Um víða veröld - Jörðin

114 MANNRÉTTINDI Mannréttindi eru hafin yfir einstök þjóðríki. Þau eru sameiginleg öllum íbúum jarðarinnar óháð búsetu, tungumáli, húðlit eða trú. Hvað er auðlind? Þar sem orðið lind merkir uppspretta og auður merkir auðæfi eða ríkidæmi gæti auðlind merkt uppsprettu einhvers sem færir þeim sem notar upp­ sprettuna auð. Auðlind getur þá verið hvaðeina semmaðurinn hefur gagn eða gaman af. Til auðlinda telst jarðvegurinn sem ræktað er í, fiskurinn í sjónum, landið til útivistar, hreint loft og þekking til verðmætasköpunar. Náttúruauðlindir kallast þær auðlindir sem eru á eða undir yfirborði jarðar, t.d. grunnvatn og yfirborðsvatn (ár og vötn), frjósamur jarðvegur og gróður ýmiss konar, málmar, jarðhiti og orkulindir (olía, gas, kol o.fl. ) fiskur, sjávarföll og land til útivistar. Mikilvæg auðlind á einum tíma þarf ekki endilega að vera mikilvæg auðlind á öðrum tíma. Auðlindanýting Auðlindir jarðar eru margar hverjar eftirsóttar og verðmætar og eru sumar þeirra lífsnauðsynlegar eins og ferskvatn og gróðurmold. Átök í heiminum stafa oft af baráttu um auðlindir. Með stöðugri fjölgun mannkyns mun eftirspurnin eftir auðlindum verða meiri og meiri. Auðlindum jarðar má skipta í þrjá flokka: • Auðlindir sem endurnýjast eru t.d. sólar-, vind-, vatns- og sjávarfalla­ orka. Ekki þarf að hafa áhyggjur af því að þær klárist. • Auðlindir sem endurnýjast ekki og eru í takmörkuðu magni í jörðinni eru t.d. málmar, olía og kol. Sé þessum auðlindum sóað getur það orðið til þess að ekkert verði eftir handa komandi kynslóðum. • Auðlindir sem endurnýjast með takmörkunum eru t.d. fiskistofnar, skóglendi og jarðhiti. Ef nýtingu er þannig háttað að við auðlindina bætist það sem af henni er tekið mun hún endast um ókomna framtíð. Það er mjög mikilvægt að fara vel með auðlindir jarðar. Ekki er sjálfgefið að það sem er verði alltaf til staðar. Ef illa er farið með auðlindirnar eða þær ofnýttar geta þær klárast. Auðlindanýting, þ.e. hvernig við nýtum auðlindir jarðar, verður að byggjast á skynsamlegri nýtingu og endurvinnslu þ.e. hringrásarnýtingu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=