Um víða veröld - Jörðin
107 Höfin Mengun hafsins Í umhverfismálum hefur víða orðið mikil hugarfarsbreyting. Fram á seinustu áratugi var hafið talið svo stórt að engu máli skipti þó öllum úrgangsefnum mannsins væri komið þar fyrir, samanber hugtakið: „ Lengi tekur sjórinn við “. Úrgangur var þá losaður í hafið og héldu menn að með því væru þeir lausir allra mála. Í dag vita menn betur. Mengun á strandsvæðum er víða slík að dýrastofnar eru í bráðri hættu, fuglar veslast upp og deyja, t.d. í olíubrák. Notkun baðstaða hefur lagst af vegna óþrifnaðar og sýkingarhættu. Aukið magn eiturefna í hafinu er mikið áhyggjuefni. Rannsóknir benda til að heimshöfin kunni að vera í alvarlegri hættu á komandi árum ef ekkert verður að gert. Margar milljónir tonna af olíu enda árlega í sjónum. Olíuhreinsistöðvar sem jafnan eru nærri sjó leka mikilli olíu. Olíu er sleppt vísvitandi úr skipum við ýmsa vinnu og þegar stór olíuflutningaskip stranda lekur oft gríðarlega mikil olía í sjóinn sem valdið hefur hrikalegu tjóni á nærliggjandi ströndum. Í aldir hafa ár sem renna um byggð svæði verið notaðar sem losunarstaðir fyrir úrgang sem skilar sér að lokum til sjávar. Dæmi um úrgang er t.d. skólp frá heimilum fólks, eitraður efnaúrgangur, þungmálmar, geislavirk efni o.fl . frá þéttbýlum iðnaðarsvæðum. Fljótandi rusl í hafinu er mönnum líka áhyggjuefni og er plast þar í meirihluta. Vegna þess hversu létt það er getur það borist um langan veg til afskekktra stranda. Plastið er mikill skaðvaldur vegna þess að það eyðist ekki í náttúrunni. Sjávardýr eins og höfrungar, selir og skjaldbökur flækjast í plastinu og fuglar gleypa það í misgripum fyrir fæðu með ófyrirséðum afleiðingum. Olíublautur fugl í Svartahafi.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=