Tónlist og afríka - kennarabók

5 Hermisöngur (Nemendabók, bls. 4) Tónlist er stór hluti af lífi fólks í dag. Varla er hægt að fara út í búð eða á veitingastað án þess að tónlist hljómi þar og sjónvarpsþættir, kvikmyndir og tölvuleikir eru meira og minna uppfullir af tónlist. Við þetta bætist svo sú tónlist sem við veljum sjálf að hlusta á eða spila og syngja. Í Afríku er tónlist líka ómissandi hluti af lífinu. Þar tekur fólk hinsvegar frekar þátt í tónlistinni en að vera fyrst og fremst hlustendur. Fólk syngur gjarnan við vinnu og athafnir daglegs lífs. Þannig verða til söngvar sem sungnir eru t.d. þegar sótt er vatn í brunninn eða farið á veiðar. Til að sem flestir geti tekið þátt í söngnum hafa víxlsöngvar þróast þar sem eru annaðhvort tveir hópar eða forsöngvari og hópur sem kallast á. Forsöngvarinn syngur gjarnan texta sem er alltaf svarað með ákveðnu svari þó texti forsöngvarans breytist og verði mörg erindi. Í þessum kafla er unnið með víxlsöng þar sem hópurinn hermir eftir forsöngvar- anum og er hér því kallaður hermisöngur. Í kaflanum Spurning – svar er fjallað um flóknari víxlsöng þar sem kallast er á í stað þess að endurtaka söng forsöngvarans. Víxlsöngur er þannig yfirheiti en hermisöngur og spurning – svar undirheiti. Kye kye kule (Nemendabók, bls. 5) Þessi hermisöngur, sem kemur frá Gana, er mjög einfaldur með auðlærðum hreyfingum sem flestir ráða auðveldlega við. Gott er að hafa trommuundirleik í laginu t.d. djembei trommu þó vel sé hægt að syngja lagið án undirleiks. • Byrjið á því að kenna lagið. Það er einfaldlega gert með því að biðja nemendur að herma eftir ykkur. Hægt er að nota trommuundirleikinn í hlustunarefninu. • Eftir að hafa sungið það einu sinni má gjarnan benda á að síðasta hending lagsins (kum adende hei!) er ekki endurtekin. • Farið aftur yfir síðustu hendinguna og biðjið nemendur að syngja hana með ykkur í stað þess að endurtaka hana. • Syngið lagið nokkrum sinnum eða þangað til nemendur eru orðnir öruggir. • Bætið hreyfingunum við og kennið þær um leið og lagið er sungið. (Sjá hreyfingar í nemendabók bls. 5).

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=