Um víða veröld - Jörðin

86 Hitabeltisregnskógar Hitabeltisregnskógar vaxa, eins og nafnið gefur til kynna í hitabeltinu, á svæðum við miðbaug þar sem mikill hiti og úrkoma er allt árið um kring. Helsta einkenni skóganna er líffræðilegur fjölbreytileiki. Ólíkt því sem gerist í öðrum skógum er ein eða fáar tegundir sjaldan ríkjandi í regnskógum. Mikinn tegundafjölda, bæði dýra og plantna, má finna þar á litlum svæðum. Talið er að í regnskógum megi finna a.m.k. helming allra dýra- og plöntutegunda jarðar þrátt fyrir að hitabeltisregnskógar þeki aðeins um 6% af þurrlendi hennar. Tré í regnskógum geta náð upp í 60 m og er laufþak skóganna yfirleitt í um 45–60 metra hæð. Hinn mikli hiti á regnskógasvæðum gerir það að verkum að rotnun lífrænna efna gengur hratt fyrir sig. Lauf og greinar (lífrænar leifar) sem falla til jarðar grotna þar hratt niður fyrir tilverknað smádýra og örvera og verða að næringarefnum sem gróðurinn getur aftur tekið til sín. Hin stöðuga úrkoma í skógunum myndi skola næringarefnunum í burtu ef plönturnar hefðu ekki mikið og greinótt rótakerfi sem sleppir nær engum næringarefnum í gegn. Vegna þessa er næring í jarðvegi mjög lítil. Næstum allur forði næringarefna er bundinn í lifandi plöntum. Séu þær fjarlægðar, eins og víða er gert með eyðingu regnskóga, eru möguleikar á að regnskógar vaxi þar upp aftur eyðilagðir. Þegar búið er að fjarlægja næringarefnin burtu af svæðinu sem plönturnar þarfnast til að vaxa og getur reynst erfitt að endurheimta þau. Stærstu regnskógasvæðin á jörðinni eru í vesturhluta Afríku við miðbaug og á Amason-svæðinu í Suður-Ameríku. Mikil regnskógasvæði er einnig að finna í suðausturhluta Asíu eins og í Suður-Kína, Indónesíu, Malasíu og Papúa Nýju-Gíneu. Grassléttur Hér og hvar á jörðinni eru víðáttumiklar grassléttur sem teygja sig svo langt sem augað eygir. Þær hafa myndast þar sem loftslag er of þurrt til að skógar geti vaxið og of rakt fyrir myndun eyðimarka. Þær er að finna í tempraða beltinu og hitabeltinu. Grassléttum er skipt í tvennt, steppu og savanna en lítilsháttar munur er þar á loftslagi og gróðurfari. Regnskógur í Amason.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=