Um víða veröld - Jörðin

88 Eyðimerkur Eyðimörk er svæði þar sem er svo þurrt að næstum ekkert getur vaxið. Úrkoman þar er að jafnaði innan við 250 mm á ári og uppgufunin miklu meiri en úrkoman. Þar geta liðið nokkur ár án þess að dropi komi úr lofti. Árið 1971 rigndi í Atacama-eyðimörkinni í Chile, einni þurrustu eyðimörk heims, en þá hafði ekki rignt þar í yfir 400 ár. Eyðimerkur er bæði að finna á heitum og köldum stöðum á jörðinni. Flestar eru á heitu svæðunum. Stærsta eyðimörk í heimi er Sahara sem nær yfir stærstan hluta af Norður-Afríku. Hún er um áttatíu sinnum stærri en Ísland. Þar sem skýjahula er jafnan lítil verður hiti óbærilegur í eyðimörkum á daginn vegna inngeislunar sólar. Í heitum eyðimörkum getur hraði uppgufunar orðið svo mikill að þegar loks rignir helst jarðvegurinn þurr því regndroparnir gufa upp í miðju lofti. Á nóttunni getur hins vegar orðið mjög kalt vegna óhindraðrar útgeislunar eða endurvarps hitans aftur frá jörðinni þar sem skýjahula er engin. Þá getur hiti hæglega farið niður fyrir frostmark. Hæsti hiti sem mælst hefur í eyðimörk og jafnframt á jörðinni var í El Azizi í Líbíu í Sahara þar sem hitastigið mældist 58 °C þann 13. september 1922. Þrátt fyrir mikinn þurrk og steikjandi hita eða nístingskulda hefur fjölbreytt dýra- og plöntulíf þróast við óblíðar aðstæður í eyðimörkum. Einungis plöntur sem hafa aðlagast þurrki geta lifað á þeim stöðum. Þykkir stofnar plantna og þykk laufblöð gera þeim kleift að geyma vatnsforða í langan tíma. Má þar nefna þykkblöðunga eins og kaktusa með djúplægar rætur og þyrnóttar blaðnálar með þykku vaxlagi sem dregur úr útgufun. Við vinjar þar sem grunnvatn seytlar upp á yfirborðið má finna meiri gróður eins og pálmatré allt árið um kring. Sandöldur í eyðimörkinni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=