42 Andstæður Auk þess að vera langstærsta heimsálfan, með um þriðjung af öllu þurrlendi jarðar, er Asía einnig sú langfjölmennasta, en þar búa tæplega ⅔ hlutar mannkyns. Rússland er stærsta land í heimi og tilheyrir bæði Asíu og Evrópu. Um ¾ hlutar Rússlands eru í Asíu. Í álfunni er bæði að finna þéttbýlustu og dreifbýlustu svæði heims. Slétturnar í austurhluta Kína, Ganges-dalurinn í Indlandi, Japan og eyjan Java í Indónesíu eru mjög þéttbýl. Hins vegar eru stórir hlutar af Síberíu og Tíbet-hásléttunni nánast óbyggðir, sem og hlutar af þurru svæðunum í vesturhluta álfunnar. Tvö fjölmennustu lönd í heimi, Kína og Indland, eru í Asíu. Í Kína búa um 20% íbúa jarðar og litlu færri á Indlandi. Ef spár manna ganga eftir munu Indverjar verða fleiri en Kínverjar innan fárra ára. Norðan Kína er Mongólía, eitt strjálbýlasta land heims. Ólíkur efnahagur Óhætt er að segja að munur á lífsgæðum fólks sé afar mikill í álfunni. Þar er bæði að finna mikið ríkidæmi og mikla fátækt. Af auðugum löndum má nefna Japan og Singapúr. Í löndum eins og Bangladess og Nepal er hins vegar víða mikil fátækt. Þar þurfa mörg börn að vinna og leggja sitt af mörkum svo fjölskyldan nái endum saman. Þar er lítil opinber þjónusta, eins og heilsugæsla og menntun og ólæsi því víða mikið. Þeir sem eru ólæsir eiga erfitt með að brjótast út úr fátæktinni og hafa því leitað til annarra landa eftir vinnu en senda launin svo til baka til fjölskyldunnar. Í hindúasið eru kýr heilagar og fá þær að vafra óáreittar um göturnar. Mörg börn á Indlandi vinna erfiðisvinnu við erfiðar og jafnvel hættulegar aðstæður.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=