62 Náttúrufar Næstum öll álfan liggur í hitabeltinu og heittempruðu beltunum og nýtur engin önnur álfa jafn mikils sólarhita og Afríka. Álíka langt er frá miðbaug til nyrstu og syðstu stranda Afríku og er þar af leiðandi sömu gróðurbelti að finna bæði í suðri og norðri. Umhverfis miðbaug er stórt svæði með hitabeltisregnskógi. Regnskóg er þó einungis að finna í álfunni vestanverðri þar sem láglendið veldur því að rakamettaðir vindar af hafi eiga greiða leið inn yfir landið. Fyrir sunnan og norðan regnskógasvæðið og í hitabeltinu í Austur-Afríku er úrkoman ónóg fyrir regnskóg og myndast í staðinn savannar, stórar opnar gresjur með trjám á stangli. Algengasta trjátegundin á savannanum er akasíutré. Þar eru líka heimkynni stærstu hófdýrahjarða í heimi. Því lengra sem farið er frá savannanum, í norður eða suður, dregur enn frekar úr úrkomunni og þegar komið er í heittempruðu beltin taka við steppur og síðan eyðimerkur, enda úrkoman of lítil til að gróður geti þrifist. Eyðimerkursvæðin í norðri og suðri ná bæði út að Atlantshafi þar sem kaldir hafstraumar með fram ströndunum hindra enn frekar að úrkoman berist inn yfir landið. Allra nyrst við Miðjarðarhafið og allra syðst í Suður-Afríku er Miðjarðarhafsloftslag með sígrænu makkíkjarri. Gíraffi að gæða sér á laufblöðum af akasíutré. Loftslag og úrkoma í Afríku.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=