104 Kúba Eins og fram hefur komið er Kúba stærst Stóru-Antillaeyja, litlu stærri en Ísland. Kúba skilur að Karíbahaf, Mexíkóflóa og Atlantshaf. Eyjan er að mestu láglend en með suðausturströndinni er fjallgarður þar sem hæsti tindur er 2560 m hár. Þar ríkir hitabeltisloftslag og savanni er ríkjandi gróður. Regnskógurinn, sem áður var að finna á Kúbu, hefur verið höggvinn niður og landið nýtt til landbúnaðar. Landbúnaður er mikilvægasta atvinnugreinin og eru helstu afurðir sykur, tóbak og kaffi, en Kúba er þekkt fyrir að framleiða eina bestu vindla í heimi. Megináhersla er lögð á landbúnaðarframleiðslu til útflutnings. Fiskveiðar eru töluverðar. Kúba er auðug af náttúruauðlindum og stutt er síðan talsvert magn af olíu fannst undan norðurströnd eyjunnar. Iðnaður er nokkur og fer vaxandi. Helstu greinar hans eru sykur-, tóbaks- og vefnaðariðnaður. Þrátt fyrir að landið sé fátækt er heilbrigðiskerfið mjög gott og hvergi í heiminum eru fleiri læknar á hvern íbúa en þar. Menntakerfið er einnig gott. Kúba er mjög vinsæll ferðamannastaður og tekjur af ferðamönnum miklar. Vegna stjórnmáladeilna settu Bandaríkjamenn viðskiptabann á Kúbu árið 1962 sem enn er í gildi. Vegna viðskiptabannsins og stefnu stjórnvalda hefur ríkt ákveðin stöðnun í efnahagslífinu. Á Kúbu hefur ríkt eins konar auglýsingabann á almannafæri. Þeir sem ferðast til Kúbu taka gjarnan eftir því hvernig borgarlandslagið þar er allt öðruvísi en í vestrænum borgum – einmitt vegna þess að áreiti frá auglýsingaskiltum er ekkert. Samgöngur á Kúbu eru ekki góðar. Kúba var einræðisríki til ársins 2018. Þá voru öll völd landsins í höndum eins manns eða lítils hóps manna. Einræðisherra eftir byltinguna 1959 var Fidel Castro. Árið 2008 tók bróðir hans, Raúl Castro, við stjórnartaumunum. Árið 2018 var Miguel Díaz Canel valinn til að taka við af Raúl sem forseti Kúbu. Á Kúbu er töluð spænska og er meirihluti landsmanna kaþólskrar trúar þótt opinberlega sé landið trúlaust. VIÐSKIPTABANN Viðskiptabann meinar ríki að eiga í viðskiptum við annað ríki. Fidel Castro.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=