Um víða veröld - Heimsálfur

75 Afríka Suður-Afríka Suður-Afríka er land syðst á meginlandi Afríku. Hátt í Drekafjöllum sem teygja sig eftir austurhluta landsins er sjálfstæða ríkið Lesótó, umlukt Suður-Afríku á alla vegu. Suður-Afríka, sem liggur að Atlantshafi í vestri og Indlandshafi í austri, er að mestu leyti háslétta í 1200– 1800 m hæð. Syðsti hluti landsins og jafnframt álfunnar er Agulhashöfði. Litlu vestar er Góðrarvonarhöfði. Nafn sitt fékk höfðinn seint á 15. öld og er það dregið af þeirri bjartsýni og eftirvæntingu sem ríkti meðal Evrópumanna með nýuppgötvaða sjóleið til Indlands og Austurlanda. Prince Edwardeyjar í Indlandshafi tilheyra Suður-Afríku. Þar er starfrækt rannsóknarstöð sem fæst við veðurfræði- og líffræðirannsóknir. Eyjarnar eru virkar eldfjallaeyjar. Loftslag í Suður-Afríku er heittemprað. Á austurströndinni er rakt en á vesturströndinni er mjög þurrt vegna hins kalda hafstraums sem er úti fyrir strönd landsins. Þar er líka strandeyðimörkin Namib, sem teygir sig norður eftir allri strandlengju Namibíu. Uppi á hásléttunni í norðurhluta landsins er Kalaharíeyðimörkin. Í Suður-Afríku er dýra- og plöntulíf mjög fjölskrúðugt og eru stór landsvæði friðlýst sem þjóðgarðar. Ríkjandi gróður á hásléttunni er savanni. Höfðaborg í Suður-Afríku. Borðfjall gnæfir yfir borginni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=