Tónlist og umhverfi - kennarabók

20 Spilað eftir spjöldum Þessi leikur nýtist til að virkja hlustun og athygli, sem púlsþjálfun, hljóðfærakynning, jafnvel hrynþjálfun og einnig sem stjórnendaleikur. Skiptið nemendum í nokkra hópa. Hver hópur fær eina gerð hljóðfæris, t.d. stafi, hristur, þríhorn, handtrommur eða tambórínur. Kennari hefur hjá sér spjöld með myndum af hverju hljóðfæri sem notað er, setur taktvisst lag á fóninn og nemendur hlusta vel eftir púlstakti. Kennari lyftir einu spjaldinu á loft, t.d. með mynd af trommu, og þá spila þeir sem hafa trommur góðan púls með tónlistinni. Þegar kennari leggur niður trommuspjaldið þagna trommurnar. Hann lyftir svo næsta hljóðfæraspjaldi, t.d. þríhorni og viðkomandi nemendur taka þá við að spila og svo koll af kolli. Kennari má lyfta tveimur eða fleiri spjöldum í einu, setja stundum öll niður og hafa þögn, æfa hraðaskiptingar o.s.frv. Nemendur fylgjast vel með spjöldunum og vanda sig við að spila og stoppa á réttum stöðum. Gætið þess að nemendur hlusti eftir púlsslagi og vandi sig að spila í takt við tónlistina. Ítrekið nauðsyn þess að hlusta og reyna að spila saman eins og ein manneskja. Nú mega nemendur spreyta sig á að stjórna með spjöldunum. Hópar geta skipt um stað og hljóðfæri til hljóðfærakynningar og tilbreytingar. Leitarorð: • Lína langsokkur • Lagið um það sem er bannað • Öxar við ána • Íslensk barnalög

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=