Tónlist og líkaminn - kennsluleiðbeiningar

8 Sjón (Nemendabók bls. 6) Myndræn framsetning á tónlist getur verið mismunandi. Nótnaskriftarkerfið þróaðist upp úr miðöldum og varð helsti varðveislumáti tónlistar þangað til upptökutæknin ruddi sér til rúms. Ríkjandi kerfi í nótnaskrift gefur okkur góða mynd af takti og tónhæð en síður þegar tákna á blæ eða hljóðmynd. Tónskáld hafa þó farið aðrar og nýstárlegri leiðir til að skrá niður sín verk og sérstök athygli er vakin á grafískri nótnaskrift György Ligeti. Verkið Artikulation mætti sýna nemendum. Fyrst mynd af grafísku nótnaskriftinni án tónlistar og svo með tónlistinni en myndband af því er að finna á internetinu (leitarorð: Ligeti – Artikulation – graphic notation). Einnig gæti verið gaman fyrir kennara að velta fyrir sér hugtakinu tónlist fyrir augun (úr þýsku Augenmusik) ásamt nemendum. Í þessum kafla notum við grafíska nótnaskrift til að skapa tónverk og til að hjálpa nemendum að skilja hugtök eins og tónstyrk og tónhæð. Tónsköpun – tónaröð Efni: Steinar, skeljar, laufblöð, hljóðfæri • Nemendur tína saman steina, skeljar og laufblöð. Ágætt er að kennari setji takmörk fyrir stærð hlutanna, þ.e. hversu stórir steinarnir eiga að vera. Utandyra er hægt að gera stærra verk ef veður leyfir og væri þá sniðugt að nota trjágreinar, stórgrýti eða jafnvel útilistaverk til að semja tónverk. • Þegar öllu hefur verið safnað saman skal hefjast handa við að hreinsa og þurrka efniviðinn. Ef tími er knappur er hægt að notast við aðra hluti, t.d. blýanta, strokleður, bréfaklemmur o.s.frv. • Þegar nemendur koma í tónmenntastofuna vinna þeir saman í litlum hópum við að búa til tónverkið sitt. • Hver hópur ákveður hvaða hljóð tilheyrir hverjum hlut. • Í nemendabók á bls. 6 er tafla sem nemendur fylla út. Í fyrri dálkinn skrá þeir heiti hlutarins en í þann seinni hvaða hljóðfæri hann táknar. Þannig getur steinn verið nóta á stafspili, laufblað getur verið slag á tamborínu og skel verið klapp.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=