Útbrot

94 Í gær greindi Vísir frá því að Jóhann Helgason hygðist stefna Universal Music og norska lagahöfundinum Rolf Løvland fyrir hugverkastuld. Jóhann segir lagið „You Raise Me Up‟ sem er vinsælast í flutningi Josh Grobans vera óeðlilega líkt lagi sínu „Söknuður‟ sem Vilhjálmur Vilhjálmsson söng. „Það eru mjög miklir hagsmunir í húfi fyrir Jóhann, það er ljóst að ef það yrði dæmt að hann eigi hluta af laginu „You Raise Me Up‟, þá hefur hann í langan tíma farið á mis við mjög miklar höfundarréttargreiðslur,‟ segir Guðrún Björk Bjarnadóttir í viðtali við Morgunútvarpið. Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna fyrirhugaðrar málssóknar verði á annað hundrað milljónir króna og að kröfur um höfundarlaun og skaðabætur geti hlaupið á milljörðum króna, segir í tilkynningu sem send var á vegum Jóhanns. Guðrún segir ljóst að enginn höfði slíkt mál nema vera nokkuð viss um stöðu sína. „Ég held að miðað við hvað slík málssókn er dýr og orkufrek og tekur langan tíma, þá held ég að það leiki sér enginn að því að fara í svona mál nema hann telji sig hafa eitthvað til síns máls.‟ STEF hefur stutt Jóhann við fyrirhuguð málaferli og lét meðal annars vinna sérfræðimat á líkindum laganna en samkvæmt því eru líkindin 97%. Guðrún segir að þó slík álitsgerð geti styrkt mál Jóhanns hafi hún ekkert lagalegt gildi. „Það er hægt að leggja hana fram sem eitt af sönnunargögnum sem dómari skoðar, en þú getur ekki bara með vísan í þetta mat krafist breytingar á skráningu lags.‟ Guðrún segist persónulega telja að lögin séu sláandi lík og STEF hafi í nokkur ár síðan undirbúningur að málaferlunum hófst reynt að styðja við bakið á Jóhanni, þó samtökin geti ekki farið í málið fyrir hönd hans. En hvernig er dæmt í svona málum hvort um stuld sé að ræða eða löglegan innblástur/virðingarvott? „Það er voðalega erfitt að gefa eina línu í þessu, sú mýta var lengi í gangi að það þyrfti ákveðinn fjöldi af töktum að vera eins, en svo er ekki,‟ segir Guðrún Björk. En það skipti máli ef hægt sé að greina eitt lag inni í öðru lagi, eins ef hægt sé að sýna fram á að þjófkenndi höfundurinn hafi á tilteknum stað/tíma heyrt lagið sem hann er sakaður um að stela. Nýlegur dómur um lagið „Blurred Lines‟ hefur einnig vakið mikla athygli en þar voru höfundar lagsins, Robin Thicke og Pharrell Williams, dæmdir fyrir að „stela stemningu‟ úr laginu „Got To Give It Up‟ eftir tónlistarmanninn Marvin Gaye. Guðrún segir þetta nokkuð sérstakan dóm. „Mín persónulega skoðun er sú að það sé aðallega takturinn sem er líkur. Það hefur kannski eitthvert fordæmisgildi í Bandaríkjunum, en lítið á Íslandi.‟

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=