Tónlist og afríka - kennarabók

24 • Ákveðið merki sem hægt er að gefa með annarri hendi fyrir hvern hljóðfærahóp. T.d. einn fingur á loft fyrir hóp 1, tveir fyrir hóp 2 o.s.frv. og svo fimm fingur á loft fyrir alla hópana. • Kynnið nú hugmyndina um trommuhring þannig að nemendur átti sig á því að trommuhringur snýst um samspil og samhljóm en ekki að allir séu að spila það sama. T.d. hentar ekki að þríhorn leiki sama rytma og bongótromma. Þannig þarf hver hljóðfæraleikari að reyna að finna rödd fyrir sitt hljóðfæri í samhljómnum svo að það njóti sín. • Ákveðið í sameiningu stoppmerki. Það getur t.d. verið rytmi orðanna „saltkjöt og baunir“ sem hópurinn svarar með „túkall!“ • Hefjið svo leik á hljóðfærin. Gefið hópunum merkin sem þið hafið ákveðið um hvenær þeir eigi að leika og hvenær eigi að stoppa. • Kennari getur leikið hvaða rytma sem er en rytmarnir sem kynntir eru í öðrum köflum bókarinnar geta allir nýst í trommuhring. • Notið trommuhringinn til að kynna og vinna með grunnþætti tónlistar eins og styrk og hraða. Gott er að gefa til kynna með handahreyfingum breytingar á styrk en einnig að hvetja nemendur til að vera virkir hlustendur og fylgja stjórnandanum. • Gjarnan má leika sér með víxlsöng þar sem kennari eða nemendur til skiptis kallast á við fyrirfram ákveðið svar hópsins (sjá kaflann um víxlsöng, bls. 12). • Stoppið reglulega til að skipta um hljóðfæri. Látið t.d. alla rétta sitt hljóðfæri til hægri. Þannig fá allir að prófa hljóðfæri úr hverjum hljóðfærahóp í fjórum umferðum. Skrefinu lengra Hægt er að nota trommuhring til að vinna með flesta frumþætti tónlistar. T.d. má leggja áherslu á ólíkan hljóðblæ hljóðfærahópanna með því að láta einn hóp spila í einu og ræða einkenni hljóða hvers hóps. Einnig er hentugt að nota trommuhring til að kenna styrkleikamerkin. Þannig getur kennari útbúið spjöld með þeim merkjum sem hann vill vinna með og rétt þau upp þannig að nemendur þjálfist í að fylgja styrkleikamerkjum í hljóðfæraleik. Svo er um að gera að leyfa nemendum að skiptast á að stjórna styrknum á meðan kennarinn stjórnar hljóðfæraleiknum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=