Tónlist og umhverfi - kennarabók

33 Nótnastrengur og G-lykill (Nemendabók bls. 22–23) Tónlistin á sitt eigið umhverfi sem byggist á nótum og öðrum skemmtilegum táknum. Nótnastrengurinn er hús nótnanna og G-lykillinn fer fyrstur eins og lykill að húsinu. Hér eru nemendur kynntir fyrir nótnastrengnum og uppbygginu hans út frá hendinni, 5 línur og 4 bil. Nemendur leggja vinstri hönd á blað og láta fingur nema við hverja línu, þumalfingur á neðstu og svo koll af kolli. Nemendur teikna síðan útlínur handa við enda nótnastrengs og leysa meðfylgjandi verkefni. Ef með þarf getur hópurinn fundið fyrsta táknið á nótnastrengnum, t.d. flugdrekann, saman og þá er eftirleikurinn einfaldari. Eftir að nemendur hafa æft sig að teikna G-lykilinn, má teikna hann inn í lófann á stóra nótnastrenginn. Einnig æfa nemendur að skrifa nótnahausa á bil og línur. Leikhljóð og tónlist Sagan um Momo býður upp á mörg tækifæri til tjáningar, leiks og sköpunar. Í hópi ungra skólabarna er best að kennarinn lesi söguna en börnin sjái um hina leikrænu útfærslu. Fyrst þarf að lesa söguna fyrir börnin, síðan að ræða efni hennar og hugmyndir um leikræna útfærslu. Sagan fjallar um japanska innflytjendur í New York. Hugsanlega má flytja verkið í tengslum við fjölmenningarlega hátíð. Komið af stað umræðum um leikhljóð í sögunni. Í hverju heyrist? Vindi, rigningu, fólki og farartækjum sem og börnum á leikvelli. Vindflautur, þrumutrommur (spring drums), regnstokkar o.fl. koma hér að góðum notum. Benda má á bókina Hljóðleikhúsið sem Námsgagnastofnun gaf út árið 2009. Sé farið lengra í áttina að listrænni útfærslu má hugsa sér fuglaflautur (vor boðann) í kaflanum Haru (vorið). Eins lítið lag fyrir sólargeislana í kaflanum Natsu (sumarið). Geislar sólarinnar eru bjartir. Ræðið um það hvaða hljóðfæri tónmenntastofunnar hafa bjarta tóna. Tilvalið er að semja „undursamlegt lag“ fyrir „hina dansandi regndropa“ og virðulegt göngulag Momo þegar hún „gengur fallega eins og fullorðin kona“. Er hægt að ljá uppfærslunni framandi blæ með að leika eitthvert lag eða brot úr lagi sem byggt er á pentatónískum skala, t.d. japanska lagið Sakura? (Lagið nefnist Floginn burt í Tónmennt 5. hefti frá árinu 1978 og er á bls. 183).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=