Um víða veröld - Jörðin
15 Jörðin verður til Um 90 könnunarhnettir eru á ferð lengra úti í geimnum og eru nokkrir þeirra á leiðinni út úr sólkerfinu. Þar á meðal er Voyager 1 sem skotið var á loft frá Canaveralhöfða í Flórída í Bandaríkjunum árið 1977. Eftir margra ára ferðalag er Voyager 1 nú yst í sólkerfinu og hefur skilað okkur fyrstu nærmyndunum af ytri plánetum þess. Annað könnunarfar, Curiosity, er nú við rannsóknir á Mars. Curiosity er eins konar jeppi sem getur keyrt um á Mars. Á honum eru 10 mismunandi tæki ætluð til rannsókna. Rannsóknarleiðangur jeppans er um 16 km og reikna vísindamenn með að það taki hann ár að fara þessa leið. Margar óyfirstíganlegar hindranir gætu þó orðið á leiðinni, m.a. stórgrýtt landslag eða sandöldur þar sem jeppinn gæti spólað sig fastan. Hvenær skyldi koma að því að fyrstu mennirnir ferðuðust til Mars og hversu langan tíma gæti ferðalagið tekið? Geimstöðvar Geimstöð er stórt gervitungl þar sem geimfarar geta dvalið til lengri tíma, yfirleitt nokkrar vikur eða mánuði. Árið 1971 var fyrstu geimstöðinni komið fyrir á sporbraut umhverfis jörðu. Hún var sovésk og hét Salyut 1. Því verkefni lauk árið 1986. Í dag er Alþjóðlega geimstöðin á sporbraut. Geimstöðin er samstarfsverkefni nokkurra þjóða enda verkefnið gríðarlega kostnaðarsamt. Alþjóðlegu geimstöðina er hægt að sjá með berum augum frá jörðu. Geimstöðvar geta ekki ferðast um og eru geimför því nauðsynleg til að sjá um flutninga á fólki til og frá, ásamt aðföngum. Geimstöðvar hafa verið notaðar við fjölda rannsókna, m.a. á yfirborði jarðar, lofthjúpnum og hvaða áhrif þyngdarleysi hefur á mannslíkamann. Þar fara einnig fram prófanir á ýmsum tæknibúnaði semætlaður er til frekari rannsókna í geimnum m.a. á tunglinu og Mars. Í geimstöðvum eru vistarverur mjög þröngar og hentar ekki öllum að dvelja þar. Því þarf áhöfn geimstöðvar að standast langa og stranga þjálfun áður en haldið er af stað, og eins gott er að öllum komi vel saman.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=