Tónlist og afríka - kennarabók

25 Sungið og dansað (Nemendabók, bls. 16) Í flestum Afríkulöndum er dans nánast órjúfanlegur þáttur tónlistariðkunar og er það m.a.s. svo að í sumum afrískum tungumálum er notað sama orðið fyrir dans og tónlist. Dans er notaður til að túlka og tjá tilfinningar hvort sem er í sorg eða gleði. Dansað er við brúðkaup, þegar barn fæðist, við ýmsar trúarathafnir og jafnvel við útfarir. Í Ómódalnum í suðvestur Eþíópíu búa margir litlir þjóðflokkar sem hver hefur sitt tungumál og sína menningu. Þó þjóðflokkarnir séu að mörgu leyti ólíkir má finna ýmislegt sameignlegt með þeim eins og t.d. hvernig þeir dansa. Dansarnir byggja, líkt og dans Masaía í Kenía, gjarnan á að hoppa í takt. Ekki eru endilega notuð mörg hljóðfæri. Sungið er og klappað og hljóðfærin eru bjöllur sem festar eru á ökkla eða í skinnpils kvennanna. Einnig eru oft notaðar dómaraflautur og blásið í þær í takt við dansinn. Hoppdans frá Suður-Ómó • Nemendur horfa á myndband af fólki frá Suður-Ómó dalnum í Eþíópíu að dansa. Leitarorð: Hamer evening dance South-Omo Hamer women dancing and chanting South-Omo dancing Hamer er nafn eins þekktasta þjóðflokks Suður-Ómó og líklega auðveldast að finna myndbönd af hoppdansi þaðan. Einnig mætti prófa að nota önnur þjóðflokkanöfn frá dalnum, t.d. Tsemai, Banna eða Erbore, sem leitarorð. • Meðal þessara þjóðflokka dansa aðeins konur með bjöllur. Þess vegna mætti skipta nemendum í tvo hópa eftir kynjum þar sem stúlkur fá festar á sig bjöllur. Að sjálfsögðu mætti einnig leyfa drengjunum að prófa að vera með bjöllur eða skipta hópnum í tvennt óháð kyni. • Nemendur dreifa sér um gólfið og æfa sig að hoppa í takt. Kennari getur notað trommu til að slá taktinn sem nemendur fylgja.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=