Um víða veröld - Jörðin

99 Höfin Loftslag strandsvæða Hafstraumar hafa mikil áhrif á hitafar við strendur meginlanda. Vindur sem blásið hefur yfir hlýjum hafstraumi er hlýr og inniheldur mikinn raka. Þessi vindur er þvingaður til að stíga þegar hann kemur inn yfir strönd og þá verður úrkoma mikil. Á þessum svæðum, þar sem loftslag er milt og rakt, eru skilyrði til búsetu oft góð. Þar er víða að finna góð landbúnaðarsvæði. Þegar vindur sem blásið hefur yfir köldum hafstraumi kemur inn yfir strönd er hann kaldur og inniheldur ekki eins mikinn raka. Þetta hefur mikil áhrif á loftslag og veður strandsvæða. Ísland og strandsvæði Vestur- Evrópu allt til Norður-Noregs búa við milt loftslag allt árið um kring. Loftslag þessa hluta Evrópu hefur mótast vegna hins hlýja Golfstraums sem streymir að vesturströnd Evrópu. ÁGrænlandi teygir Grænlandsjökullinn sig hins vegar langleiðina að 60° norðlægrar breiddar. Ástæðuna má rekja til þess að úti fyrir ströndum Grænlands eru kaldir hafstraumar, Labradorstraumurinn að vestanverðu og Austur-Grænlandsstraumurinn að austanverðu. Yfir Grænlandi er því mun svalara en á sömu breiddargráðu hinum megin við Atlantshafið. Höfuðborgirnar Osló, Stokkhólmur og Helsinki eru á svipaðri breiddargráðu og syðsti hluti Grænlandsjökuls en loftslagið þar er gjörólíkt. Staðirnir Steinsfjorden í Lofoten í Noregi (að ofan) og Ilulissat á Grænlandi (til hliðar) eru næstum á sömu breiddargráðum. Þrátt fyrir það er munur á loftslagi mikill. Ástæðan er hlýr hafstraumur við Noreg en kaldur við Grænland.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=