6 Hlustum saman (Nemendabók bls. 6) Myndmenntakennarar vinna úr því sem augað nemur. „Alls staðar í umhverfi okkar er sjónrænt áreiti sem mikilvægt er fyrir nemendur okkar að læra að lesa og greina“. Aðalnámskrá grunnskóla 2013, bls. 148. Á sama hátt þurfa tónmenntakennarar að vinna út frá hljóðheiminum. Í daglegu umhverfi okkar eru mörg hljóð og skemmtilegir hljóðgjafar, allt eftir því hvar við erum stödd. Það umhverfi sem nemendur dvelja hvað mest í er heima, í skólanum og hugsanlega við íþrótta- og tómstundastarf. Gaman er að velta fyrir sér með nemendum hvað við erum að hlusta á allan daginn og hvort við tökum eftir því. Hér leggjum við áherslu á virka hlustun og að taka eftir því hvað er í kringum okkur. Byrjið að vinna út frá þögninni. Börnin setjast í hring, loka augum og reyna að skynja þögnina. Staldrið við og gefið þeim tíma til að einbeita sér og virkja hlustunina. Spyrjið: Hvaða hljóð heyrið þið? Heyrist eitthvert hljóð inni í stofunni? Heyrast einhver hljóð annars staðar úr skólanum? Heyrist eitthvað fyrir utan skólann? Hið greinandi ferli, sem farið er í gang, gefur hávaðanum í umhverfinu merkingu. Ræðið um allt sem heyrist þá stundina. Hljóðbylgjan: Hljóðbylgjur eru ósýnilegur titringur í loftinu. Þegar við sláum á trommu setjum við af stað bylgju sem berst inn í eyru okkar. Til að finna titringinn á áþreifanlegan hátt má stinga hendinni inn í djúpa trommu og biðja félaga sinn eða kennara að slá á. Hermileikur: Allir viðstaddir sitja saman í hring, tilbúnir að herma eftir tónsköpun kennarans. Hann býr til hljóð- og hryndæmi með röddinni, nýr saman höndum, klappar hrynmunstur, smellir fingrum, notar búkslátt o.s.frv. Nemendur gera sitt besta, hlusta af athygli og líkja eftir kennaranum. Hann hvetur þá til að vanda sig og vera samtaka. Hryndæmi fyrir hermileik: Hlustunar- og hermileik má yfirfæra yfir á hljóðfæri eða sérvalin hrynmunstur til þjálfunar, söng og texta til lærdóms. Einnig til að þjálfa hlustun, einbeitingu og fleira. Verkefni (Nemendabók bls. 6) Nemendur bæta við þeim hljóðgjöfum sem vantar á myndina, t.d. klukku, tölvu, stafspilum, ýmsum hljóðfærum o.fl.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=