Tónlist og umhverfi - kennarabók

19 Púlsþjálfun með hljóðfærum og hreyfingu Flestum þykir gaman að fá hljóðfæri í hendur. Hrynhljóðfæri, þ.e. hljóðfæri sem ekki gefa frá sér ákveðinn tón, henta yfirleitt vel til púlsþjálfunar. Í fjölmennum nemendahópi getur hávaðinn af slíku verið nokkur. Eins getur verið erfitt að láta hvern og einn hafa hentugt hljóðfæri. Þá fer vel á því að láta hálfan bekkinn leika á hljóðfæri á meðan hinn helmingurinn hreyfir sig. Hafa svo hlutverkaskipti. Eins má skipta bekknum í enn fleiri hópa og hafa þá nokkrar tegundir hljóðfæra í boði, eina fyrir hvern hóp. Önnur hugmynd: Kennari tekur sér trommu í hönd. Börnin ganga í takt við trommuleik hans. Þau ganga eðlilega og kynna sér rýmið sem þau hafa til umráða. Þegar allir eru farnir að ganga í takt, bregður kennarinn á leik. Biður börnin t.d. að ganga eins og gengið sé á ís, yfir heitt hraun, yfir glerbrot, innan um kaktusa, útskeif eða innskeif, eins og að vaða á, eins og þau séu með krukku á höfðinu. Þannig má halda áfram. Enn ein hugmynd: Börnin ganga í takt við tónlist, t.d. Radetzky- marsinn eða göngulög á geisladisknum. Þegar tónlistin þagnar frjósa allir. Næst biður kennari nemendur um að standa allir saman á einhverjum sérstökum stað. Síðan nefnir hann nafn einhvers og biður hann að ganga af stað í takt við tónlistina. Um leið og tónlistin þagnar frýs nemandinn þar sem hann er staddur. Þá nefnir kennarinn nafn annars nemanda og á hann þá að fara af stað í áttina að hinum. Þegar tónlistin þagnar nemur hann staðar. Þá kemur sá þriðji og þannig koll af kolli. Að lokum verður til ek. myndastytta af öllum hópnum. Því næst bendir kennarinn á hvern og einn og segir t.d. gulur, rauður, grænn og blár. Heldur síðan áfram að leika ofangreinda göngutónlist og bregður einhverjum þessara lita á loft (notar t.d. töflutússpenna). Ef hann lyftir gula pennanum eiga þeir sem eru gulir að hreyfa sig og svo framvegis. Þannig tekur myndastyttan stöðugum breytingum. Eins má hugsa sér að láta einhvern nemanda fá pennana og taka við stjórn.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=