Um víða veröld - Jörðin
20 Innri gerð jarðar Þegar jörðin var nýmynduð var hún bráðin í gegn. Þyngdarkrafturinn olli því að eðlisþyngra efni sökk í átt að miðju jarðar sem þrýsti eðlisléttari efnum upp. Smám saman varð jörðin lagskipt þar sem innri lögin urðu eðlisþyngri en þau ytri. En hvernig vita menn þetta þegar enginn hefur farið ofan í jörðina? Jarðskjálftar hafa hjálpað vísindamönnum að átta sig á innri gerð jarðar. Eftir jarðskjálfta fara af stað bylgjur sem geta borist í gegnum jörðina. Þær berast á mismiklum hraða í gegnum mismunandi efni. Á þennan hátt hafa vísindamenn komist að því að jörðin er lagskipt. MEGINLAND Meginland er stórt landflæmi umlukið sjó þar sem jarðskorpan er þykk. MÖTTULSTRÓKUR Möttulstrókur er uppstreymissvæði bergkviku í möttlinum. Jarðskorpan bungar upp yfir þessu svæði. IÐUSTRAUMUR Iðustraumar í möttlinum er hreyfing möttulefnisins. JARÐSKORPA Yst er þunnt lag af bergi er nefnist jarðskorpa . Hún er 7–70 km þykk. Jarðskorpan skiptist í úthafsskorpu og meginlandsskorpu . Úthafsskorpan sem er undir úthöfunum er mjög þunn, ekki nema 7–11 km þykk. Meginlandsskorpan er að meðaltali um 35–40 km þykk og þykkust undir fellingafjöllum þar sem henni hefur verið þrýst saman. MÖTTULL Möttullinn myndar tæplega 2900 km þykkt lag milli jarðskorpunnar og kjarna jarðar. Hann er að mestu úr föstu efni. Möttulbergið er þó svo mjúkt og lint vegna mikils hita og þrýstings að það hreyfist ofurhægt vegna varmans sem berst frá kjarnanum um möttulinn til yfirborðsins með iðustraumum og möttulstrókum . Við efri mörk möttulsins kólnar efni möttulstróksins og sekkur aftur í átt til kjarnans. KJARNI Innst er kjarninn sem talinn er vera úr blöndu járns og nikkels. Kjarnanum er skipt í ytri og innri kjarna . Innri kjarninn, um 1200 km þykkur í miðju jarðar, er talinn vera úr föstu efni vegna þrýstings sem er svo mikill að hann bráðnar ekki þótt hitinn sé um 7.000 °C. Ytri kjarninn sem er á um 2900–5200 km dýpi er hins vegar bráðinn.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=