Um víða veröld - Jörðin
33 Uppbygging jarðar Myndun fellingafjalla Stærstu fjallgarðar heims, Himalajafjöll, Andesfjöll og Klettafjöll, hafa myndast þar sem jarðlög krumpast við það að jarðskorpuflekar rekast saman. Þannig fjöll nefnast fellingafjöll og teygja sig hundruð eða þúsundir kílómetra á yfirborði jarðar. Þó jarðskorpuflekarnir hafi verið á stöðugri hreyfingu stóð meginmyndun fellingafjalla yfir á þremur tímabilum jarðsögunnar sem voru nefnd Kaledóníufellingin , Varíska fellingin og Alpafellingin . Víða er að finna leifar fellingafjalla sem mynduðust á forkambríum og fornlífsöld. En vegna reks jarðskorpuflekanna hafa flest fellingafjöllin færst langt frá þeim stað þar sem þau mynduðust. Útræn öfl, úrkoma, jöklar og vindar hafa unnið á þessum fjöllum í svo langan tíma að lítið er eftir annað en öldóttir forngrýtisskildir . Á fyrri hluta nýlífsaldar hófst þriðja mikla fellingamyndunin í jarðsögunni, Alpafellingin. Þá mynduðust allar þær háu fjallakeðjur sem finna má á jörðinni í dag, Himalajafjöll, Klettafjöll, Andesfjöll og evrópsku Alparnir svo dæmi séu tekin. Þessar fjallakeðjur eru mun hærri en önnur fellinga fjöll og tindóttari því þau hafa ekki sorfist niður í sama mæli. FORNGRÝTISSKILDIR Forngrýtisskjöldur er víðáttumikill forn berggrunnur (leifar fellinga fjalla) í jarðskorpunni þar sem jarðhræringar hafa ekki átt sér stað í hundruð milljóna ára. GRUNNSÆVI Grunnsævi er sá hluti sjávar þar sem botndýpi er ekki mikið, yfirleitt minna en 200 m. Hér má sjá helstu fellingafjöll á jörðinni en meginmyndun fellingafjalla stóð að mestu yfir á þremur tímabilum jarðsögunnar. Varíska fellingin er einnig nefnd Harz-fellingin eftir Harz-fjöllum í Þýskalandi.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=