Um víða veröld - Jörðin

51 Landakort Hugarkort (innra kort) Hugarkort eru enn einn flokkur korta. Hugarkort eru þau kort sem við höfum búið okkur til í huganum og notum til að rata. Þú getur velt því fyrir þér hvaða svæði þú þekkir best. Líklega er það svæðið þar sem þú býrð og næsta nágrenni þess. Ef þú þarft að gera kort af leiðinni heiman frá þér og í skólann sækirðu upplýsingarnar í hugann. Þó er harla ólíklegt að rekast á tvö eins hugarkort þar sem hugmyndir okkar og reynsla úr umhverfinu er ólík. Kortalestur Margir kannast við það að taka sér kort eða kortabók í hönd og láta hugann reika. Ímynda sér hvernig umhorfs er í framandi löndum og fjarlægum borgum. Í kortabókum og á netinu er hægt að afla sér mikilla upplýsinga, bæði með því að skoða staðfræðikort með landamærum ríkja, fjöll, ár og eyðimerkur og þemakort þar sem hægt er að fræðast um loftslag og gróðurfar, þéttbýli og strjálbýli svo eitthvað sé nefnt. Með góðri æfingu getur kunnátta í kortalestri í raun opnað fyrir þér nýja vídd í notkun landakorta. Þú getur nánast séð fyrir þér landslagið. En til að geta lesið kort sér til gagns þarf viðkomandi að búa yfir ákveðinni færni. Hann þarf að þekkja helstu áttir. Getað áttað sig á hvernig lesa má úr hæðarlínum á kortum, mælikvarða korta, og geta umreiknað hann í vegalengdir sem hann skilur og auðvelt er að vinna með. Einnig þarf hann að geta lesið úr skýringum kortsins sem gefa til kynna hvað litir, letur og tákn á kortummerkja. Ef viðkomandi býr ekki yfir þessari færni gæti kortið orðið torskilið og komið að litlu gagni. Skoðum nú þessa þætti betur. Hugarkort er það kort sem við búum til og geymum í kollinum yfir svæði sem við þekkjum vel.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=