Um víða veröld - Jörðin

10 Miðlífsöld Miðlífsöld er þriðja tímabil jarðsögunnar. Hún tók við af fornlífsöld og lauk fyrir um 65 milljónum ára. Vegna aldauða lífvera í lok fornlífsaldar þróaðist ólíkt dýralíf á miðlífsöld. Miðlífsöld var tími stóru risaeðlanna sem dreifðust um alla jörðina. Í lok tímabilsins dóu risaeðlurnar út í kjölfar mikilla hamfara. Vísindamenn telja helstu orsökina fyrir því að risaeðlurnar dóu út vera loftstein sem féll í Karíbahaf út af Yucatánskaga í Mexíkó fyrir 65 milljónum ára. Við það að loftsteinninn, sem kann að hafa verið stærri en 10 km í þvermál, skall á jörðina kviknuðu miklir eldar og brann allt sem brunnið gat. Gríðarlegar flóðbylgjur æddu í allar áttir yfir hafið og öflugir jarðskjálftar skóku hnöttinn. Þá þyrlaðist upp svo mikið ryk að geislar sólar náðu ekki til jarðar í langan tíma. Þetta leiddi til mikilla breytinga á loftslagi og kólnandi veðurfars um allan heim sem varð til þess að risaeðlurnar dóu út. Í upphafi miðlífsaldar var til eitt risameginland, Pangea eins og áður hefur komið fram. Þegar leið á öldina gliðnaði Pangea vegna landreks sem möttulstrókar í iðrum jarðar ollu. Möttulstrókar halda jarðskorpuflekum á stöðugri hreyfingu um yfirborð jarðar. Í lok miðlífsaldar brotnaði Pangea endanlega upp í þau meginlönd sem við þekkjum í dag. Nýlífsöld Síðustu 65 milljónir ár jarðsögunnar eru nefnd nýlífsöld . Jarðskorpuflek­ ana hélt áfram að reka um yfirborð jarðar með tilheyrandi eldvirkni, jarðskjálftum, gliðnun, árekstrum, landrisi og landsigi. Við þekkjum yfirborðið vel eins og það er nú en reglulega minna þessi stórbrotnu öfl á sig og gefa til kynna að þau eru stöðugt að verki. Háu, tindóttu fjallgarðarnir, Himalaja, Klettafjöll, Andesfjöll og evrópsku Alparnir fóru að myndast á þessu tímabili. Með þeim urðu breytingar á loftslagi í heiminum. Síðustu milljónir ára fór loftslag kólnandi og hafa allt til okkar daga skipst á kuldaskeið og hlýskeið Á hlýskeiðunum var hitastig svipað og það er í dag en á kuldaskeiðunum huldu jöklar stóran hluta af jörðinni. Nýlífsöldin einkennist fremur öðru af þróun spendýra sem tóku við af skriðdýrum og risaeðlum. Í lok aldarinnar fyrir einungis um 3–4 milljónum ára komu forfeður mannanna fram. Þeir bjuggu yfir verkviti, notuðu áhöld og bjuggu til skrautmuni. Barringergígurinn í Arisona er 1,2 kmbreiður gígur sem varð til við árekstur loftsteins sem áætlað er að hafi verið um 50 m í þvermál. Talið er að risaeðlurnar hafi dáið út þegar miklar náttúruhamfarir skóku jörðina í lok miðlífsaldar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=