Um víða veröld - Heimsálfur

32 KVIKFJÁRRÆKT Kvikfjárrækt er ræktun búpenings. Ræktunin fer ýmist fram á búgörðum eða þá að flakkað er með bústofninn á milli beitilanda, sbr. hirðingjar. Einkenni álfunnar Evrópa er mjög þéttbýl og hátt hlutfall íbúa býr í borgum. Þéttbýlustu svæðin eru frá Englandi allt suður til Ítalíu. Þrátt fyrir að Evrópa sé lítil heimsálfa eru löndin mörg og þjóðarbrotin sem í þeim búa enn fleiri. Í sumum löndum búa mörg ólík þjóðarbrot. Þar geta auðveldlega orðið árekstrar ef ekki ríkir umburðarlyndi og skilningur á milli manna. Samgöngur í Evrópu eru háþróaðar. Þétt samgöngunet vegakerfis, járnbrauta og flugsamgangna liggur um alla álfuna. Þrátt fyrir það eru samgöngumannvirki víða orðin úrelt og þá sérstaklega í Austur-Evrópu. Lífskjör í Vestur-Evrópu eru almennt eins og þau gerast best í heiminum, þrátt fyrir að atvinnuleysi og fátækt sé nú meiri meðal ákveðinna þjóðfélagshópa en oft áður. Íbúar Austur-Evrópu búa þó almennt við lakari lífskjör en íbúar Vestur-Evrópu. Atvinnuhættir Landbúnaður og sjávarútvegur Landbúnaður í Evrópu er mikilvægur enda um helmingur alls lands í álfunni notaður undir atvinnugreinina. Blandaðan búskap skógræktar, akuryrkju og kvikfjárræktar má finna um alla álfuna. Skógrækt er þó einkum stunduð í barrskógabeltinu í norðri. Í miðhluta Evrópu er aðallega stunduð kvikfjárrækt þar sem afurðirnar eru mjólkurvörur og kjötvörur. Í austurhluta álfunnar er akuryrkja algeng. Þar eru náttúruleg skilyrði, veðurfar og jarðvegur, ákjósanleg til kornframleiðslu enda talað um austurhlutann sem kornforðabúr Evrópu. Milt loftslagið við Miðjarðarhaf gerir mönnum kleift að rækta m.a. vínþrúgur og sítrusávexti. Þær Evrópuþjóðir sem eiga aðgang að sjó stunda allar fiskveiðar, þó í mismiklummæli. Hjá Íslendingum, Færeyingum og Norðmönnum skipta fiskveiðarnar efnahagslega miklu máli. Iðnaður og þjónusta Á 19. og 20. öld voru miklar kola- og járngrýtisnámur í Evrópu nýttar til að koma á fót stáliðnaði og annarri iðnaðarframleiðslu sem var mjög til hagsbóta fyrir Evrópu, einkumVestur-Evrópu. Atvinnulíf hefur í auknum mæli færst frá þungaiðnaði yfir í hátækniiðnað og þjónustu, sem hefur gert Evrópubúum kleift að viðhalda auðlegð sinni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=