Um víða veröld - Jörðin

46 Hnöttur yfir á flatt blað Til að líkja eftir jörðinni dugar hnattlíkan best. Kort sem við skoðum af jörðinni eru hins vegar á flötum blöðum. Til þess að ná að sýna alla jörðina á blaði þarf að fletja jarðkúluna út. Að fletja jarðkúluna yfir á flatt blað kallast kortvörpun . Kortvörpun er ekki hægt að gera án þess að eitthvað aflagist. Ímyndaðu þér bolta eða appelsínu með korti af jörðinni allan hringinn. Ef gera ætti boltann, með kortinu á, flatan mætti t.d. skera hann upp í marga strimla en þá er enn þá mjög erfitt að lesa kortið og það því til lítils gagns. Til að gera það læsilegt er efsti og neðsti hlutinn teygður til svo það hangi saman og verði að einu blaði. Til eru margar tegundir varpana. Kort sem verður til á þennan hátt er því ekki 100% nákvæmt eins og gefur að skilja. Það gefur þó tilfinningu fyrir yfirborði jarðar. Þegar kortvörpun er valin er um leið verið að ákveða hvað á að vera rétt og hvað rangt á kortinu. Lítum á nokkrar algengar varpanir. Þar sem jörðin er hnöttur er ekki hægt að gera kort semsýnir nákvæmlega hvernig hún lítur út. Á þessari mynd er nákvæmni hvað varðar stærð og hlutföll best um miðbik kortsins, við miðbaug þar sem snertiflöturinn liggur. Hvaða kortvörpun skyldi vera um að ræða?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=