Um víða veröld - Heimsálfur

88 Atvinnuhættir Landbúnaður og sjávarútvegur Þrátt fyrir að landbúnaðarframleiðsla í norðanverðri álfunni sé ein sú mesta í heimi starfa hlutfallslega mjög fáir við hana. Vélvæðing og notkun tilbúins áburðar í landbúnaðinum er mikil og uppskeran eftir því. Ræktunin er víða sérhæfð og fer eftir því hvað best hæfir loftslagi og jarðvegi á hverjum stað. Aðal landbúnaðarsvæðið er á Sléttunum miklu austan við Klettafjöllin. Áður voru þær heimkynni villtra vísunda. Síðan voru þær nýttar undir nautgriparækt en eru í dag eitt mesta kornræktarsvæði heims. Syðst á sléttunni er bómull mikið ræktuð. Umhverfis stórborgirnar eru framleiddar vörur sem ekki þola langa geymslu eða flutninga og verða að komast fljótt í verslanir, t.d. mjólkurvörur og grænmeti. Í suðausturhluta Bandaríkjanna er tóbaksræktun mikil. Kvikfjárrækt er mest á þurra beltinu milli Klettafjalla og Sléttanna miklu. Þetta svæði var þekkt sem Villta vestrið á 19. öld, þar sem kúrekar ferðuðust á milli bithaga með nautgripi sína. Í löndumMið-Ameríku og á eyjum Karíbahafsins eru aðallega ræktaðir bananar, kaffi og sykurreyr til útflutnings. Bananaræktin fer að mestu fram á láglendinu við strendurnar en kjöraðstæður fyrir kaffiræktina eru í fjalllendinu eftir allri Mið-Ameríku í 900–1200 m hæð. Sykurreyr er mikið ræktaður á eyjunum í Karíbahafi. Sjávarútvegur er hvað mestur nyrst í álfunni en er engan veginn nægur til að svara eftirspurn. Í Kyrrahafi eru túnfisk- og laxveiðar í sjó mikilvæg atvinnugrein en þorskveiðar í norðanverðu Atlantshafi. Í Mexíkóflóa eru aðallega veiddar rækjur og skelfiskur. Íslendingar flytja talsvert af sjávarafurðum sínum til Bandaríkjanna. Korn þreskjað í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Ásamt hagstæðu loftslagi hafa hinar miklu víðáttur í landslagi Norður-Ameríku verið notaðar undir kornrækt. Í dag eru þetta ein mestu kornræktarsvæði heims.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=