15 Örvar kennari sagði henni að fá sér sæti og svo man ég ekkert meira sem gerðist í kennslustundinni því öll mín athygli fór í að fylgjast með nýju stelpunni. Hvernig hún hlustaði á það sem Örvar sagði. Hvernig augun kipruðust þegar hún brosti. Hvernig hún renndi fingrunum í gegnum hárið, ekki eins og af óöryggi heldur af glæsibrag eins og kvikmyndaleikkona á rauðum dregli myndi gera. Í frímínútum þyrptust vinsælu stelpurnar að henni. Ég heyrði ekki hvað þær spurðu hana um eða hverju hún svaraði. Þær voru eins og flugnager, sveimandi í kringum hana, drottningu blýflugnanna. Ég reyndi að virka töff og áhugalaus. Sá að tvisvar sinnum horfði Andrea Sól yfir flugnagerið til mín. Ég brosti til hennar í seinna skiptið en leit fljótt undan til að hún sæi ekki roðann sem breiddist út í kinnar mínar eins og logandi bergkvika sem breiðir sig yfir úfið landslag. Ámiðvikudegi brosti hún til mín, nálgaðist mig og hjartað pumpaði milljón slögum á mínútu þegar tær rödd hennar sagði: „Hæ.‟ Mér vafðist tunga um tönn. Hún horfði á mig og grænu augu hennar boruðu sig inn í sál mína. Ég náði að tosa upp úr raddböndunum veiklulegt „hæ‟ og hún hló. Dillandi hláturinn minnti á fyrsta almennilega sumardag hvers árs. Þegar fólk klæðist hlýrabolum og biðröðin í ísbúðina nær út að skóbúðinni. Ætti ég að spyrja hana hvort hún ætli í félagsmiðstöðina í kvöld? Eða hvað hún ætli sér að gera í sumar? Ég opnaði munninn en þá heyrðist bílflaut og okkar fyrsta samtal hófst og endaði með hæ-i frá báðum. Ég horfði á hana hlaupa, nei svífa eins og engil, í átt að bílnum og hverfa inn í hann. Hún veifaði þegar bíllinn fór af stað og bar hana í burtu frá mér. Fjórum dögum eftir að nýtt tímatal hófst í mínum huga, eftir að hún sýndi mér áhuga og tók af skarið við að kynnast mér, hitti ég hana fyrir utan sundlaugina. Hún var að koma upp úr en ég hafði ætlað mér ofan í. „Getur þú kannski sýnt mér bæinn á eftir, þegar þú ert …,‟ byrjaði hún að segja en ég greip fram í og sagðist ekkert þurfa að fara í sund. Ég gæti vel sýnt henni bæinn strax. Hún brosti, tók undir handlegg minn og hjarta mitt tók heljarstökk af kæti. Meðminn hægri handlegg og hennar vinstri krækta saman umolnbogana gengum við um bæinn. Ólíkt miðvikudeginum runnu orðin út úr mér. Ég var með fullkomna munnræpu. „Í þessu húsi búa Hrönn í 8. bekk og bróðir hennar Stjáni, sem er í 5. bekk. Örvar umsjónarkennarinn okkar býr þarna og í þessu húsi er skóverkstæði en Kata, sem vinnur þar, gerir líka við ýmislegt annað, eins og töskur og belti og…‟ svona hélt orðaflaumurinn áfram þar til við stóðum í fjörunni.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=