Um víða veröld - Heimsálfur

29 Evrópa Landslag Evrópa er næstminnsta heimsálfan á eftir Eyjaálfu. Miðað við smæð álfunnar má segja að landslag þar sé mjög fjölbreytt. Evrópa er í raun stór skagi sem gengur út úr Asíu og einkennist af löngum, vogskornum ströndum í suðri og vestri og miklum meginlandssléttum í austri. Landslagið í Evrópu mótaðist að miklu leyti á ísöld þegar ísaldarjökullinn skreið fram og svarf landið með sínum ógnarkrafti og myndaði víða U-laga dali, djúpa firði og tindótta fjallgarða. Suðurhluti Evrópu er fjöllóttur eins og norðurhlutinn, en ummiðbik álfunnar er láglendi einkennandi allt austur til Úralfjalla. Fjalllendið í Suður-Evrópu, sem er hluti af Alpafellingunni, varð til við árekstur meginlanda Afríku og Evrópu. Hæstu fjöll Evrópu er að finna í Ölpunum og Kákasusfjöllum. Í álfunni er fjöldi fljóta og vatna, aðallega í norðurhluta hennar, sem ber skýr ummerki ísaldarjökulsins. Strandlína Evrópu er víða vogskorin með innhöfum og strandhöfum. Fjöldi eyja er einnig mikill, einkum í norðurhlutanum og í Miðjarðarhafi. Stærstu skagar eru Skandinavíuskagi, Íberíuskagi og Balkanskagi. ALPAFELLINGIN Alpafellingin er heiti á fellingafjöllum sem hófu að myndast fyrir um 100 milljónum ára og eru enn í mótun. Matterhorn er tignarlegt fjall í Ölpunum á landamærum Sviss og Ítalíu. Sem hluti af Alpafjöllum hefur það orðið til við árekstur meginlanda sem krumpar jarðskorpuna í fellingar sem verða að fjallgörðum eins og þeim sem liggur þvert yfir Suður-Evrópu og inn í Asíu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=