Um víða veröld - Jörðin
97 Höfin Þegar komið er niður á djúpsjávarslétturnar, sem eru víðast hvar á 4–8 km dýpi, taka við mörg þúsund ferkílómetrar af tiltölulega sléttum botni þar sem ríkir eilíft myrkur. Þrátt fyrir mikinn þrýsting og kulda þrífst þar mikill fjöldi fisktegunda og hryggleysingja. Djúpsjávarslétturnar eru þó ekki jafn sléttar og orðið gefur til kynna. Víða eru stórar fjallakeðjur eða neðansjávarhryggir þar sem jarðskorpuflekar eru að færast í sundur. Má þar nefna Mið-Atlantshafshrygginn sem er ein lengsta fjallakeðja í heimi. Þar sem jarðskorpufleki rennur undir annan fleka myndast djúpsjávartrog. Þar getur hafdýpi orðiðmeira en 10 km. Í Kyrrahafi er að finna dýpsta stað í heimi, Maríanagjána á 11034mdýpi. Meðaldýpi úthafanna er um3800m. Hafstraumar Hafstraumar flytja sjó frá einu hafsvæði til annars. Orsök hafstrauma eru vindar og snúningur jarðar. Staðvindar knýja strauma í vesturátt bæði norðan og sunnan við miðbaug. Vestanvindarnir á norður- og suðurhveli jarðar reka hafstraumana síðan austur á bóginn. Snúningur jarðar leiðir af sér að straumarnir snúast réttsælis á norðurhveli jarðar en rangsælis á suðurhveli. Uppsjórinn hreyfist í fimm stóra hringi, tvo í Kyrrahafi, tvo í Atlantshafi og einn í Indlandshafi. Þar sem hlýir (rauðir) og kaldir (bláir) hafstraumar mætast, eða kaldur næringarríkur djúpsjór streymir upp að yfirborði sjávar, er að finna gjöful fiskimið.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=