Um víða veröld - Jörðin

66 Kyrrabeltið Umhverfis miðbaug er kyrrabeltið . Kyrrabeltið er lágþrýstisvæði sem fylgir ávallt hæstu stöðu sólar. Þegar sól er hæst á lofti á norðurhveli á sumrin er það fyrir norðan miðbaug en sunnan hans þegar sól er lægst á lofti á veturna, enda er þá sumar á suðurhveli. Inn að kyrrabeltinu streymir bæði loft úr norðri og suðri. Sterk inngeislun sólar veldur því að loft næst yfirborði jarðar hitnar. Við það léttist loftið og leitar upp á við. Á leið sinni upp kólnar það, rakinn í því þéttist og mikil úrkoma fellur. Segja má að hitasvæðið við miðbaug sé vélarrúmið fyrir veðurkerfi jarðar. Þar eiga upptök sín vindar sem ráða veðurfari um allan heim. Staðvindar Staðvindar verða til við það að loft nærri hvarfbaugunum leitar inn að miðbaug. Vegna svigkrafts jarðar blása vindarnir skáhallt inn að miðbaug þannig að norðan miðbaugs er norðaustanátt ríkjandi en suðaustanátt sunnan miðbaugs. Við miðbaug hitnar loftið, léttist og leitar upp í efri loftlög. Þar blása vindar til norðurs og suðurs uns loftið sígur á ný til jarðar við hvarfbaugana. Þar blása staðvindarnir aftur inn að miðbaug. Staðvindarnir eru hlýir, þægilegir vindar og sjaldan hvassir. Þessa vinda nýttu landkönnuðir og kaupskipaeigendur sér öldum saman. Frá því á 15. öld notfærðu evrópskir sæfarar sér staðvindana. Vindarnir hjálpuðu Evrópubúum að leggja undir sig Ameríku og treysta veldi sitt um allan heim. Staðvindar blása inn að miðbaug.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=