Tónlist og afríka - kennarabók

38 • Nemendur hlusta á lagið Malaika. • Þegar nemendur hafa náð góðum tökum á að syngja lagið þarf að kenna þeim taktana tvo. • Skiptið hópnum í tvennt og látið þá spila sinn hvorn taktinn með kroppaklappi. Taktinn fyrir hristur er t.d. gott að slá á lær. Taktinn fyrir djembei trommu má spila þannig að neðri nóturnar eru slegnar á bringu en efri klappaðar. • Þegar hóparnir geta kroppaklappað báða taktana saman er best að láta þá skipta um hlutverk þannig að allir kunni báða taktana. • Kennið nú undirleikinn fyrir stafspilin. Hann er tvö þrástef sem má kalla A og B. • Kennið fyrst þrástef A með því að láta nemendur syngja nótnaheitin: F – A – C og C – E – G nokkrum sinnum til skiptis. • Kennið svo þrástef B en það er: Bb – D – F, Bb – D – F, C – E – G – C (stopp). • Afhendið nú hljóðfærin. Það fer algjörlega eftir hljóðfærakosti skólans hvernig þið skiptið nemendahópnum en best er að skipta í fjóra hópa. Hópur 1 fær hristur, hópur 2 fær trommur, hópur 3 fær helming stafspila stofunnar og hópur 4 fær hinn helminginn. • Látið svo hóp 3 æfa þrástef A og hóp 4 æfa þrástef B og spilið því næst lagið í gegn þannig að þrástef A sé aðeins leikið þegar það á við og B þegar það á við. • Ef tími er til og vel gengur má svo láta hópana skipta um hlutverk þannig að allir nemendur læri alla hljóðfærapartana. Skrefinu lengra Eftir þessa yfirferð er tilvalið að halda áfram að kynna sér afríska tónlistarmenn. Láta má nemendur vinna í hópum og leita á netinu. Þeir gætu t.d. valið sér tónlistarmenn til að kynna fyrir bekknum. Einnig má hafa þetta verkefni sem allur bekkurinn vinnur saman undir leiðsögn kennarans. Hér er líka upplagt að skoða ólíka raddbeitingu söngvara. Á hlustunardiskinum sem fylgir bókinni eru nokkur tóndæmi sem nota mætti í þessa vinnu. Skoða mætti betur suðurafríska karlakórinn Ladysmith Black Mambazo og bera saman við íslenskan karlakór.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=