Um víða veröld - Heimsálfur

116 Atvinnuhættir Landbúnaður og sjávarútvegur Landbúnaður er stærsta atvinnugreinin í Suður-Ameríku. Ólíkt álfunni í norðri vinnur hátt hlutfall fólks í landbúnaði og eiga löndin víða fullt í fangi með að framfleyta íbúum sínum. Þessu er þó ekki eins farið um alla álfuna. Löndin í Andesfjöllum eru fátækust en löndin í suðurhlutanum standa best. Þar eru aðstæður víða vel fallnar til kvikfjárræktar eins og á hinni gríðarstóru Pampasgresju í suðurhluta álfunnar, sem stendur undir öflugum kjötiðnaði í Argentínu, Úrúgvæ og Paragvæ. Maís er mikið ræktaður í álfunni og kaffi er ræktað til útflutnings í Brasilíu og Kólumbíu. Megnið af kókaíni í heiminum er unnið úr kókaplöntum sem ræktaðar eru í Kólumbíu, Perú og Bólivíu. Margar fæðutegundir sem nú eru algengar um allan heim eru upprunnar í Suður-Ameríku. Má þar nefna kartöflur, tómata og grasker. Í Chile og Argentínu hefur á síðari árum myndast blómleg vínberja- og vínframleiðsla. Eins og annars staðar við miðbaug er yfirborðssjórinn í Kyrrahafinu næringarsnauður en djúpsjórinn kaldur og næringarríkur. En þar sem vindur stendur stöðugt af landi rekur hlýjan yfirborðssjóinn frá landi svo kaldur næringarríkur sjór getur streymt með fram ströndunum. Þessar aðstæður hafa skapað gjöful fiskimið úti fyrir vesturströnd álfunnar. Ansjósur eru mikið veiddar við Perústrendur og sardínur við Chile. Perú er ein af stærri fiskveiðiþjóðum í heimi. Ung kaffitínslukona í S-Ameríku. Þegar berin eru orðin rauð eru þau fullþroskuð.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=