16 „Ég elska hafið,‟ hvíslaði Andrea Sól og dró djúpt inn andann. Það var aðeins of mikil þarafýla í dag til að ég nyti lyktarinnar frá hafinu. En ég kinkaði kolli. Andrea Sól teygði sig í hönd mína og við stóðum í flæðarmálinu, hönd í hönd og ég lokaði augunum. Ég heyrði öldugjálfrið við fætur okkar, það var eins og að hlusta á hjartslátt hafsins. Hægur, þungur hjartsláttur. Róandi. Hún hallaði höfði sínu upp að öxl minni og ég hallaði mínu höfði ofan á hennar. Þaralyktin vék fyrir sætum berjailmi úr sjampói Andreu Sólar. Við sögðum ekkert en ég fann að við önduðum í takt. Og taktur okkar var sá hinn sami og hjartsláttur hafsins. „Strax og skólanum lýkur fer ég til ömmu fyrir vestan og verð hjá henni út júlí.‟ Ég sagði ekkert, orðin héngu bara í loftinu og ég einbeitti mér að hjartslætti hafsins. Vonaði að minn hjartsláttur myndi ekki þagna. Í síðustu viku vissi ég ekki að Andrea Sól væri til en núna fannst mér eins og heimurinn væri að hrifsa af mér eitthvað sem væri mér lífsnauðsynlegt. Aldrei áður hafði mér liðið eins og mér leið þegar ég sá Andreu Sól fyrst. Tilfinningar, sem voru mér svo framandi, höfðu tekið bólfestu í líkama mínum. Hún sneri höfði sínu að mér og mér að óvörum teygði hún höfuð sitt upp til mín og kyssti mig mjúklega á varirnar. Ég þorði ekki að hreyfa mig, viss um að þá myndi ég lyfta álögunum, skemma fyrsta kossinn. Ekki bara fyrsta kossinn okkar, heldur allra fyrsta kossinn minn. Eftir þúsund andartök, þar sem tíminn stóð í stað og ekkert skipti máli, dró hún höfuð sitt örlítið til baka. Dró varir sínar frá mínum. Hún brosti og grænu augu hennar glitruðu eins og gimsteinar. Næstu vikur voru líkt og í ævintýri. Við vorum eins og samlokur og aldrei sást ég án þess að Andrea Sól væri nálægt. Daginn sem hún kvaddi til að fara til ömmu sinnar grét ég úr mér augun. Hún grét líka en kyssti mig þess fullviss að fjarvera sín yrði bara í tæpa tvo mánuði. Svo kæmi hún aftur. Hún kom aldrei aftur í þorpið. Aldrei aftur stóðum við saman í flæðarmálinu og hlustuðum á hafið. Aldrei aftur.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=