138 Ástralía Ástralía er eina ríki heims sem nær yfir heilt meginland. Það er í Breska samveldinu og er þjóðhöfðingi Bretlands jafnframt þjóðhöfðingi Ástralíu. Ástralía er næstum jafn stór og Evrópa og þar sem íbúarnir eru ekki nema um 23 milljónir er landið mjög strjálbýlt. Um 70% landsmanna búa í strandhéruðunum í suðaustri þar sem vætusamara er og veður ákjósanlegra til búsetu. Þar eru flestar af stærri borgum landsins, Sydney, Adelaide, Melbourne, Brisbane, höfuðborgin Canberra og Hobart á eyjunni Tasmaníu. Elstu leifar um mannvist í Ástralíu eru um 50.000 ára gamlar en vegna þess að frumbyggjar álfunnar þróuðu aldrei með sér ritmál er lítið vitað um sögu hennar fram til þess tíma þegar Evrópubúar komu þangað fyrst. Árið 1788 settust fyrstu landnemarnir að í Ástralíu. Það voru Bretar, sem stofnuðu fanganýlendu þar sem borgin Sydney er nú. Í kjölfarið fylgdu fleiri landnemar, aðallega frá vestanverðri Evrópu í fyrstu. Á undanförnum áratugum hefur fólk flust þangað í ríkari mæli frá austanverðri Evrópu og Asíulöndum eins og Kína, Víetnam og Indónesíu. Ástralía er fjölmenningarsamfélag og halda margir innflytjendur fast í sínar fjölskylduhefðir. Núorðið eru Ástralir flestir komnir af Evrópumönnum. Aðeins um 2% Ástrala eru afkomendur frumbyggja, enda var þeim markvisst fækkað þegar Evrópumenn fluttust þangað. Nú búa flestir frumbyggjar í Nýja Suður-Wales og Queensland en einnig á sérstökum verndarsvæðum á strjálbýlli svæðum landsins. Óperuhúsið í Sydney er vinsæll áningastaður ferðamanna.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=