Kennsluleiðbeiningarnar Mælt er með því að kennarar sem vilja beita hönnunarhugsun í skólastofunni fáist við a.m.k. eina hönnunaráskorun með samstarfsfólki sínu. Mikilvægt er að kennarar hafi sjálfir komist í tæri við hönnunarhugsun áður en þeir leggja áskoranir fyrir nemendur sína. Kennsluleiðbeiningarnar eru þannig upp settar að þær leiða kennarann í gegnum hönnunarferlið frá A-Ö. Leiðbeiningarnar eru settar upp sem tilbúnar hönnunaráskoranir og sýna hvaða aðferðaspjöld er hægt að nota í hverju skrefi. En þessar leiðbeiningar eru aðeins dæmi um hvernig hægt sé að nota spjöldin. Spjöldin er hægt að nota á mismunandi hátt, eftir þörfum kennarans eða skólateymisins. Hægt er að nota eins mörg spjöld og nauðsynlegt er til að ná markmiðum eða eins mörg spjöld og tímarammi leyfir. Þessar tilbúnu hönnunaráskoranir eru tvenns konar, fyrir kennarateymi og svo fyrir kennara til að fara í gegnum með nemendum. Byrjið á einföldustu áskorununum. Þar sem aðferðaspjöldin eru 42 talsins eru ekki tekin dæmi um þau öll í þessum kennsluleiðbeiningum. Við mælum eindregið með því að þú lesir í gegnum öll aðferðaspjöldin áður en þú byrjar að leysa þínar eigin áskoranir, þar sem hönnunarferlið þitt mun njóta góðs af því að nota viðeigandi aðferðir fyrir þínar áskoranir. Við hvetjum þig til að breyta aðferðum eða jafnvel bæta við öðrum aðferðum sem þér gæti fundist gagnlegar. Þetta skipulag á aðferðunum hentar ykkur kannski ekki, eða röð þeirra, og þess vegna hvetjum við ykkur til að endurraða þeim og breyta eins mikið og ykkur finnst nauðsynlegt. Þó er það svo að þar sem hönnunarhugsun er kannski nýlunda fyrir marga er nauðsynlegt að taka sér tíma til að öðlast skilning á aðferðunum og kenna nemendunum svo að nota aðferðirnar eina á fætur annarri á kerfisbundinn hátt. Gott er að byrja á því að velja nokkrar aðferðir úr hverjum flokki og prófa þær með nemendum svo þeir þekki aðferðirnar áður en farið er að leysa raunverulegar hönnunaráskoranir. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að þetta eru aðeins tillögur og að mögulegt er, og jafnframt nauðsynlegt, að aðlaga þær að hverju teymi, aldurshóp og að tilteknum verkefnum í tengslum við tímaramma, það efni sem er notað og þau þrep sem eru tekin. Þegar þið farið að þekkja aðferðirnar vel skuluð þið reyna að leika ykkur með þær og aðlaga þær að þörfum ykkar og smekk. Treystið ferlinu og njótið ferðalagsins! 39
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=