Tónlist og afríka - kennarabók

3 Tónlist er sá þáttur afrískrar menningar sem einna mest áhrif hefur haft á vestræna og þar með íslenska menningu. Þessi áhrif eru okkur þó ekki alltaf ljós. Sú rytmíska tónlist sem varð til í Ameríku á tuttugustu öld og hafði í kjölfarið gríðarleg áhrif á tónlist víða um heim er rík af afrískum einkennum enda að hluta til mótuð af afkomendum afrískra þræla. Afrísk tónlist er yfirleitt rytmísk í grunninn. Hún byggir á rytma sem er drifkraftur og megin einkenni tónlistarinnar. Hin forna íslenska tónlistar- hefð er hinsvegar að mestu leyti byggð í kringum texta þess ljóðs sem sungið er. Þannig þjónar t.d. skiptitakturinn sem þekkist í mörgum íslenskum þjóðlögum þeim tilgangi að hæfa hrynjandi ljóðsins. Það er því óhætt að segja að afríska nálgunin sé mjög ólík þeirri íslensku og því meiri ástæða til að kynna nemendum grunn hennar þar sem svo mikið af vestrænni tónlist í dag er byggð á hinum rytmíska grunni fremur en að vera sniðin að texta eða hrynjandi ljóðs. Ríki Afríku eru á sjötta tuginn og álfan sem er næststærsta heimsálfan er tæplega fjórum sinnum stærri en Evrópa. Það er því mikil einföldun að setja alla afríska tónlist undir einn hatt. Innan hvers og eins lands Afríku eru gjarnan fjölmargir þjóðflokkar sem hver hefur sína tónlistar- hefð sem er að vissu leyti sérstök og frábrugðin tónlist nágrannanna. Í þessu kennsluefni er að mestu horft til landanna sunnan Sahara eyðimerkurinnar og kynnt verður tónlist frá austur- og vesturströndinni auk sunnanverðrar Afríku. Helsta sameiginlega einkenni tónlistar í löndum sunnan Sahara er rytminn og notkun svokallaðra pólírytma (ísl. fjölhrynur). Í námsefninu er töluvert unnið með einfalda útfærslu polírytma enda eru rytmarnir oft forsenda þess að afrísk tónlist virki sem slík. Afrísk hljóðfæri eru fjölbreytt en oft frekar einföld að gerð miðað við vestræn hljóðfæri og búin til úr efnivið sem finnst í nánasta umhverfi. Þessi einfaldleiki einkennir margt í afrískri tónlist og gerir hana í senn heillandi og aðgengilega. Hér er reynt að fanga þennan einfaldleika með nemendum á yngsta stigi grunnskóla. Námsefnið er einkum ætlað nemendum 3.–4. bekkjar þó vissir hlutar þess henti einnig vel fyrir yngri og eldri nemendur. Formáli

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=