Um víða veröld - Jörðin

12 Ganga jarðar og tungls Á 100 þúsund km hraða á klukkustund þýtur jörðin og allt sem á henni er áfram á braut sinni umhverfis sólu. Þrátt fyrir þennan mikla hraða tekur það hana 365 daga og 6 klukkustundir að fara einn hring umhverfis sólina og hefur hún þá ferðast um 940 milljónir kílómetra. Til að leiðrétta 365 daga almanaksárið verður að bæta við einum degi fjórða hvert ár. Það ár köllum við hlaupár. Jörðin snýst einnig hring um sig sjálfa á 24 klukkustundum. Það köllum við sólarhring. Jörðin hreyfist hraðast við miðbaug vegna þess að þar er ummál hennar mest. Þar er ferðalagið lengst. Því fjær miðbaug sem farið er þeim mun hægari verður snúningurinn. Ef staðið er á pólunum er hreyfingin varla nokkur, einungis einn snún­ ingur um sjálfan sig á sólarhring. Þessi mismunandi hraði skapar krafta í lofthjúpnum sem m.a. hafa áhrif á veðrið um allan heim. Tunglið gengur umhverfis jörðu líkt og jörðin í kringum sólina. Það tekur tunglið 27 sólarhringa að ljúka einni hringferð. Fyrr á öldum þegar verið var að ákvarða lengd mánaðarins var miðað við gang tunglsins (mánans) um jörðu. En orðið mánuður er einmitt dregið af orðinu máni. Árstíðaskipti eru vegna halla jarðmöndulsins. Á sólstöðum í júní og desember er dagur lengstur á öðru hálfhveli jarðar en stystur á hinu. Á jafndægri á vori og hausti snúa hvorug hvelin að sólu. Þá eru dagur og nótt jafn löng.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=