og umhverfi KENNARABÓK
TÓNLIST og umhverfi Kennarabók ISBN 978-9979-0-2927-4 © 2015 Pétur Hafþór Jónsson og Þórdís Sævarsdóttir © 2015 teikningar Pétur Atli Antonsson Ritstjórar: Elín Lilja Jónasdóttir og Ingólfur Steinsson Faglestur: Linda M. Sigfúsdóttir 1. útgáfa 2015 Menntamálastofnun Kópavogi Leturgerð í meginmáli: Avenir Roman Hönnun og umbrot: Menntamálastofnun Prentvinnsla: Litróf ehf. – Umhverfisvottuð prentsmiðja Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem með ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis höfunda og útgefanda.
Pétur Hafþór Jónsson og Þórdís Sævarsdóttir Námsefni fyrir yngsta stig grunnskóla – KENNARABÓK og umhverfi
2 Efnisyfirlit Formáli . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 3 Samvinna og samskipti . . . . . . . . . . . . . . 4 Ludwig van Beethoven . . . . . . . . . . . . . . 5 Hlustum saman . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 6 Á leið í skólann . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 8 Hljóðin heima . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 8 Hús til ljósritunar . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 10 Búsáhaldastomp . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 11 Nótnatré . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 11 Lestarleikur . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 12 Lestin kemur, lestin fer . . . . . . . . . . . . . . 13 Hristur . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 14 Heima – fara‘ í heimsókn . . . . . . . . . . . . 15 Fagur fiskur í sjó - púls . . . . . . . . . . . . . . 16 Spilað eftir spjöldum . . . . . . . . . . . . . . . . 20 Orðaklapp . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 22 Veðurhljóð . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 22 Veðrasinfónía . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 23 Hvínandi vindur . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 24 Í rigningu ég syng . . . . . . . . . . . . . . . . . . 25 Droparnir . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 26 Drippedí-dripp, droppedí-dropp . . . . . 27 Stormastuð . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 28 Þekktu hljóðfærin . . . . . . . . . . . . . . . . . . 29 Leikjasöngvar . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 29 Tröllalagið . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 30 Sámur . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 30 Nótnastrengur og G-lykill . . . . . . . . . . . . 33 Leikhljóð og tónlist . . . . . . . . . . . . . . . . . 33 Sagan af Momo . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 34 Hæka . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . . 37 Listi yfir hlustunarefni . . . . . . . . . . . . . . . 39
3 Þetta efni er ætlað yngstu börnum grunnskólans. Hér er unnið með tónlist og umhverfi á fjölbreyttan hátt, í leik, söng, hreyfingu, skapandi ferlum, hlustun og skriflegum verkefnum. Efnið á að hvetja börn til að gefa gaum að umhverfi sínu, ekki síst 1. Einnig að örva þau til að tjá sig um það sem þau heyra í kringum sig en jafnframt að tjá sig með því sem þau heyra. Efnið er tekið saman með hliðsjón af hæfniviðmiðum aðalnámskrár fyrir tónmennt. Tónlist er … leið til sköpunar og tjáskipta, oft án orða, sem einstaklingar fara til að tjá tilfinningar sínar, skoðanir og gildi. Í tónlistariðkun felst hlustun, sköpun og flutningur. Hún er ferli þar sem einstaklingar skapa merkingu með því að bregðast við og vinna úr tónum, hljóðum og þögn, einir eða í samstarfi. Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti 2011 greinasvið 2013 bls. 150. Börn hugsa á skapandi hátt og þurfa ekki alltaf að finna hugsunum sínum farveg í orðum og setningum. Sköpunargáfa þeirra byggir ekki síst á ímyndunarafli og hugarflugi. Þessi gáfa er í mestum blóma við fjögurra til fimm ára aldurinn. Ævintýri, yfirnáttúruleg atburðarás, undarlegt rím og romsur eiga þá mikinn hljómgrunn meðal þeirra. Þetta þarf að hafa í huga á fyrstu árum grunnskólans. Virk þátttaka í skapandi starfi er nauðsynleg hverju barni. Tjáning í leik, hreyfingu, myndlist og tónlist er sú aðferð sem hentar börnum best til að skynja, skilja og uppgötva heiminn. Tónlist veitir þeim tækifæri til að tjá tilfinningar og hughrif sem þeim er ekki fært að koma orðum að. Tónmenntakennarar eru hvattir til að fylgja yngstu nemendunum í gegnum ýmiss konar leiki, tjáningu og skapandi ferli með virkri þátttöku allra viðstaddra. Æskilegt er að þar fái hver og einn tækifæri til að sýna frumkvæði og þor. Kennarinn er eindregið hvattur til að virkja eigið hugmyndaflug. Vera óragur við að setja saman litlar sögur eða lýsa einhverjum kringumstæðum sem nýta má í þessu samhengi. Þannig getur hann með hugkvæmni sinni klætt frumþættina hljóðhæð, hljóðlengd, hljóðblæ, hljóðstyrk og hraða í búning sögu, leiks eða annars skapandi ferlis. Með aðstoð barnanna opnast iðulega ný og óvænt sjónarhorn vegna þess að lítil börn tengja hlutina frjálslega saman. Kennarinn þarf þess vegna að vera viðbúinn því að leikir og skapandi ferli geti tekið óvænta stefnu. Sérstakur kafli er í heftinu um púlsþjálfun. Púls er sá frumþáttur tónlistar sem nauðsynlegt er að vinna markvisst með frá fyrsta skóladegi. Kennaraheftið og nemendaheftið hafa marga snertifleti. En hvort um sig nýtur nokkurs sjálfstæðis frá hinu. Ekki þykir ástæða til að hafa nemendaheftið uppi við öllum stundum. Formáli
4 Samvinna og samskipti Samvinna og góð samskipti eru grundvallaratriði í flutningi og sköpun tónlistar. Þau hafa jákvæð áhrif og auðvelda nemendum að ná settu marki. Hvers kyns tónlistarflutningur eykur samhæfingu milli hugar og handa, milli skynjunar, túlkunar og tjáningar. Jafnframt eykst samhæfing á milli einstaklinga. VEÐRANUDD • Parið saman tvo og tvo. Nýta má tækifærið til að vinna með samskipti. Nota má númer eða liti til aðgreiningar hjá þeim sem vinna saman, t.d. 1 og 2 eða gulan og grænan. Nemandi með númerið 1 fær sér sæti. Númer 2 sest beint fyrir aftan, eins nálægt og þeim þykir þægilegt. • Kennari gengur um sem töframaður/-kona, þylur töfraþulu Abrakadabra, hókus pókus, púff! og breytir öllum sem eru nr. 1 í indíánahöfðingja. Þeir setjast með krosslagða fætur, beinir í baki, loka augum og slaka vel á. • Kennari gengur annan hring með töfraþuluna og breytir nr. 2 í nuddara sem eru tilbúnir að hlusta á leiðbeiningar kennara. Leiðbeiningar kennara til nuddara Byrjið með hendur á gólfi alveg við bak indíánahöfðingjans. Hendurnar breytast í tvo sæta kettlinga sem klifra mjúklega upp á axlir og leggjast á þær, hlýir og mjúkir. Nú breytist þið í bakara og hnoðið axlir indíánahöfðingjans varlega á sama hátt og þegar verið er að baka t.d. pitsu með mömmu og pabba eða hnoða deig í heimilisfræði. • Hnoðið/nuddið niður handleggi, að olnboga og upp aftur, yfir axlirnar. Endið á að strjúka létt yfir axlir. • Hendur breytast í vind sem fýkur um allt bak indíánahöfðingjans – byrjar rólega eins og gola, eykst og verður vindur, eykst enn þá meira og verður stormur og svo rok og fellibylur (crescendo). Vindinn lægir jafnt og þétt og allt fer í ró (diminuendo). • Réttið upp hægri hönd með flötum lófa. Teiknið fallegan, stóran, gulan hring, sem er sólin. Litið með gulum lit. Vandið ykkur og litið ekki út fyrir. Bætið við gylltum lit. Hönd ykkar lýsir upp og þið fyllið sólina af ljósi þannig að hún byrjar að skína. Teiknið marga geisla mjúklega með lófanum allt í kring um sólina og það birtir. 1
5 • Réttið upp vinstri hönd með flötum lófa. Teiknið hring í hina áttina, stóran, fallegan, silfraðan hring, sem er tunglið. Litið með silfruðum lit. Vandið ykkur og litið ekki út fyrir. Þið breytist í listamenn og veljið liti að eigin vali til að bæta í tunglið; t.d. aðeins gulan, hvítan, örlítið af bláum eða fjólubláum o.s.frv. Takið glitrandi álfaduft og dreifið yfir tunglið sem glitrar þá fallega eins og ævintýratungl. • Teiknið Karlinn í tunglinu. Teiknið augu, nef, svo brosandi, fallegan munn. (Karlinn í tunglinu á nóg af draumum og er alltaf í góðu skapi.) Teiknið á hann fallega nátthúfu og bætið við stjörnudúsk og bjöllu á endann. • Litið nú næturhimininn allt í kring með uppáhalds, næturlitnum ykkar. • Teiknið tindrandi stjörnur allt um kring. • Teygið hendurnar langt upp í himinhvolfið, náið í norðurljós sem vefjast um hendurnar og dreifið þeim yfir himininn ykkar. Nú er himinninn fullkominn og yndislega fallegur. • Setjið fingur yfir höfuðið, fingur sem rigna hreinum og tærum daggar- dropum lauflétt á hárið og renna svo niður höfuð og bak og alveg niður á gólf. Endurtakið nokkrum sinnum. Þið megið búa til blíðlegt hljóð fyrir dropana ef þið viljið. • Skiptið nú rólega um hlutverk. Indíánahöfðingjar standa upp og verða nuddarar. • Nýir nuddarar endurtaka allt ferlið fyrir nýjan indíánahöfðingja. • Takist að lokum í hendur og segið: Takk fyrir nuddið. Þú ert frábær nuddari. • Veðranuddið geta nemendur nýtt sér til að hressa við vini sína eða bekkjarsystkin á erfiðum dögum. Ludwig van Beethoven (Nemendabók bls. 4) Ludwig van Beethoven (1770–1827) er eitt vinsælasta og þekktasta tónskáld á Vesturlöndum. Hann fæddist í Bonn, einu af smáríkjunum sem seinna áttu eftir að mynda Þýskaland. Tónlistarhæfileikar hans komu fljótlega í ljós og fyrsti tónlistarkennarinn var faðir hans. Beethoven unni náttúrunni, fór oft í gönguferðir og fékk innblástur úr hljóðheimi umhverfisins. Meðal hans þekktustu verka eru Tunglskinssónatan, annar kafli píanósónötu No. 8 í c-moll-Pathétique, Bagatella No. 25 í a-moll, betur þekkt sem Für Elise og sinfóníur nr. 5, 6 og tímamótaverkið nr. 9 – Til gleðinnar. Í verkefni um Tunglskinssónötu er unnið að því að virkja hlustun og hlusta eftir blæbrigðum tónlistar. Í nemendahefti fylgja nótur að Til gleðinnar og þar er unnið með synkópu í léttu klappi.
6 Hlustum saman (Nemendabók bls. 6) Myndmenntakennarar vinna úr því sem augað nemur. „Alls staðar í umhverfi okkar er sjónrænt áreiti sem mikilvægt er fyrir nemendur okkar að læra að lesa og greina“. Aðalnámskrá grunnskóla 2013, bls. 148. Á sama hátt þurfa tónmenntakennarar að vinna út frá hljóðheiminum. Í daglegu umhverfi okkar eru mörg hljóð og skemmtilegir hljóðgjafar, allt eftir því hvar við erum stödd. Það umhverfi sem nemendur dvelja hvað mest í er heima, í skólanum og hugsanlega við íþrótta- og tómstundastarf. Gaman er að velta fyrir sér með nemendum hvað við erum að hlusta á allan daginn og hvort við tökum eftir því. Hér leggjum við áherslu á virka hlustun og að taka eftir því hvað er í kringum okkur. Byrjið að vinna út frá þögninni. Börnin setjast í hring, loka augum og reyna að skynja þögnina. Staldrið við og gefið þeim tíma til að einbeita sér og virkja hlustunina. Spyrjið: Hvaða hljóð heyrið þið? Heyrist eitthvert hljóð inni í stofunni? Heyrast einhver hljóð annars staðar úr skólanum? Heyrist eitthvað fyrir utan skólann? Hið greinandi ferli, sem farið er í gang, gefur hávaðanum í umhverfinu merkingu. Ræðið um allt sem heyrist þá stundina. Hljóðbylgjan: Hljóðbylgjur eru ósýnilegur titringur í loftinu. Þegar við sláum á trommu setjum við af stað bylgju sem berst inn í eyru okkar. Til að finna titringinn á áþreifanlegan hátt má stinga hendinni inn í djúpa trommu og biðja félaga sinn eða kennara að slá á. Hermileikur: Allir viðstaddir sitja saman í hring, tilbúnir að herma eftir tónsköpun kennarans. Hann býr til hljóð- og hryndæmi með röddinni, nýr saman höndum, klappar hrynmunstur, smellir fingrum, notar búkslátt o.s.frv. Nemendur gera sitt besta, hlusta af athygli og líkja eftir kennaranum. Hann hvetur þá til að vanda sig og vera samtaka. Hryndæmi fyrir hermileik: Hlustunar- og hermileik má yfirfæra yfir á hljóðfæri eða sérvalin hrynmunstur til þjálfunar, söng og texta til lærdóms. Einnig til að þjálfa hlustun, einbeitingu og fleira. Verkefni (Nemendabók bls. 6) Nemendur bæta við þeim hljóðgjöfum sem vantar á myndina, t.d. klukku, tölvu, stafspilum, ýmsum hljóðfærum o.fl.
7 3 Skrefinu lengra Dæmi um úrvinnslu með hryn: Hér má nýta stöðvavinnu, spilahring og samspil. Stöðvavinna getur verið 2–4 hrynstöðvar eftir aðstæðum með völdum hljóðfærum. Nemendur dreifast jafnt á hrynstöðvarnar. • Hver hrynstöð hlustar á púlsslag kennara og spilar hryndæmi í tvo takta fyrir aðra nemendur. Endurtakið eftir þörfum. Hafið í huga að spila á þeim hraða sem viðkomandi nemendahópur ræður vel við. • Spilahringur fer í gang. Hrynstöð 1 spilar tvo takta eftir púlsslagi kennara. Hrynstöð 2 tekur við í tvo takta og svo koll af kolli. Gott er að byrja með tvær hrynstöðvar í einu og bæta síðan þriðju og fjórðu við eftir aðstæðum. • Samspil: Kennari er hljómsveitarstjórinn, slær púls, setur inn fyrstu hrynstöð og gefur merki um að halda áfram. Kennari setur inn næstu hrynstöð og svo koll af kolli. Stöðvar hljóðfæraleik, telur tvo takta og setur allar hrynstöðvar inn aftur. Endurtakið eftir þörfum. • Þegar samspili með tvö eða fleiri hryndæmi hefur verið náð má leika sér enn frekar. – Sóló/tutti – Nemendur skiptast á að vera hljómsveitarstjórinn. – Hver hrynstöð semur eigið hrynstef sem notað er sem millistef. • Hljóðritið samspil og hlustið. Gaman er að leyfa nemendum að fara í hlutverk upptökustjóra. Ég heyri svo vel (Nemendabók bls. 7) Nemendur syngja saman lagið Ég heyri svo vel (sjá Söngvasafn II bls. 58). Ræða saman um hljóð og umhverfi til að opna eyrun fyrir umhverfishljóðum a) í skólanum b) heima c) úti í náttúrunni d) í veðrinu Eftirfarandi tónverk sem lýsa vel ýmiss konar umhverfi má t.d. finna á YouTube. Leitarorð: Beethoven Pastoral symphony – 1st and 4th movement Grieg Peer Gynt suite no.1 Moldau – Smetana
8 Á leið í skólann (Nemendabók bls. 8) Nemendur syngja lag og texta með hreyfingum og leikrænum tilþrifum. Í rauðum, gulum og grænum ljósum eru notuð merki úr táknmáli. Ræðið við nemendur um það hverjir kunna að fara yfir götu. Það þarf að stoppa, líta til beggja hliða og hlusta. Hverjir kunna á umferðarljós á gangbrautum? Það þarf að ýta á takkann, driiing … og bíða eftir að græni karlinn birtist en líka að muna eftir að horfa til beggja hliða og hlusta. Nemendur lita umferðarljósin í réttum litum eftir umræður. Hljóðin heima (Nemendabók bls. 10) Hér er unnið með hlustun og reynt að þekkja heimilishljóðin. Nemendur númera myndir í samræmi við þá röð hljóða sem kennarinn spilar. Verkefnið er hugsað sem framhald af umræðunni um umhverfishljóð. Í aðdraganda þess er ekki úr vegi að fara með nemendur í stutta vettvangsferð til að kanna hljóðheiminn. Heyrist það sama innandyra og utanhúss? Kennarar eru hvattir til að fara nokkrum sinnum í slíkar rannsóknarferðir og skrá hjá sér það sem helst vekur athygli barnanna. Athugið þó að þetta verkefni er einstaklingsmiðað og snýst um umhverfishljóð heima hjá hverjum og einum. Hljóðhúsið á bls. 10 í þessari bók: Stækkið og fjölfaldið teikninguna eftir þörfum. Nemendur klippa húsið út eftir heilu línunum en brjóta það saman eftir brotnu línunum. Þá minnir það á gamla altaristöflu sem hægt er að loka að framanverðu. Á utanvert húsið eiga börnin að teikna og lita myndir af því sem þau heyra utanhúss, fuglum, bílum, fólki, dýrum og jafnvel gróðri. Innan í húsið á að gera myndir af því sem heyrist innandyra. 13–18 10–12
9 Á leið í skólann Lag og texti: Þórdís Sævarsdóttir
10
11 Búsáhaldastomp (Nemendabók bls. 10) Hrynur: Nemendur búa til eigin hryn með því að velja sér lengdargildi/ tákn úr trénu og raða saman í hrynboxið. Hver og einn æfir sig að klappa eigið hryndæmi og flytur fyrir samnemendur. Einnig má vinna þetta verkefni í hópum og æfa og leika hryndæmi fyrir aðra hópa. Vinnið með hryndæmi í þessari röð: Orð, búksláttur, hljóðgjafar. Vinna má með samspil í hverju tilfelli til frekari þjálfunar. Einnig má hér nýta hrynvinnslu og spilahring. Ef til vill geta nemendur fundið skemmtilega hljóðgjafa heima. Gaman er að semja eigin hryn og gera eigin útfærslur. Leitarorð: Stomp out loud – Kitchen/brooms John Cage – Kitchen sounds Nótnatré (Nemendabók bls. 11) Lengdargildin Ta-a-a-a, Ta-a, Ta og Ti-ti koma alltaf við sögu. Hér leggjum við áherslu á Ta-a, Ta og Ti-ti og einnig má rifja upp heilnótuna Ta-a-a-a þegar við á. Nótnatré: Nemendur velja einn lit fyrir hvert lengdargildi og lita í kassana. Þeir lita svo laufblöðin með réttum litum í trénu. Í lokin má setja sig í spor listamanns og klára að lita tréð fallega hvort sem er með náttúrulegum lit eða öðrum til skemmtilegrar tilbreytingar. Ta-a-a-a Letinóta Ti-ti Hlaupanóta Ta Göngunóta Ta-a Hvíldarnóta
12 Lestarleikur (Nemendabók bls. 12) Lestin er skemmtilegur leikur til að virkja hlustun, ganga í takt og vinna með mismunandi hraða og styrkleika. Lestin er einnig góður leikur til að safna nemendum saman á einn stað og beina inn í næsta verkefni eða vinnustöð. Gott er að hafa hristur og lestarflautu við höndina. Kennari er lestarstjóri, lyftir hægri hendi, þykist toga í lestarflautuna og syngur tjú, tjú! Þar með fer lestin af stað. Syngið lagið og gangið í takt við hryn. Stöðvið lestina fyrir framan nemendur í takti 7. Nemendur hoppa um borð í aukatakti. Haldið svo af stað í samræmi við texta og endurtakið lagið til að bjóða næsta nemendahópi með. Þegar allir eru komnir um borð má vinna með hraða og styrkleika. Kennari stjórnar hraða t.d. með hristunni, byrjar á að taka eitt stakt skref sem allir líkja vandlega eftir. Hann fylgist með að allir vandi sig og taki vel eftir, fer svo yfir í hæg taktföst skref. Nemendur hlusta vandlega og fylgja vel eftir. Kennari getur nú aukið hraðann (accelerando) eða hægt á honum (ritardando) til skiptis að vild. Hann togar í lestarflautuna til að stoppa og byrja á nýju munstri og aftur þegar fara á af stað, ýmist hægt (adagio), í gönguhraða (andante) eða hratt (allegro). Sömu aðferð má nota fyrir styrkleika (p, mf, f, ff, crs, og dim). Að lokum fer lestin á þá endastöð sem kennari hefur valið og þá má nota síðara erindi lagsins. Það getur verið í hring á gólfinu, við hljóðfæri, í röð við dyr í lok tíma, allt eftir því hvaða verkefni tekur við næst. Skrefinu lengra Samspil: Nýtið þrástef með laginu eftir nótum. Ýmist má nota eitt þrástef, t.d. allir æfa púlsslag með lagi, tvö eða öll. Einnig má búa til eigin hrynstef.
13 Lag og texti: Þórdís Sævarsdóttir Lestin kemur, lestin fer
14 Hristur (Nemendabók bls. 14) Hristur eru til í ótal gerðum og eiga djúpar rætur í menningu ýmissa samfélaga. Þekkt dæmi er hristuleikur Indíána. Indíánar sungu með þær, dönsuðu og sögðu sögur, t.d. með því að festa hristurnar á fætur sér. Þeir sungu til anda sólarföðurins, tunglkonunnar, regns, dýra og náttúru. Nemendur búa til eigin hristur. Setjið hvern hljóðgjafa í ílát sem hljóðdæmi og leyfið nemendum að heyra og velta fyrir sér. Hvaða hljóð eru t.d. harðari eða mýkri en önnur? Hversu mikið á að setja í hristuna til að fá sem fallegast hljóð? Má blanda þeim saman? Gaman er að nýta eigin hugmyndir og útfærslur. Í hristugerð nýtum við t.d. jógurt- eða skyrbox og plastflöskur. Nemendur geta skipst á hristum og hlustað eftir ólíkum hljóðum. Ekpiri hristur: • 10 bönd (um 20 cm) • Hnetuskurn af 20 hnetum (stórir helmingar gefa hljómmeiri hristu) • Búið til gat á miðjan hnetuskurnshelming með litlum nagla og hamri. Þræðið einn helming á hvorn enda bandsins og bindið góðan hnút, til að hnetuskurn detti ekki af. • Endurtakið við hvert band. Leggið böndin með hnetunum saman og sléttið úr. Skiptið síðan í þrjá hluta. Fléttið þrjá bandhlutana saman þannig að úr verði ein stór flétta í miðju bandanna. Leggið saman hvorn enda fléttunnar, þannig að hneturnar sameinist í einum vöndli. Vefjið bandi um fléttuendana og bindið þéttan hnút. Spilið, syngið og dansið. Góða skemmtun. Leitarorð: „Ekpiri hrista“
15 Heima – fara í heimsókn (Nemendabók bls. 15) Þetta er skemmtilegur leikur til að þjálfa púls og samhæfingu. Kennari stýrir leiknum. Nemendur sitja í hring. Gaman er að nýta lestarleik bls. 12) til að mynda hring á gólfi. Kennari fer hér yfir hugtökin vinstri og hægri og að lokum enda allir með vinstri hönd upprétta. Inngangur leiks felst í gröfu- og byggingarleik. Innlögn: Vinstri hönd (sem er upprétt) breytist í gröfuarm og lófi í skóflu. Gröfuarmur lætur skóflu síga niður (frá olnboga) snýr lófa svo upp og límir vinstra handarbak á vinstra hné. Hægri höndin kemur keyrandi á steypubíl, bakkar að vinstri lófa og sturtar þar byggingarleir og keyrir svo á braut. Nemendur móta eigið hús úr leirnum í vinstri lófa. Þegar húsið er tilbúið labbar hægri höndin upp á vinstri öxl, rennir sér niður í húsið og fer að sofa. (Það heyrast hrotur). Gling gló … hringir klukkan; allir vakna, klæða sig og gera morgunverk sem kennari velur þar til allir eru tilbúnir. Þá ganga allir með hægri hendi í heimsókn yfir í næsta hús á hægri hönd. Kennari leiðir áfram í næstu skrefum. Fylgist með að allir fari í rétta átt og ítrekið að allir séu samtaka. 1. Bank, bank, bank. Er einhver heima? Allir hlusta vel. Nei! Enginn heima. Gangið með hægri hendi til baka í eigið hús og allir segja: Heim. 2. Prufið nýja aðferð. Hlaupið núna yfir í hús manneskju á hægri hönd og segið: Heimsókn. Allir banka og hlusta vel. Nei! Enginn heima. Hlaupið til baka og segið: Heim. Prufið eins margar aðferðir og þið viljið, t.d. hjóla, synda, njósna eða annað sem kennara eða nemendum dettur í hug. 3. Þegar nemendur hafa náð tökum á samtaka hreyfingum má enda á að allir taka trampólín út í garðinn sinn, hoppa á því nokkrum sinnum og fara svo yfir í heimsókn í næsta hús á hægri hönd að fordæmi kennara. Þegar enginn svarar bankinu fá þeir trampólínið í næsta garði lánað og hoppa aftur heim. Þar með er hoppað í stöðugum púlstakti á milli húsa að fordæmi kennara og allir segja í kór: Heima (í eigin húsi) fara´ í heimsókn (í húsi manneskju á hægri hönd). Heima fara´ í heimsókn o.s.frv.
16 Þegar stöðugum og samtaka púlstakti er náð má syngja með ýmis lög. Dæmi um söngva: Göngum, göngum, Fljúga hvítu fiðrildin og aðrar vísur við sama lag (Söngvasafn 1, bls 29), Vikudagarnir og mánuðurnir, A,B,C,D, Fingraþula, „O mane, mane“ eða önnur lög sem kennari vill vinna með. 4. Nemendur syngja lagið Heim og svo í heimsókn – Hlustunardæmi 22 og vinna púlsverkefnið (Nem. bls. 15). Skrefinu lengra Dótakassi. Hér þarf að eiga kassa, eins konar fjársjóðskistu með smáhlutum í, frá kennara eða nemendum sjálfum. Ýmsar Lego-fígúrur, plastdýr eða annað skemmtilegt hentar vel. 1. Kennari sendir af stað fígúru eða hlut. Þegar er sagt heim má hægri hönd taka hlut upp í eigin húsi. Þegar sagt er heimsókn má hægri hönd flytja hlut yfir í næsta hús á hægri hönd. Kennari stýrir hraða og magni, hvort er hlutur í hvert skipti, annað hvert, þriðja hvert … Mikilvægt er að allir séu samtaka, hvorki á undan eða eftir og fari í rétta átt. 2. Gott er að byrja með eina fígúru/hlut sem gengur í einn hring á meðan þátttakendur læra vinnubrögðin. Síðan má bæta við númer 2, 3, 4 ... og svo koll af kolli þar til hlutir eru jafnmargir þátttakendum. 3. Þegar nemendur hafa náð góðum tökum á púlsi og hreyfingum má senda eggjahristur eða aðra hljóðgjafa í stað hluta og fá undirspil. Fagur fiskur í sjó – púls (Nemendabók bls. 16) Hljóð eru mismunandi löng. Tónlengd er einn af frumþáttum tónlistar. Nánar tiltekið púls, hraði, hrynur, áhersla, taktur, taktskipti eða fjöltaktur. Púls er orð sem notað er um grunnslag tónlistar. Nauðsynlegt er að vinna markvisst og reglulega með púls í fyrstu árgöngum grunnskólans, burtséð frá öðrum viðfangsefnum. Púls má þjálfa á ýmsan hátt, m.a. með hreyfingu, lófaklappi og hljóðfæraleik. Misjafnt er eftir nemendahópum hversu langan tíma það tekur að fá alla til að fylgja sama púlsinum. Góður árangur næst á löngum tíma með endurtekningu.
17 Púlsæfingar Gangið í takt eftir púlsi tónlistar, klappið eða leikið púls á hljóðfæri við algeng lög: T.d. gömlu, góðu lögin Göngum upp í gilið, Veistu að ég á lítinn dreng, Vér göngum svo léttir í lundu. Leikið einnig tónverk af geisladiskum eða úr tölvu. Gangið um leið í takt eða leikið púls á hljóðfæri: Radetsky-marsinn eftir Jóhann Strauss eldri er hraður og hentar vel litlum fótum. Öxar við ána eftir Helga Helgason er íslenskt lag sem stundum getur verið viðeigandi. The Stars and Stripes Forever eftir Sousa er mikilfenglegur göngumars. Tre små trumslagarpojkar eftir Nils Söderström er með inngangi og millikafla sem leikinn er á trommur. Gamlir leikir s.s. Fagur fiskur í sjó, Stígur hann við stokkinn og Kráka sat á kvisti eru einnig prýðilegir til púlsþjálfunar. Hér er um gamla leiki að ræða og því viðeigandi að þeim fylgi upprunalegar leiklýsingar. Kennarar eru hvattir til að kynna sér frumheimildir. Sennilega finnst þar eitt og annað sem fólk getur notfært sér. Vísur við að stíga Stígur hún við stokkinn, stuttan á hún sokkinn, ljósan ber hún lokkinn, litli stelpuhnokkinn. Stígur hann við stokkinn, stuttan á hann sokkinn, ljósan ber hann lokkinn, litli strákahnokkinn. Vel stígur Lalli við hana Dísu, hann gefur henni smáfisk, silung og ýsu, hann gefur henni hákarlssneið skorna ofan úr hjalli, vel stígur Lalli með kálfskinnskó á palli. 25–31 32
18 Að stíga Enn þá tíðkast að láta börn stíga. Þá situr einhver og heldur um hendur barnsins sem það réttir fram; barnið stendur nokkuð gleitt á gólfinu fyrir framan hann og vaggar sér til hliðanna og stígur á víxl af öðrum fætinum á hinn eftir hljóðfalli einhverra kviðlinga sem hinn fullorðni raular á meðan; barnið lyftir fótunum án þess að beygja hnén, og hinn fullorðni hreyfir sig ekki meira en þarf til að vagga barninu. Jón Samsonarson: Kvæði og dansleikir I. Hér nægir að láta börnin standa á fætur, grípa um borðbrún eða stólbak, fara með vísurnar og stíga samkvæmt lýsingunni. Einnig má skipta þeim í tvo hópa, til dæmis drengi og stelpur. Þá geta stelpurnar setið á borðunum, haldið um hendur drengjanna og farið með vísuna „Stígur hann við stokkinn …“ Síðan má hafa hlutverkaskipti. Drengirnir segja í því tilfelli: „Stígur hún við stokkinn … “ Fagur fiskur í sjó – leiklýsing (Nemendabók bls. 16) Tveir taka þátt í gamni þessu. Annar tekur í höndina á hinum og leggur hana flata í lófa sinn, þannig að lófinn á henni snýr upp, þó láta sumir handarbakið snúa upp. Því næst strýkur hann fram lófann með hinni hendinni, hægt og hægt og hefir um leið yfir formála þennan. En í því hann sleppir seinasta orðinu kippir hinn hendinni að sér og þykist hróðugur ef hann sleppur við höggið. Íslenskar skemmtanir, vikivakar og leikir eftir Ólaf Davíðsson. Börnin vinna tvö og tvö saman og skiptast á að strjúka lófa eða handarbak hvort annars um leið og farið er með þuluna.
19 Púlsþjálfun með hljóðfærum og hreyfingu Flestum þykir gaman að fá hljóðfæri í hendur. Hrynhljóðfæri, þ.e. hljóðfæri sem ekki gefa frá sér ákveðinn tón, henta yfirleitt vel til púlsþjálfunar. Í fjölmennum nemendahópi getur hávaðinn af slíku verið nokkur. Eins getur verið erfitt að láta hvern og einn hafa hentugt hljóðfæri. Þá fer vel á því að láta hálfan bekkinn leika á hljóðfæri á meðan hinn helmingurinn hreyfir sig. Hafa svo hlutverkaskipti. Eins má skipta bekknum í enn fleiri hópa og hafa þá nokkrar tegundir hljóðfæra í boði, eina fyrir hvern hóp. Önnur hugmynd: Kennari tekur sér trommu í hönd. Börnin ganga í takt við trommuleik hans. Þau ganga eðlilega og kynna sér rýmið sem þau hafa til umráða. Þegar allir eru farnir að ganga í takt, bregður kennarinn á leik. Biður börnin t.d. að ganga eins og gengið sé á ís, yfir heitt hraun, yfir glerbrot, innan um kaktusa, útskeif eða innskeif, eins og að vaða á, eins og þau séu með krukku á höfðinu. Þannig má halda áfram. Enn ein hugmynd: Börnin ganga í takt við tónlist, t.d. Radetzky- marsinn eða göngulög á geisladisknum. Þegar tónlistin þagnar frjósa allir. Næst biður kennari nemendur um að standa allir saman á einhverjum sérstökum stað. Síðan nefnir hann nafn einhvers og biður hann að ganga af stað í takt við tónlistina. Um leið og tónlistin þagnar frýs nemandinn þar sem hann er staddur. Þá nefnir kennarinn nafn annars nemanda og á hann þá að fara af stað í áttina að hinum. Þegar tónlistin þagnar nemur hann staðar. Þá kemur sá þriðji og þannig koll af kolli. Að lokum verður til ek. myndastytta af öllum hópnum. Því næst bendir kennarinn á hvern og einn og segir t.d. gulur, rauður, grænn og blár. Heldur síðan áfram að leika ofangreinda göngutónlist og bregður einhverjum þessara lita á loft (notar t.d. töflutússpenna). Ef hann lyftir gula pennanum eiga þeir sem eru gulir að hreyfa sig og svo framvegis. Þannig tekur myndastyttan stöðugum breytingum. Eins má hugsa sér að láta einhvern nemanda fá pennana og taka við stjórn.
20 Spilað eftir spjöldum Þessi leikur nýtist til að virkja hlustun og athygli, sem púlsþjálfun, hljóðfærakynning, jafnvel hrynþjálfun og einnig sem stjórnendaleikur. Skiptið nemendum í nokkra hópa. Hver hópur fær eina gerð hljóðfæris, t.d. stafi, hristur, þríhorn, handtrommur eða tambórínur. Kennari hefur hjá sér spjöld með myndum af hverju hljóðfæri sem notað er, setur taktvisst lag á fóninn og nemendur hlusta vel eftir púlstakti. Kennari lyftir einu spjaldinu á loft, t.d. með mynd af trommu, og þá spila þeir sem hafa trommur góðan púls með tónlistinni. Þegar kennari leggur niður trommuspjaldið þagna trommurnar. Hann lyftir svo næsta hljóðfæraspjaldi, t.d. þríhorni og viðkomandi nemendur taka þá við að spila og svo koll af kolli. Kennari má lyfta tveimur eða fleiri spjöldum í einu, setja stundum öll niður og hafa þögn, æfa hraðaskiptingar o.s.frv. Nemendur fylgjast vel með spjöldunum og vanda sig við að spila og stoppa á réttum stöðum. Gætið þess að nemendur hlusti eftir púlsslagi og vandi sig að spila í takt við tónlistina. Ítrekið nauðsyn þess að hlusta og reyna að spila saman eins og ein manneskja. Nú mega nemendur spreyta sig á að stjórna með spjöldunum. Hópar geta skipt um stað og hljóðfæri til hljóðfærakynningar og tilbreytingar. Leitarorð: • Lína langsokkur • Lagið um það sem er bannað • Öxar við ána • Íslensk barnalög
21 Blöðruleikur Skemmtilegur leikur til að vinna með virka hlustun, púls og kaflaskipti. Hér þarf 1–4 uppblásnar blöðrur eða fleiri eftir fjölda þátttakenda. Krakkar sitja í hring nema þrír sem halda blöðrum á lofti dansandi. Sem tákn um þögn setja þeir tvo fingur á höfuð sér líkt og geimvera með fálmara út í loftið. Nemendur láta svo fingurna síga og halda þeim fyrir framan sig. Gaman er að nota lestarleikinn til að leiða nemendur í hring. Einnig má athuga hvort hægt er að setjast án þess að nota hendur. 1. Blaðra 1: Kennari réttir einum nemanda blöðru (með tveim fingrum) og segir: „Búmm!“ Nemandi lætur blöðruna ganga með því að segja búmm! þar til blaðran er komin í einn hring og allir hafa prufað. Sendið blöðruna annan hring og allir segja saman búmm! í stöðugum púlstakti. 2. Blaðra 2: Kennari bætir við annarri blöðru. Blöðrurnar ganga annan hring við stöðugan búmmtakt. 3. Stopp-kaflinn: Kennari bætir við leikskipun: „Ssshh!“ sem þýðir að allir stansa. Síðan fara blöðrur og búmm aftur af stað í stöðugum púlstakti. 4. Hraður kafli: Blöðrur ganga áfram í hring eftir púlstakti og nemendur stansa þegar kennari gefur Ssshh-merkið. Kennari bætir við hraðari kafla með klappi sem þýðir að þeir nemendur sem hafa blöðrur í höndum standa upp og dansa í takt við hljómfallið og halda blöðrum á lofti. Um leið og klappkafla lýkur setjast dansarar og eru tilbúnir í púlskaflann. Gott er að reyna að skiptast á með blöðrurnar þannig að allir fái að prufa að dansa. Trommu-undirleikur er skemmtilegur fyrir púlstakt og hraðari kafla. Einnig má láta eggjahristur ganga á milli og dansarar slá hristutakt við hraðari danskaflann. 5. Spilið lagið við leikinn og þátttakendur fylgja púlskafla, stoppum og hraðari dansköflum með virkri tónlistarhlustun. 6. Nýtið leikinn við fleiri lög sem henta. 33
22 Orðaklapp (Nemendabók bls. 16) Orðaklapp er leikur til að vinna með atkvæði orða. Það gagnast því t.d. vel í hrynvinnu og ljóðagerð. Orð gefa tóninn um hrynmyndun og eru því góð leið til að leggja inn hryn. Þar má nýta kennsluleiðina: orð (segja orð) – klapp (klappa atkvæði) – ásláttur (færa yfir á hljóðfæri), sem einnig má útfæra í heilum setningum. Þessi aðferð getur nýst vel í undirbúning ýmissa samspilsverkefna. Með orðaklappi þjálfa nemendur sig í að þekkja atkvæði. Veðurhljóð (Nemendabók bls. 18–21) Veðurhljóð eru hluti af umhverfinu og tilvalin viðfangsefni til sköpunar. Þau má framkalla á ýmsa vegu, t.d. með fingrum, höndum, fótum, tungu, rödd, hljóðfærum eða óhefðbundnum hljóðgjöfum. Hvernig hljómar vindurinn eða rigningin? Heyrist eitthvað í öllum tegundum veðurs? Heyrist t.d. eitthvað í snjó sem fellur? Hægt er að yfirfæra hið sjónræna yfir í hljóð og tóna. Sólin er björt. Bjartir tónar geta táknað sólskin. Líkið eftir veðrinu með hljóðgjöfum og hljóðfærum. Notið slík áhrifahljóð sem undirleik með lögunum hér fyrir aftan. Spyrjið börnin hvort hægt sé að leika vindinn, regnið, sólina eða snjóinn með hreyfingu. Veðrinu fylgir einnig hreyfing, t.d. þegar vindurinn blæs og regnið fellur. Dæmi um skemmtileg lög: Leitarorð: • Skýin Spilverk þjóðanna • Weather music, rain and thunderstorm • Beethoven, pastoral symphony, 4th movement • Vivaldi – storm
23 Veðrasinfónía (Nemendabók bls. 18) Þessi hljóðdæmi má nýta sem innblástur í innlögn ásamt leitarorðum. Upphitunaræfing: Nemendur gera bylgju með höndunum, möguleikar; frá hægri til vinstri, svo öfuga leið, svo frá miðju og út til enda, frá báðum endum inn að miðju. Gera sömu bylgjuæfingar með öllum líkamanum með því að sitja á hækjum sér og standa upp með hendur á loft. Nemendur stilla sér upp hlið við hlið í raðir, sem raðast hver fyrir aftan aðra. Veðrasinfónía byrjar í öðrum enda og hljóðið bætist við í bylgju út að hinum enda raðarinnar. Í næsta hring tekur við annað veðurhljóð sem byrjar sömu megin og áður og berst í bylgju að næsta enda og svo koll af kolli þar til kemur að þrumunum (hoppunum). Bæði má útfæra veðrasinfóníu þannig að hvert hljóð bætist við það hljóð sem áður er og auki þannig styrkleika jafnt og þétt eða að hvert nýtt hljóð taki við af því hljóði sem áður var. Vindur: Vindhljóð með munni; ssshhhzzzhhhhzzz og núa saman höndum. Dropar: Fingrasmell; smellið fingrum eða smellið tveimur fingrum á lófa. Rigning: Slá með höndum á lær, með vaxandi styrk. Þrumur: Hopp tveggja hópa í keðju. Fyrst hópur 1, svo hópur 2 strax á eftir. Hljóðfæri sem tilvalið er að nota: Regnstafur, vindpípur, skröltormur (vibraslap), slanga sem snýst. Þrumutromma (spring drum). Nemendur semja sína eigin veðrasinfóníu Leitarorð; Rain: Silent Rain Symphony live 34, 35
24 Hvínandi vindur Hluti barnanna hleypur um gólfið og leikur vindinn. Önnur syngja og leika t.d. blóm eða tré sem bærast í vindinum. Þriðji hópurinn býr til veðurhljóð. Stundum nægir að syngja lagið og líkja eftir vindinum á meðan kennarinn leikur forspil, millispil eða eftirspil. Hvínandi, hvínandi vindur, hvarf frá mér á brott en kom mér til að hlæja og mikið var það gott. Hvínandi, hvínandi vindur, hvar ert þú í dag? Kannski á bak við fjöllin að syngja þetta lag? Hvínandi, hvínandi vindur, kætir mína lund og kann svo marga leiki sem taka stutta stund. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson 43
25 Í rigningu ég syng Í rigningu ég syng, í rigningu ég syng. Þetta´ er dásamlegt veður, mér líður svo vel. Forsöngvari: arma út. Nemendur herma: arma út. I: Atjutjuja atjutjutja atjutjutja :I (dillið ykkur og sveiflið höndum í góðum takti) Endurtakið og bætið við hreyfiskipun í hvert skipti. Einnig má bæta við eða breyta hreyfiskipun eftir stemmningu. Ókunnur höfundur Nacio Herb Brown 1. K: arma fram N: arma fram 2. K: arma að N: arma að 3. K: beygja hné N: beygja hné 4. K: inn með tær N: inn með tær 5. K: hakan upp N: hakan upp 6. K: rassinn út N: rassinn út 7. K: tungan út N: tungan út
26 Droparnir Standið í hring. Hafið hringinn eins lítinn og hægt er. Smellið tungu í góm við hvert „dl“ í textanum. Leikið dropa sem stinga sér á kaf. Við það stækkar hringurinn og verður að stóru hafi! Fylgið að öðru leyti textanum með frjálsu látbragði. Sjá einnig: Trommur og töfrateppi, tónlistarnámsefni fyrir börn eftir Soffíu Vagnsdóttur (2014). Regndropar lenda á ýmsum stöðum og gefa frá sér ólík hljóð eftir því hvar þeir lenda. Ræðið málið. Hvernig má framkalla ólík hljóð í dropum? Í framhaldi af þessu lagi má syngja ýmis þekkt lög og kviðlinga: Nú er úti norðanvindur. En það sólskin um mýrar og móa (Söngvasafn II bls. 65). Með vindinum þjóta skúraský (Söngvasafn I bls. 13). Dl, dl, dl, segja droparnir við pollinn … segja droparnir við pollinn. Og þeir stinga sér á kaf og breyta pollinum í haf! Dl, dl, dl, segja droparnir við grasið … segja droparnir við grasið. Og það vex svo gjöfult og grænt og gerir landið okkar vænt. Dl, dl, dl, segja droparnir við blómið … segja droparnir við blómið. Og það breiðir blöðin sín og brosir blíðlega til mín. Dl, dl, dl, segja droparnir við gluggann … segja droparnir við gluggann. Inni sit ég, horfi‘ á þá, renna niður eins og á. Dl, dl, dl, segja droparnir við bálið … segja droparnir við bálið. Og það slokknar smátt og smátt og missir brátt sinn mikla mátt. Droparnir Soffía Vagnsdóttir 7
27 Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson Drippedí-dripp, droppedí-dropp 44
28 Skrefinu lengra: Samspil Skiptið nemendum í tvo hópa; H-1 og H-2. Farið með texta eins og þulu, hvor hópur með sinn texta. Bætið viðeigandi hljóðfærum inn í ef vill (t.d. H-1: hristur, regnstafur. H-2: þrumutromma, hrossabrestur). Allir syngja viðlagið eða þriðji hópur, þá H-3. Bætið við hljóðfærum. Stormastuð Þórdís Sævarsdóttir John Höybye
29 Þekktu hljóðfærin (Nemendabók bls. 19) Nemendur hlusta á kennarann leika á hljóðfærin í skólastofunni og merkja með réttum númerum eftir þeirri röð sem spilað er í. Leikjasöngvar Í leikjum leggja börn fram krafta sína af fullri alvöru. Í söngleikjum (leikjasöngvum) er oft innbyggð víxlverkan milli þess að vera foringi og sá sem fylgir foringjanum. Leikurinn og söngurinn auðvelda hverjum og einum að taka þátt. Hópurinn lýtur forystu þess sem „er hann“ hverju sinni. En við hverja endurtekningu tekur nýtt barn við forystunni. Sjálfur leikurinn rammar inn samveruna. Sem dæmi um söngleiki (leikjasöngva) má nefna Inn og út um gluggann, Ein ég sit og sauma, Að finna hringinn og fleira (sjá Söngvasafn 1 fyrir yngsta stig bls. 9–22). Þarna lúta leikirnir eigin reglum. Eins má vinna á skapandi hátt í frjálsu flæði. Í náttúru Íslands eru margar skemmtilegar verur á sveimi, álfar og tröll. Hvernig hreyfa t.d. tröllabörnin sig? Getið þið búið til skóg í skólastofunni? Hvernig líta trén út? Á sama hátt má vinna með hvaða sögusvið sem er. T.d. nærumhverfið, umferðar- götu, farþega í strætisvagni, dýragarð, skólalóðina, ævintýraland. Leyfið börnunum að fara í gegnum alls konar skapandi ferli. Það er upplifunin sjálf sem mestu máli skiptir.
30 Hérna koma nokkur risatröll, HÓ! HÓ! (Hnefar á loft í Hó hó.) Þau öskra svo það bergmálar um fjöll. HÓ! HÓ! (Hnefar á loft í Hó hó.) Þau þramma yfir þúfurnar (þrammið tvö skref í takt við lag) svo fljúga burtu dúfurnar. (Hægri hönd líkir eftir dúfu sem hefur sig til flugs.) En bak við ský er sólin hlý í leyni, (hönd á enni og skimað eftir sólinni) hún skín á tröll þá verða þau að steini. (Allir frjósa í tröllastellingu.) S-Á-M-U-R Nemendur standa andspænis hver öðrum í pörum í hring. Þeir sem eru með bakið inn í hringinn eru „styttur“ sem þýðir að þeir færast ekki úr stað. Þeir sem snúa baki út úr hringnum munu færast úr stað. Í klappinu S-Á-M-U-R þýðir e: einstaklingur og s: félagar saman í pari. Tröllalagið Leiklýsing eftir Soffíu Vagnsdóttur. Soffía Vagnsdóttir
31 Sámur „Á tröppunum hann seppi sat, með svartan loðinn feldinn.“ (Gangið á staðnum.) „Hann meira' en aðrir geispað gat og gaufað fram á kveldin.“ (Gangið á staðnum.) S-Á-M-U-R x 3 (S-e: læri, Á-e: klapp, M-s: hægri-five, U-s: vinstri-five, R-s: báðar-five. „... gaufað fram á kveldin.“) Krækið saman örmum, gangið í einn hring og stoppið svo á sama stað. Sámur Bandarískt lag Guðmundur Guðbrandsson
32 S-Á-M-U- (s: Um leið og allir segja „S“ takast félagar í hendur og heilsast. Því næst standa styttur í innri hring kyrrar en hinar færa sig nú á vinstri hönd til næsta félaga. Nýir félagar takast í hendur um leið og segja „Á“ og svo koll af kolli við hvern staf þar til að lokum …) „Err!“ (s: Stubbaknús. Nýir félagar faðmast.) Allir eru nú komnir með nýjan félaga og þá er söngurinn endurtekinn frá byrjun. Skiptið um staðsetningu, innri hringur verður ytri og öfugt. Allir fá þá að færast úr stað. Einnig má skipta um átt og færa sig á hægri hönd. Leitarorð: Bingo from super simple songs (Má nota til upphitunar eða sem hugmynd um útfærslu.) Sterkt og veikt (Nemendabók bls. 20–21) Píanó tónmenntastofunnar hentar vel til kynningar á hugtökunum sterkt og veikt. Auðvelt er að nýta sér alþjóðlegt heiti hljóðfærisins í því skyni. Leikið á það sterka tóna (forte) og veika tóna (piano). Af þessum orðum dregur hljóðfærið nafn sitt: fortepiano. Ekki rugla þeim saman við hátt og lágt sem vísar til tónhæðar þegar rætt er um tónlist. Leyfið ímyndunarafli nemenda síðan að njóta sín á sviði umhverfishljóða. Nýtið ykkur hljóðfæri og hluti tónmenntastofunnar sem og líkama og raddir nemenda til að endurskapa sterk og veik hljóð úr umhverfinu. Breytingar á styrkleika Á geisladisknum, sem fylgir bókinni er hljóðdæmi með kappakstursbíl á fleygiferð. Leikið það um leið og farið er yfir kaflann um styrkleikabreytingar. Búið síðan til sambærileg dæmi með þátttöku nemenda. Látið t.d. hesta koma hlaupandi úr fjarlægð, nálgast, fara fram hjá og fjarlægjast aftur. Það má auðveldlega gera með lófaklappi. Verið ófeimin við að nota alþjóðlegu hugtökin crescendo og diminuendo svo nemendur heyri. 35 42
33 Nótnastrengur og G-lykill (Nemendabók bls. 22–23) Tónlistin á sitt eigið umhverfi sem byggist á nótum og öðrum skemmtilegum táknum. Nótnastrengurinn er hús nótnanna og G-lykillinn fer fyrstur eins og lykill að húsinu. Hér eru nemendur kynntir fyrir nótnastrengnum og uppbygginu hans út frá hendinni, 5 línur og 4 bil. Nemendur leggja vinstri hönd á blað og láta fingur nema við hverja línu, þumalfingur á neðstu og svo koll af kolli. Nemendur teikna síðan útlínur handa við enda nótnastrengs og leysa meðfylgjandi verkefni. Ef með þarf getur hópurinn fundið fyrsta táknið á nótnastrengnum, t.d. flugdrekann, saman og þá er eftirleikurinn einfaldari. Eftir að nemendur hafa æft sig að teikna G-lykilinn, má teikna hann inn í lófann á stóra nótnastrenginn. Einnig æfa nemendur að skrifa nótnahausa á bil og línur. Leikhljóð og tónlist Sagan um Momo býður upp á mörg tækifæri til tjáningar, leiks og sköpunar. Í hópi ungra skólabarna er best að kennarinn lesi söguna en börnin sjái um hina leikrænu útfærslu. Fyrst þarf að lesa söguna fyrir börnin, síðan að ræða efni hennar og hugmyndir um leikræna útfærslu. Sagan fjallar um japanska innflytjendur í New York. Hugsanlega má flytja verkið í tengslum við fjölmenningarlega hátíð. Komið af stað umræðum um leikhljóð í sögunni. Í hverju heyrist? Vindi, rigningu, fólki og farartækjum sem og börnum á leikvelli. Vindflautur, þrumutrommur (spring drums), regnstokkar o.fl. koma hér að góðum notum. Benda má á bókina Hljóðleikhúsið sem Námsgagnastofnun gaf út árið 2009. Sé farið lengra í áttina að listrænni útfærslu má hugsa sér fuglaflautur (vor boðann) í kaflanum Haru (vorið). Eins lítið lag fyrir sólargeislana í kaflanum Natsu (sumarið). Geislar sólarinnar eru bjartir. Ræðið um það hvaða hljóðfæri tónmenntastofunnar hafa bjarta tóna. Tilvalið er að semja „undursamlegt lag“ fyrir „hina dansandi regndropa“ og virðulegt göngulag Momo þegar hún „gengur fallega eins og fullorðin kona“. Er hægt að ljá uppfærslunni framandi blæ með að leika eitthvert lag eða brot úr lagi sem byggt er á pentatónískum skala, t.d. japanska lagið Sakura? (Lagið nefnist Floginn burt í Tónmennt 5. hefti frá árinu 1978 og er á bls. 183).
34 Sagan af Momo Sögusvið og leikendur a. Heimili Momo, mömmu hennar og pabba. Þar koma við sögu þrír leikendur. Það þarf að velja þá. b. Umferðargata með fólki og farartækjum. Persónur og leikendur ákvarðast af nemendafjölda. Hlustið á hugmyndir barnanna. Ef til vill er þarna kona að viðra hundinn sinn og pitsusendill á hraðferð. Hvaða farartæki eru á ferðinni? Leigubíll? Brunabíll? Lagt er til að kennari verði sér út um stóra innkaupapoka úr pappír. Síðan klippir hann göt fyrir höfuð og handleggi og notar pokana sem ek. vesti á nemendur. Hver nemandi getur málað og skreytt sinn poka þannig að hann líkist einhverju farartæki, t.d. rauðum brunabíl eða gulum leigubíl í New York. c. Regndropar. „Eins og örsmáar mannverur í dansi“, segir í sögunni. Hverjir vilja leika þá? Geta hinir sömu leikið börnin á leikvellinum sem aðeins einu sinni eru nefnd til sögunnar? d. Hægt er að hafa sérstaka hljómsveit sem sér um leikhljóð og tónlist. Sjá næsta lið. Eða sjá leikararnir um það? e. Einhverjir geta kynnt hvern kafla sögunnar (Haru, Natsu, Ame, Momo) með því að sýna áhorfendum spjald með heitum kaflanna ásamt tilheyrandi japönskum táknum. Hér eru japönsku táknin (kanji): Innan sviga eru hiraganatákn (sjá Wikipedia). Haru (vorið): Natsu (sumarið): Ame (rigningin): Momo (ferskjan):
35 Regnhlífin Haru (vorið) Momo heitir lítil stúlka sem fæddist í New York. Í Japan þýðir momo ferskja, en þar bjuggu foreldrar hennar áður fyrr. Þegar Momo varð þriggja ára, fékk hún tvær afmælisgjafir – rauð gúmmístígvél og regnhlíf! Hún var svo ánægð með þessar gjafir, að hún vaknaði um nóttina til að skoða þær betur. Natsu (sumarið) Því miður kom hlýtt og sólríkt sumar. Á hverjum morgni spurði Momo mömmu sína á leiðinni á leikvöllinn: „Af hverju kemur ekki rigning?“ Hún fékk alltaf sama svarið: „Bíddu róleg, bráðum rignir.“ Einn morgun var Momo óþreyjufyllri en nokkru sinni fyrr, því að sólin skein óvenju skært. En þegar hún horfði á sólarglampann í mjólkurglasinu sínu, fékk hún ágætis hugmynd og stökk á fætur. „Ég verð að fá regnhlífina mína! Sólin meiðir í mér augun!“ En mamma hennar sagði: „Það verður miklu meira gaman úti í sólskininu án regnhlífar. Við skulum geyma hana þangað til regnið kemur.“ Morguninn eftir var Momo enn jafnleið yfir að geta ekki notað regnhlífina sína. Samt datt henni dálítið nýtt í hug þegar hún horfði út á götuna. „Í dag verð ég að hafa regnhlífina mína! Vindurinn fer í augun!“ En mamma hennar sagði: „Vindurinn getur feykt regnhlífinni þinni út í buskann. Við skulum geyma hana þangað til regnið kemur.“ Ame (rigning) Mörgum, mörgum dögum síðar byrjaði loks að rigna. Mamma Momo vakti hana og sagði: „Komdu á fætur! Það hefur gerst dálítið óvænt!“ Momo gaf sér ekki tíma til að þvo sér í framan. Hún var meira að segja svo áköf að hún fór berfætt í stígvélin.
36 Gangstéttin úti var vot og hrein – allt pírumpárið sem Momo hafði krotað á hana í gær var horfið en í þess stað skoppuðu þar regndropar eins og örsmáar mannverur í dansi. Gatan var full af fólki og hávaðasömum bílum en Momo sagði við sjálfa sig: „Ég verð að ganga fallega eins og fullorðin kona.“ Regndroparnir léku á regnhlífina undursamlegt lag sem hún hafði aldrei heyrt áður. Dripp dripp dropp dropp dropp dripp dripp dropp dropp dropp dripp dripp dropp dropp dripp dripp dropp dropp dripp dripp dropp dropp dripp dripp dropp dropp Það rigndi allan daginn. Momo gægðist öðru hverju út og horfði á rigninguna, meðan hún lék sér á leikvellinum. Hún gleymdi ekki regnhlífinni sinni, þegar pabbi hennar kom að sækja hana. Hún var oftast vön að gleyma vettlingunum eða treflinum – en hún gleymdi ekki regnhlífinni. Gatan var full af fólki og hávaðasömum bílum en Momo sagði við sjálfa sig: „Ég verð að ganga fallega eins og fullorðin kona.“ Regndroparnir léku á regnhlífina undursamlegt lag sem hún hafði aldrei heyrt áður. Dripp dripp dropp dropp dropp dripp dripp dropp dropp dropp dripp dripp dropp dropp alla leiðina heim.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=