Tónlist og afríka - kennarabók

39 Syngjum saman (Nemendabók, bls. 20–23) Hér eru að lokum þrír einfaldir söngvar sem hægt er að nota á mismunandi hátt með efninu. Söngvarnir standa vel sem sérverkefni en einnig henta þeir til notkunar með öðrum verkefnum bókarinnar. Söngurinn Mungu Yumwema er hér í einfaldri þríradda útsetningu. Hægt er að láta nemendur spreyta sig á að syngja raddað en einnig má nota raddsetninguna fyrir hljóðfæri t.d. ef einhverjir nemendur kunna að spila á blásturs- eða strengjahljóðfæri. Söngurinn Twaingia er hreyfisöngur sem er víxlsöngur og því hægt að nota hann með köflunum Spurning – svar og Hermisöngur. Í nemendabók bls. 21 eru einfaldar hreyfingar við lagið en einnig væri hægt að útfæra þær á annan hátt eða búa til einfaldan dans. Báðir þessir söngvar eru upplagðir til hljóðfæraútsetninga. Söngurinn Nkgatele Mosadi er frá Botsvana. Texti lagsins er í léttum dúr og má e.t.v. líkja honum við texta lagsins Ef þú giftist mér sem oft er sungið í íslenskum brúðkaupum. Í þessu lagi syngur brúðguminn eða eiginmaðurinn til annars manns um að láta konuna sína vera því hann hafi greitt brúðarverðið. Brúðarverðið í þessu tilfelli er búpeningur eins og algengt er meðal þjóðflokka Afríku. Lagið er vinsæll brúðkaupssöngur í Botsvana. Áður en lagið er sungið er gott ræða frekar þennan menningarmun sem er á milli landa og heimsálfa. Þó að margt hafi breyst, sérstaklega í afrísku borgarsam-félagi, þá viðgengst sú hefð enn þá í flestum sveitasamfélögum Afríku að brúðgumi greiði föður brúðarinnar brúðarverð.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=