Um víða veröld - Heimsálfur

64 Atvinnuhættir Landbúnaður og sjávarútvegur Efnahagslíf margra Afríkulanda byggist að mestu á sjálfsþurftarbúskap og ræktun einstakra landbúnaðarafurða til útflutnings. Útflutningstekjur margra landa byggjast að mestu leyti á aðeins einni afurð eins og kaffi, tei, kakói, banönum og jarðhnetum en ræktun á síðastnefndu afurðinni er mikilvæg búgrein í löndum Vestur-Afríku. Ef uppskerubrestur yrði á þessari einu afurð kæmi það sér afar illa fyrir efnahag þessara landa. Meira en helmingur Afríkubúa starfar við landbúnað og er langstærsti hluti þeirra smábændur sem rækta nánast eingöngu fyrir sig og fjölskyldur sínar. Afrískir bændur rækta korn og rótarplöntur til að framfleyta fjölskyldum sínum. Jarðvegur í Afríku er ekki frjósamur svo bændur verða að gæta þess að ganga ekki á gæði landsins. Samhliða jarðræktinni halda þeir húsdýr eins og svín og hænsni og kannski nokkrar kýr. Þróun í landbúnaði hefur nánast engin verið og eru haki og skófla helstu verkfærin enn í dag. Vélar og tilbúinn áburður eru lítið sem ekkert notuð. Á harðbýlum eyðimerkursvæðum er kvikfjárrækt talsverð og felst þá aðallega í hirðingjabúskap. Þar flakka hirðingjar með nautgripi sína og geitur á milli vatnsbóla. Á fáeinum landsvæðum í Afríku er jarðvegur mjög góður. Þar eru stórar bújarðir þar sem akuryrkja er talsverð. Þar fer ræktunin frammeð vélum og tilbúnum áburði. Þessi svæði eru aðallega í Suður-Afríku, Kenía og Simbabve. Iðnaður og þjónusta Iðnvæðing í Afríku er takmörkuð. Þar er nóg af verðmætum jarðefnum, en skortur á öðru til að stunda iðnað, eins og járni og orkuauðlindum. Helstu iðnaðarsvæðin eru bundin við Suður-Afríku og arabalöndin í norðri, Marokkó, Alsír, Túnis, Líbíu og Egyptaland. Iðnaðurinn byggist að mestu á hráefnavinnslu og eru helstu greinarnar olíuiðnaður, námuvinnsla og vefnaðariðnaður. Náttúrufegurð og verndarsvæði villtra dýra í Austur-Afríku hafa laðað til sín ferðamenn víðs vegar að úr heiminum og ferðaþjónusta hefur blómstrað. Hér má sjá bónda plægja akur sinn og sjómann huga að báti sínum og veiðarfærum. Víða í Afríku hefur tækniþróunin ekki enn hafið innreið sína.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=