Um víða veröld - Jörðin

116 Orkugjafar Orka er forsenda fyrir nánast allri starfsemi í samfélaginu. Það þarf orku til að hita upp hús, við matseld, lýsingu, flutninga og við framleiðslu á hvers kyns varningi svo dæmi séu tekin. Orkan getur verið krafturinn í eigin líkama eða bensínið sem knýr bílinn áfram. En hvaðan kemur orkan? Sólin er langmikilvægasti orkugjafinn og uppspretta alls. Á hverjum degi sendir hún gríðarmikla orku til jarðarinnar sem m.a. má sjá í veðri og vindum. Hluta af sólarorkunni sem berst til jarðar nota jurtir til ljóstillífunar. Þá breyta þær sólarorku, koltvíoxíði og vatni í kolvetni og súrefni. Kolvetni er uppistaðan í öllum hlutum jurtarinnar, rótum, stilk, greinum og blöðum. Með því að borða jurt eða brenna má færa sér í nyt sólarorkuna sem í henni er bundin. Frá sólinni er einnig komin sú orka sem bundin er í jarðefnaeldsneyti. Allt eldsneyti sem fær orku sína úr ljóstillífun hefur einhvern tíma verið lifandi og því er talað um það sem lífrænt eldsneyti . Ólíkir orkugjafar Fyrsta orkan semmaðurinn notaði var eigið vöðvaafl. Þegar við borðum færum við líkama okkar orku. Við getum gengið, hlaupið og lyft hlutum. Fyrir utan matinn var fyrsta mikilvæga orkulindin viður og annað efni sem hægt var að brenna og nota til að kveikja eld. Í þúsundir ára hefur maðurinn notað eldinn til að hita upp híbýli sín og til matargerðar. Víða í fátækustu löndum heims er eldurinn enn mikilvægasti orkugjafinn. Smám saman lærði maðurinn líka að nýta sér orkuna í rennandi vatni og vindum. Við rennandi vatn voru reist vatnshjól sem breyttu vatnsafli í nýtilega orku. Vindurinn blés í segl skipa og fleytti þeim yfir höfin. Vindurinn blés einnig á spaða vindmylla sem notaðar voru til að mala korn. Vindur og vatnsafl eru enn í dag mikið notaðir orkugjafar. Í sveitum fátækra landa eru dráttardýr mikið notuð til að draga og bera. Til viðbótar við vatn, vind og við sem mikilvægustu og mest notuðu orku í heiminum koma kol og olía. Kjarnorka er einnig mikilvægur orkugjafi víða um heim. Allir orkugjafar eru flokkaðir í endurnýjanlega og óendurnýjanlega orku.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=