Um víða veröld - Jörðin
153 Umhverfið okkar LOFTSLAGSBREYTINGAR Breytingar á lofthita, þ.e. kólnun og hlýnun í andrúmsloftinu í lengri tíma eru kallaðar loftslagsbreytingar. Loftslagsbreytingar Það er vitað að breytingar á loftslagi hafa alltaf átt sér stað. Líka löngu áður en maðurinn kom til sögunnar. Í jarðsögunni hafa oft orðið meiri breytingar en þær sem mannkynið stendur frammi fyrir nú. En af hvers völdum eru loftslagsbreytingarnar? Er jörðin að hlýna vegna umsvifa mannsins? Hvað er til ráða? Margir náttúrufarslegir þættir geta valdið loftslagsbreytingum. Braut jarðar um sólu er ekki alltaf sú sama heldur sveiflast á nokkur þúsund ára fresti. Sama er að segja um möndulhalla jarðar. Stór eldgos senda gríðarlegt magn af ösku og ryki upp í lofthjúpinn sem valda því að hluti sólarljóss nær ekki til jarðar. Lofthiti á stórum svæðum jarðar getur við það lækkað um 2 °C í tvö til þrjú ár eða þar til askan og rykið er horfið. Dæmi um þetta eru eldgos í Eldgjá árið 934, Lakagígagosið 1783–1784 og eldgosið í Pinatubo á Filippseyjum árið 1991. Þessir þættir ásamt fjölmörgum öðrum geta haft veruleg áhrif á loftslag jarðar og átt sinn þátt í loftslagsbreytingum. Orsakir hnattrænnar hlýnunar Í kjölfar iðnbyltingarinnar ummiðja 18. öld hafa gróðurhúsalofttegundir og þá sér í lagi koltvísýringur aukist verulega í andrúmsloftinu vegna meiri bruna jarðefnaeldsneytis. Aukin losun gróðurhúsalofttegunda hefur magnað gróðurhúsaáhrifin og leitt til hnattrænnar hlýnunar sem ekki virðist sjá fyrir endann á. Hnattræn hlýnun getur haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér fyrir allt líf á jörðinni. Með aukinni bráðnun heimskautajökla mun sjávarborð hækka og ógna borgum og byggðum sem lægst standa. Vistkerfi hafanna mun breytast við bráðnun heimskautajöklanna. Fiskistofnar eins og loðna og síld gætu breytt göngum sínum. Öfgar í veðurfari verða meiri en þekkist. Þurrka svæði jarðar breiðast út svo nýjar eyðimerkur myndast. Ef meðalhiti hækkar má líka búast við tíðari og öflugri hitabylgjum sem eykur álag á heilsu fólks, sérstaklega þeirra sem eru aldraðir og lasburða. Andrúmsloftið er sameiginleg auðlind alls mannkyns og verða allir að leggjast á eitt um að ráða fram úr þeim loftslagsvanda sem að okkur steðjar.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=