Um víða veröld - Jörðin
60 Lofthjúpur jarðar Umhverfis jörðina er þunnur lofthjúpur, gufuhvolfið . Lofthjúpurinn er gerður úr lofttegundum sem haldast á sínum stað vegna aðdráttaraflsins. Aðdráttaraflið gerir það einnig að verkum að lofthjúpurinn þéttist eftir því sem nær dregur jörðu. Án hans væri næstum ekkert líf á jörðinni. Þrátt fyrir að lofthjúpurinn sé ekki þykkur er hann vörn gegn ýmsum hættum utan úr geimnum, svo sem smærri loftsteinum og útfjólublárri sólargeislun sem er hættuleg lífverum. Lagskipting lofthjúpsins Lofthjúpurinn skiptist í fjögur lög, veðrahvolf, heiðhvolf, miðhvolf og hitahvolf . Hvert lag hefur sín einkenni. Næst jörðu er veðrahvolfið. Það nær frá yfirborði jarðar upp í að jafnaði 10–17 km hæð. Veðrahvolfið inniheldur um 90% af öllu efni í gufuhvolfinu og nánast alla vatnsgufuna . Þar myndast það sem við köllum veður og hefur bein áhrif á okkur sem búum á yfirborði jarðar. Nær öll ský myndast í veðrahvolfinu og frá þeim fellur úrkoman. Heiðhvolfið nær upp í 50 km hæð. Í 15–30 km hæð er þunnt ósonlag sem er mikilvægt öllu lífi. Ósonlagið síar út megnið af útfjólubláum geislum sólar sem annars myndu berast til jarðar en þeir eru skaðlegir öllu lífi. Í heiðhvolfinu myndast stundum svokölluð glitský eða perlumóðuský sem sjást helst á Íslandi ummiðjan vetur við sólarlag eða sólarupprás. Talið er að svo að þau myndist þurfi frost í háloftunum að fara niður í um –80 °C. Miðhvolfið tekur við af heiðhvolfinu og nær upp í 80 km hæð. Í sólskini um sumarnætur má stundum sjá silfurský á himni. Þau myndast úr ís kristöllum. Flestir loftsteinar brenna upp í miðhvolfinu. Fyrir ofan miðhvolfið teygir hitahvolfið sig í meira en 600 km hæð. Gufu hvolfið hefur engin skýr ytri mörk þar sem þetta ysta lag lofthjúpsins rennur saman við lofttómið í sólkerfinu sem við köllum geiminn. Í hita hvolfinu myndast norðurljósin sem við sjáum öðru hverju á næturhimni en sambærileg ljós á suðurhveli jarðar kallast suðurljós. Þessi fyrirbæri verða algengari því fjær miðbaug sem farið er. Í hitahvolfinu er einnig að finna rafmögnuð lög sem hafa mikla þýðingu fyrir jarðarbúa þar sem þau endurvarpa útvarpsbylgjum og gera útvarp yfir langar vegalengdir mögulegt. Vegna þessa er hvolfið einnig kallað jónahvolf. Lofthjúpur jarðar.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=