafa bjargað yfir sjö milljónum mannslífa í Afríku síðan árið 2000, flest þeirra eru börn24. Þrátt fyrir þessar framfarir er umfang ungbarnadauða af völdum fátæktar enn nær óbærilegt. Á hverju ári deyja fimm milljónir barna undir fimm ára aldri, langflest úr sjúkdómum og orsökum sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Þetta jafngildir meira en 13.000 börnum á dag. Engin önnur dánarorsök kemst nálægt þeim fjölda dauðsfalla sem fátækt veldur. Hvorki stríð, hryðjuverk né náttúruhamfarir hafa nokkru sinni valdið jafn mörgum dauðsföllum og fátækt. Fimm milljónir dauðsfalla á ári er tala sem erfitt er að ná utan um. Til samanburðar létust 1,7 milljónir manna úr COVID-19 á fyrsta ári heimsfaraldursins25. 34
#LÝÐHEILSA LJÓSMYND: UNDP ZAMBIA/KARIN SCHERMBRUCKER
HEIMSFARALDURINN AFHJÚPAÐI ÓJÖFNUÐ COVID-19 varpaði ljósi á hversu mikilvæg sjálfbær þróun er til að byggja upp viðnámsþrótt þjóða, sem og á svæðis- og staðbundnum vettvangi, í lág- og millitekjulöndum. Við upphaf faraldursins kom strax í ljós að mörg lönd skorti ekki aðeins heilbrigðisstofnanir, heldur einnig fagfólk og nauðsynleg tæki og búnað til að takast á við alvarlega krísu. Þannig jók heimsfaraldurinn þann ójöfnuð sem þegar var til staðar, bæði innan landa og á milli þeirra, og sýndi fram á mismunandi getu ríkja til að bregðast við og jafna sig eftir kreppu. Til að geta tekist á við sambærilegar krísur í framtíðinni er nauðsynlegt að vinna markvisst að því að styrkja heilbrigðisþjónustu í lág- og meðaltekjulöndum og fjárfesta í innlendum og alþjóðlegum varnarkerfum og viðbúnaði. Engin önnur dánarorsök kemst nálægt fjölda dauðsfalla af völdum fátæktar. 36
BARNADAUÐI: DÆMI UM MIKLAR FRAMFARIR 2000 2025 (breyting) Líbería 18% 6,9% 61% Rúanda 18% 3,4% 81% Malaví 17% 3,7% 78% Eþíópía 14% 4,2% 70% Senegal 13% 3,3% 74% Tansanía 13% 3,7% 71% Kambódía 10% 2,2% 78% Mongólía 6% 1,1% 82% Heimild: Gagnaveita Mannfjöldadeildar Sameinuðu þjóðanna (Barnadauði undir 5 ára) #LÝÐHEILSA 37
MMenntun er mannréttindi og lykilforsenda lýðræðis og jafnréttis og þess að draga megi úr fátækt. Menntun er einnig grunnstoð efnahagslegrar þróunar. Í dag hefja um 90% allra barna grunnskólanám og fleiri eru læs en nokkru sinni fyrr. Á sama tíma blasa við miklar áskoranir. Fátækt, átök, mannúðarkrísur, barnahjónabönd, fötlun og mismunun koma í veg fyrir að yfir 250 milljónir barna geti sótt skóla. Næstum þriðjungur þessara barna býr í Afríkuríkjum sunnan Sahara. Barnahjónabönd og þunganir unglingsstúlkna valda því að færri stúlkur en drengir ljúka grunnskóla og fara í framhaldsnám. Á sama tíma eru gæði menntunar víða lítil og yfir 770 milljónir manna í heiminum eru enn ólæsar, tveir þriðju hlutar þeirra eru konur27. MIKILVÆGI MENNTUNAR Menntun er forsenda velmegunar, lýðheilsu og jafnréttis. Tengingin á milli menntunar og velmegunar sést greinilega á vísitölu lífskjaraþróunar (HDI), þar sem árangur þjóða er mældur meðal annars út frá skólagöngu. Í Níger, sem hefur mjög lága HDI-vísitölu, er skólaganga að meðaltali tvö ár. Á Íslandi sem hefur eina hæstu HDI-vísitölu heims, er skólaganga að meðaltali 13,8 ár. Menntakerfi heimsins þurfa að mæta þörfum fólks allt lífið – allt frá leikskóla til háskóla, ásamt því að tryggja jöfn tækifæri fyrir alla til símenntunar. Slíkt styrkir stöðu fólks á vinnumarkaði sem og samfélagið í heild sinni. Menntun er lykillinn að betri framtíð og opnar dyr að nýjum tækifærum sem hjálpa okkur öllum að leggja okkar af mörkum til sjálfbærara samfélags. #MENNTUN Staðan í dag: 90% allra barna hefja grunnskólanám. En fátækt og lokanir skóla í heimsfaraldrinum hafa enn áhrif á menntun og framtíð margra barna og ungmenna í lág- og meðaltekjulöndum. Horfur: Fleiri börn hefja grunnskólanám en bæði aðgengi og gæði menntunar eru mjög mismunandi milli landa. Ef ekkert verður að gert munu um 84 milljónir barna ekki sækja skóla árið 2030 og 300 milljónir barna eða ungmenna sem ganga í skóla munu útskrifast án þess að geta lesið eða skrifað26. 38
#MENNTUN Í dag hefja um 90 prósent allra barna nám í grunnskóla og læsi er meira en nokkru sinni fyrr. LJÓSMYND: UNDP LEBANON Börn á flótta frá Sýrlandi fá aðgengi að almenningsskólum í Wadi Khaled, Líbanon. 39
FÆRRI BÖRN Í SKÓLA EFTIR FARALDURINN Í COVID-19 heimsfaraldrinum var mörgum skólum um heim allan lokað vegna sóttvarnatakmarkana og útgöngubanns sem sett voru á til að draga úr dreifingu veirunnar. Börnum og ungmennum var vísað í fjarnám, en fyrir mörg þeirra sem höfðu ekki aðgang að tölvu eða interneti var slíkt nám ekki raunhæfur kostur. Það varð til þess að mörg börn og ungmenni í fjölda lág- og meðaltekjulanda urðu án menntunar. Þessar skólalokanir höfðu áhrif á yfir 1,6 milljarða barna og ungmenna í 190 löndum. Að auki sýna tölur frá Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) að í löndum eins og Úganda, Bólivíu, Indlandi og Indónesíu hefur lokun sumra skóla verið meira og minna varanleg. Þar af leiðandi eiga milljónir barna á hættu að snúa aldrei aftur í skóla. UPPLÝSINGAÓREIÐA OG GAGNRÝNIN HUGSUN Internetið hefur gjörbreytt því hvernig við eigum samskipti og hversu hratt við getum nálgast upplýsingar. Þetta hefur mikil áhrif á efnahagslega og lýðræðislega þróun í heiminum en einnig á menntun barna og ungmenna. Með fréttum og upplýsingum sem berast á leifturhraða er gagnrýnin hugsun og hæfni til að meta heimildir mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Samfélagsmiðlar eru orðnir helsta upplýsingaveita margra en þeir eru einnig stærsta dreifikerfi rangra upplýsinga og falsfrétta. Ónákvæmar eða villandi upplýsingar geta haft skaðleg áhrif, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið í heild sinni. Samspil rangra upplýsinga, hatursorðræðu og áróðurs getur haft víðtæk áhrif, til dæmis á ákvörðunartöku, þverrandi traust til stofnana og á niðurstöður kosninga. Þegar fréttir og upplýsingar berast okkur á ljóshraða er gagnrýni á heimildir mikilvægari en nokkru sinni fyrr. 40
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=