Um víða veröld - Jörðin

36 Útræn öfl Útræn öfl koma að utan eins og hugtakið gefur til kynna. Það eru öfl sem vinna stöðugt að því að brjóta niður yfirborð jarðar. Mikilvirkustu útrænu öflin eru veðrun og rof sem vatn, vindar og jöklar valda. Aðgerðir manna teljast einnig til útrænna afla. Ef útrænu öflin myndu ein og sér fá að vinna á yfirborði jarðar væri það fyrir löngu orðið slétt. Innrænu öflin bæta hins vegar alltaf við efni fyrir útrænu öflin að vinna á. Veðrun og rof Frá náttúrunnar hendi eru alltaf veikleikar í bergi þar sem það getur brotnað eða klofnað. Veðrun er molnun og eyðing bergs á einum stað en rof flytur síðan efnið sem verður til við molnun í burtu. Ef roföflin væru ekki fyrir hendi myndi bergmylsnan semmyndast við veðrun safnast upp þar sem hún varð til. Af veðrunaröflunum skipta aflveðrun , efnaveðrun og lífræn veðrun mestu máli. Hvað rof varðar hafa vatnsrof , vindrof og jökulrof mest áhrif auk þess sem þyngdaraflið er mikilvægt. Aflveðrun Þótt berg leiði illa hita, getur hitamunur þanið það út eða dregið saman svo ysta lagið flagnar af. Dæmi um aflveðrun eru frostveðrun og sólsprenging . Frostveðrun verður þegar vatn kemst inn í sprungur í bergi og frýs þar. Þegar vatnið frýs þenst það út og sprengir ysta lagið á berginu. Afleiðingar frostveðrunar má oft sjá í grjótskriðum í háum fjöllum. Sólsprenging verður t.d. við snögg hitabrigði, þegar brennheit sól kemur eftir kalda nótt. Við þennan snögga hitamun myndast spenna í berginu og það getur sprungið. Sólsprenging er algeng á eyðimerkursvæðum. Útrænu öflin að verki. Steinn semorðið hefur fyrir frostveðrun. Vatn hefur komist í sprungur í steininum, frosið og smám saman klofið hann í sundur.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=