71 Afríka Stíflugerðinni fylgdu bæði kostir og gallar. Mun meira land var hægt að taka undir ræktun. Hægt var að fá þrjár uppskerur á ári í stað einnar áður. Samgöngur bötnuðu, iðnaður óx hröðum skrefum og borgir og sveitir voru rafvæddar samhliða raforkuframleiðslu í Aswan-orkuverinu. Ókostirnir eru hins vegar þeir að framburður Nílar berst ekki lengur yfir ræktarlandið neðan stíflunnar, heldur sest hann allur á botninn í Nasservatni. Bændur neðan stíflunnar þurfa því að kaupa dýran, tilbúinn áburð sem leiðir til þess að þeir fá minni tekjur af uppskerunni og áralöng áburðarnotkun veldur mengun. Óshólmar Nílar stækka ekki lengur, heldur fara minnkandi vegna minni framburðar og ágangs sjávar, en sjórinn brýtur meira land en framburður árinnar nær að byggja upp. Fiskveiðar fyrir botni Miðjarðarhafs hafa dregist saman vegna þess hversu lítið berst af næringarríkum framburði til hafs. Fjöldi ferðamanna sækir Egyptaland heim á hverju ári. Þar er helsta aðdráttaraflið píramídarnir, en saga þeirra og Nílar er samofin, sem undirstrikar mikilvægi árinnar fyrir allt líf og menningu á þessu svæði. Níl hefur fært íbúum landsins allt það vatn sem þeir hafa þurft á að halda. Hún hefur gefið þeim frjósama jörð til ræktunar og svo hefur hún nýst vel til siglinga og flutninga á alls kyns varningi. Í seinni tíð hefur fjöldi ferðamanna komið gagngert til að sigla á ánni. Níl er og hefur verið lífæð Egypta og sjálfir kalla þeir hana móður sína. Felucca bátur á Níl. Sfinxinn í Gísa.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=